Viðtal við Arnar Pétursson eftir Hamborgarmaraþonið: Aðeins tveir Íslendingar hlaupið hraðar

birt 29. apríl 2018

Arnar hæstánægður eftir hlaupið í Hamborg í dag. Arnar Pétursson hljóp frábært maraþon í Hamborg í dag þar sem hann kom í mark á 02:24:13. Þetta er þriðji besti tími Íslendings í vegalengdinni frá upphafi, aðeins Kári Stein Karlsson og Sigurður P. Sigmundsson hafa hlaupið hraðar.

„Ég er virkilega sáttur með hlaupið í heild sinni. Allar æfingar miðuðu við að hlaupa á 2:20:00 en ég vildi ekki taka neina áhættu í dag þar sem aðalmarkmiðið var að sækja góða bætingu og safna keppnisreynslu. Ég undirbjó mig eins og ég hef gert fyrir erfiðar æfingar og notast alltaf við sömu rútínuna, tvær brauðsneiðar í morgunmat og Lýsis Sportþrenna og Liðamín," sagði Arnar í samtali við hlaup.is í kvöld.

Á helling inni fyrir næsta hlaup
Aðstæður voru góðar í Hamborg að sögn Arnars, heiðskýrt, lítill vindur en örlítið heitt eða allt að 20 gráður. „Ég lagði upp með að fara rólega af stað og sjá hvort ég myndi ekki lenda í einhverri góðri grúppu sem ég gæti þá hlaupið með.

Því miður lenti ég í því að vera í smá einksins manns landi allt hlaupið og var einn megnið af leiðinni, ég náði samt að pikka upp nokkra hlaupara á seinni hlutanum sem var mjög gott andlega. Þar sem ég var einn og planið var bara að ná í góða bætingu fór ég þetta bara eftir fíling og passaði mig að eiga nóg eftir. Mér leið mjög vel allan tíman og átti helling inni í lokin. Ég hefði eflaust getað farið töluvert hraðar en er svakalega ánægður með bætinguna og veit að ég á mjög góða möguleika á bætingu í næsta hlaupi."

Næsta markmið að ógna Kára Steini og Sigga P. enn frekar
Arnar átti áður best 02:28:17 í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra og bætti sig því um fjórar mínútur í Hamborg. Íslandsmet Kára Steins Karlssonar í maraþoni er  02:17:12 en fyrra Íslandsmet Sigurðar P. Sigmundssonar sem stóð í 25 ár var 02:19:46. Arnar færir sig því nær tvímenningunum hægt og bítandi en segist þó hafa verið meðvitaður um að hann myndi vart slá þeim við í dag.„Næsta markmið er að færa sig ofar á afrekalistann og gera atlögu að tímunum hjá Sigga P og Kára Steini. Núna á ég þriðja besta tíma Íslendings í maraþoni sem var markmiðið fyrir þetta tímabil, þannig að ég gæti ekki verið sáttari. Í rauninni var ég það ánægður með árangurinn í dag að ég tók mér alveg gott korter í að brynna músum af gleði eftir hlaupið, ógleymanlegt móment," segir Arnar hreinskilinn.Það verður erfitt fyrir Arnar að bæta árangur síðasta árs þar sem hann safnaði hvorki meira né minna en níu Íslandsmeistaratitlum í hinum ýmsu vegalengdum, allt frá 3000m hlaupi og upp í maraþon.

"Íslensku götuhlaupin gera sumarið svo ofboðslega skemmtilegt"
En það vantar þó ekkert upp á spenningin fyrir hlaupasumrinu hjá þessum magnaða íþróttamanni. „Í sumar verð ég duglegur að mæta í götuhlaupin enda er ekkert skemmtilegra en að hitta hlaupara landsins og hlaupa með þeim. Götuhlaupin eru alltaf hápunktur vikunnar hjá mér og gera sumarið svo ofboðslega skemmtilegt. Ég efa að Íslandsmeistaratitlarnir verði jafn margir í fyrra enda var það eitt það erfiðasta sem ég gef gert."

Framundan hjá Arnari er örlítið hvíld þar sem hann mun gefa skrokknum kærkomna hvíld. Framhaldið er að einhverju leyti óráðið en það má svo sannarlega gera ráð fyrir því að Arnar sé með háleit markmið á bak við eyrað. „Eftir hvíldina mun maður svo setjast niður og skrifa niður komandi markmið. Þangað til þá hlakka ég til að sjá sem flesta í götuhlaupunum í sumar," segir Arnar að lokum.

Hlaup.is hvetur alla hlaupaáhugamenn til að fylgjast með Arnari á Instagram þar sem hann er duglegur að leyfa fólki að fylgjast með í leik og starfi. Finna má Arnar á Instagram undir nafninu @arnarpetur.