Snorri Björns: "Laugavegurinn ennþá mjög brattur og langur..."

uppfært 28. ágúst 2020

Samfélagsmiðlastjarnan, ljósmyndarinn og lífskúnstnerinn Snorri Björnsson hefur heldur betur slegið í gegn í hlaupaheiminum hér á landi undanfarin misseri. Eftir að hafa hafnað í fjórða sæti  í Laugavegshlaupinu 2019 gerði Snorri sér lítið fyrir og kom fyrstur Íslendinga í mark í Laugaveginum 2020. Og það þrátt fyrir að hafa aðeins stundað hlaup í örfá ár.

Það kemur kannski mörgum á óvart að Snorri er ekki með sérstaklega mikinn bakgrunn í íþróttum, bjó svo langt frá félagsheimilum íþróttafélaga eins og hann orðar það sjálfur. En hann byrjaði þó að stunda CrossFit á unglingsaldri. Hlaup.is fékk Snorra til að svara nokkrum spurningum um sinn forvitnilega hlaupaferil.

Nú ert þú á skömmum tíma kominn í hóp allra fremstu hlaupara landsins. Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og hvaða skýringar hefur þú á þessum ævintýralega skjóta frama innan íslenska hlaupasamfélagsins?

Eftir sjö ár af CrossFit og ólympískum lyftingum þá hitti ég Arnar Sigurðsson vin minn í hádegismat og hann segir mér frá því því hvernig hann hljóp maraþon á undir þremur tímum. Það er eini skýri snúningspunkturinn í þessari hlaupamaníu sem hefur varað síðustu tvö árin. Ég var alveg heillaður af sub3 pælingunni og hljóp hálft maraþon eftir hádegismatinn okkar. Ég ætlaði ekki að trúa því hvernig það væri líkamlega hægt að hlaupa tvö hálfmaraþon á 4:15 pace (þetta hálfmaraþon sem ég fór var á pace-inu 5 eða álíka).

Snorri Björns LAU2019 2121
Snorri kemur fjórði í mark á Laugaveginum 2019.

Líkaminn minn ætlaði heldur ekki að trúa því að það væri hægt að fara svona langa vegalengd því ég hélt í fullri alvöru að ég væri fótbrotinn næstu tvær vikurnar eftir þetta skyndi-hálfmaraþon. Á sama tíma byrjaði ég með podcast og varð þess heiðurs aðnjótandi að bæði Kári Steinn og Arnar Péturs voru til í að koma í spjall. Arnar heyrði svo í mér eftir spjallið okkar og lét mig hafa þrjár æfingar sem ég gæti gert í hverri viku. Þegar ég sá bætingarnar sem komu í kjölfarið var ég endanlega seldur, skráði mig í Reykjavíkurmaraþonið og fór það á 3:04. Sú braut var víst of stutt og tíminn ógildur svo ég og Sveinn félagi minn skráðum okkur í Amsterdam maraþonið 9 vikum seinna. Ég fór það á 2:56, á löglegri braut, og rústaði hnénu á mér í þokkabót. Enda myndi enginn heilvita maður mæla með tveimur maraþonum á tveimur mánuðum fyrir nýgræðing í hlaupum.

Eftir Amsterdam maraþonið fann ég að ég vildi hlaupa meira og þegar hnéð var komið í lag þá var Laugavegurinn næsta áskorun - þannig virðast markmiðin birtast manni þegar maður heldur áfram að skora á sig. Svo er kannski eitt í þessu öllu saman sem hjálpar mér mjög mikið: það eru svo margir góðir þarna úti sem maður á ekki roð í og það er rosalegur hvati í því að sjá hvað er hægt að gera með því að fylgjast með þessum aðilum. Þetta er mjög skýrt í hlaupum og ólympískum lyftingum. Einhver lyftir 200 kg, hleypur maraþon á 2:17:12, klárar 400 km hlaup eða Laugaveginn á 3:59 - árangurinn er mjög skýr. Bara að vita af aðilum og sjá árangurinn hjá Kára Steini, Arnari, Þorbergi Inga, Elísabetu Margeirs og fleirum sem halda viðmiðunum uppi fyrir okkur hin er algjör lyftistöng fyrir samfélagið.

