Viðtal við Arnar Pétursson: Með augun á Ólympíuleikunum 2020

birt 13. september 2018

Arnar Pétursson, einn fremsti langhlaupari landsins ætlar greinilega að leggja allt í sölurnar til að komast á Ólympíuleikana í Tokyo árið 2020. Þessi frábæri hlaupari er á leið til Bandaríkjanna í þriggja mánaða æfingabúðir og eftir áramót hyggst hann fara til Afríku í sömu erindagjörðum. Hlaup.is tók stöðuna á Arnari nú þegar hlaupasumrinu er að ljúka, spurði hann um nýlokið hlaupasumar og framhaldið.

Nú er hlaupasumrinu að ljúka hvernig gekk í sumar, hvað stóð upp úr? „Sumarið gekk alveg frábærlega og það var gaman að geta byggt ofan á Hamborg maraþonið frá því í apríl þegar ég hljóp á 2:24:13. Mér tókst að hlaupa 5 km á 15:13 í Vatnsmýrarhlaupinu. Svo bætti ég brautarmetið í Adidas Boost hlaupinu þar sem ég hljóp á 31:16. Það sem mér fannst hinsvegar skemmtilegast var að opna fyrir hlaupaþjálfun í sumar en ég hef áður verið að þjálfa nokkra einstaklinga án þess að auglýsa það sérstaklega. Núna bauð ég upp á hlaupaprógrömm fyrir alla og það var gaman að sjá alla þátttakendurna bæta sig. Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka var í rauninni frábært hvað mína partar varðar.

Ég átti mjög góðan dag á brautinni (2:26:42) og það var skemmtilegt að sjá betra marksvæði fyrir hálfmaraþon og maraþonhlauparana. Ef mistökin varðandi brautina hefðu komist strax upp er ég samt viss um að upplifunin hefði verið öðruvísi og meira svekkelsi í gangi. Sem betur fer hefur þetta lítil áhrif á mín plön en markmiðið fyrir hlaupið var frekar að stefna á sigur en að hlaupa á ákveðnum tíma."

Hvernig ætlar þú að undirbúa þig undir verkefnin á nýju ári?
 „
Eftir Reykjavíkurmaraþonið tók ég mér tveggja vikna hvíld þar sem ég hljóp ekki neitt en lyfti til að vinna upp vöðvatapið sem verður við maraþon. Núna er svo stefnan sett á þriggja mánaða æfingabúðir í 2100m hæð í Mammoth Lakes í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar er planið að hlaupa 140-200km á viku.

Á milli æfinga ætla ég að skrifa bók um hlaup og bestu leiðirnar til að ná hámarksárangri í hlaupum. Með hlaupaprógrömmunum sem ég gerði í sumar fylgdi hlaupafróðleikur sem gefur fólki hugmynd um efnistök bókarinnar. Í bókinni mun ég fara dýpra í hugmyndafræðina á bak við allar æfingar og í raun um allt sem viðkemur hlaupum."

Þú hefur verið óhræddur við að tala um markmið þitt að komast á Ólympíuleikana árið 2020. Hvernig sérðu leiðina fyrir þér?  „Núna ætla ég mér að einbeita mér algerlega að hlaupunum og æfingabúðir í Mammoth Lakes eru upphafið á rúmlega 7 mánaða undirbúning fyrir að reyna við ólympíulágmark í maraþoni í apríl á næsta ári. Ég hef verið ansi lengi samfellt í námi og núna í október er ég að útskrifast úr Háskóla Íslands með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja en ég hef áður lokið meistaragráðum í endurskoðun og reikningsskilum sem og meistaragráðu í kennsluréttindum fyrir framhaldsskóla. En núna ætla ég mér að setja alla orku í hlaupin.Fyrir seinustu Ólympíuleika var lágmarkið 2:19 og er stefnan sett á að hlaupa hraðar en það og vonandi að reyna við Íslandsmetið í leiðinni, ef það tekst ekki í apríl mun ég reyna aftur í september. Eftir áramót verð ég svo í Afríku, einnig í háfjallaæfingabúðum og svo er stefnan sett á að hlaupa 10 km í Leverkusen og reyna við Íslandsmetið sem er 30:11.

Í lok mars ætla ég að hlaupa hálft maraþon og vonandi hlaupa nálægt 1:05 þar."

Að lokum, hvernig finnst þér íslenska hlaupasamfélagið vera að þróast? Hvað erum við að gera vel og hvað má gera betur?
„Það sem verður kannski einna erfiðast við að vera svona mikið erlendis er að maður missir svolítið sambandið við íslenska hlaupasamfélagið en mér hefur alltaf fundist vera einstaklega gott og jákvætt andrúmsloft í hlaupunum. Þess vegna hef ég alltaf verið að hvetja fólk til að mæta á æfingu hjá hlaupahópum eða mæta í hlaupin. Því ég veit að þá munu þau fá sömu upplifun og ég og smitast endanlega af hlaupabakteríunni.

Það sem hefur kannski vantað á Íslandi er að búa til góða stemmingu eftir hlaupin svo fólk hafi stað og tækifæri til að spjalla saman að hlaupi loknu. Nokkur hlaup hafa verið góð í þessu en það er alltaf hægt að gera betur. Svo mætti líka vinna í því að gera upplifun hlaupara í öllum hlaupum aðeins betri. Þannig eru litlir hlutir eins og kúabjöllurnar í Hleðsluhlaupinu alltaf mjög skemmtilegar."