Hvernig sérðu hlauparann Snorra Björns þróast á næstu árum, sérðu fyrir þér að halda áfram að æfa af kappi og ná ennþá betri árangri?

Ég veit ekki hvert ég stefni í hlaupunum, maður finnur það bara hjá sér og ég reyni ekki að ákveða það fyrirfram, hvort sem það er einn mánuður eða eitt ár fram í tímann. Þetta snýst mjög mikið um áskoranir og markmið fyrir mér. Fyrst var það að komast maraþon, svo fara undir þrjá tímana, svo var það Laugavegurinn… ég er samt ekki kominn með ultrahlaupa bakteríuna ennþá. Mér finnst Laugavegurinn ennþá mjög brattur og langur þrátt fyrir að Þorbergi Inga finnist hann stuttur og flatur.

Heillar það að ná jafngóðum árangri í götuhlaupum og utanvega? Ertu með markmið sem þú vilt gefa upp? (Innskot blaðamanns: Snorri á 37:10 í 10 km, 1:20:30 í hálfmaraþoni og 2:56:01 í maraþoni).

Ég held að bætingarnar mínar í utanvegahlaupum liggi í því að bæta hraðann í þessum styttri hlaupum. Ég er ekki með góðan hlaupastíl og mikinn hraða. Bætingar í 5 km og 10 km myndu gefa helling í lengri vegalengdunum… held ég. Ég er nýr í þessu hvað veit ég? Tobbi var 1500m hlaupari þegar hann sló Íslandsmetið í Laugaveginum...

Undanfarin ár hefur verið mikið talað um þá miklu sprengju sem hefur átt sér stað, að allt að því annað hver Íslendingur sé farinn að hlaupa. Verður þú var við að fleiri séu farnir að hlaupa? Og aukna stemming í íslenska hlaupasamfélaginu almennt?

Það er klárlega hlaupasprengja að eiga sér stað, ég hef samt bara síðustu tvö ár til samanburðar. Finn bara áhugann hjá fólki sem hefur samband við mig, hlustunartölurnar á hlaupatengd podcöst hjá mér og hjá vinum mínum almennt.

Að lokum, hvaða ráð áttu fyrir hlaupara á þessum þreyttu Covid tímum?

Það eru margir betri en ég að gefa að gefa ráð þegar kemur að hlaupum. Mitt ráð væri að leita til þeirra. Fylgdu prógrammi, ekki fara út og gera eitthvað. Ef þú setur þér skýrt markmið og stefnir á að fara ákveðna vegalengd á ákveðnum tíma þá er hlaupaprógram að fara að gera æfingaferlið svo margfalt meira hvetjandi, skemmtilegra og árangursríkara.

Snorri BjörnsLAU2020 2324
Fyrstur Íslendinga á Laugaveginum 2020

Mæli með að hafa samband við Arnar Péturs og/eða Þorberg Inga. Þetta eru okkar tveir bestu hlauparar og ég hef stuðst mikið við þá í þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Ég talaði um að ég væri markmiðamiðaður hérna að ofan, breyting sem ég hef fundið hjá sjálfum mér undanfarið ár er að ég fæ miklu meiri ánægju út úr því að hlaupa en ég gerði. Að fylgja prógrammi heldur manni við efnið og þegar þú stefnir á eitthvað þá neitarðu að sleppa æfingu því þú vilt ná markmiðinu þínu. Svo eftir Laugaveginn 2019 fann ég mig hlaupandi í algjöru tilgangsleysi, ekki með neitt markmið og ég elskaði það. Góður staður að vera á.