Viðtal við Björn Magnússon: Kominn á áttræðisaldur og lætur hjartaóreglu ekki trufla sig

birt 31. ágúst 2018

Afrek geta verið afstæð, við getum horft á Arnar Pétursson eða Elísabetu Margeirsdóttur og litið á þau sem afreksfólk á heimsmælikvarða sem þau að sjálfsögðu eru. En svo höfum við alla hina hlauparana sem hlaupa á öðrum forsendum en berjast að mörgu leyti við sömu áskoranir og hindranir og afrekshlauparar. Sigrar þeirra eru síst minni en afrekshlauparana, bara annarskonar.Öll höfum við okkar áskoranir, já eða afsakanir fyrir því að hlaupa minna eða hreyfa okkur alls ekki. Björn Magnússon, 71 árs læknir á Selfossi ætti eðli málsins samkvæmt að hafa nóg af afsökunum til að láta hlaupaskóna safna ryki. Hjartaóreglu eða aldur notar Björn hins vegar ekki sem afsökun fyrir kyrrsetu, þvert á móti, hvetja þessar afsakanir Björn til dáða.

71 árs og hljóp hálfmaraþon á 1:52:13

Læknirinn Björn hafnaði í öðru sæti í sínum aldursflokki í hálfmaraþoni Reykjavíkurmaraþonsins í ár á tímanum, 1:52:13. Ef þú hlaupari góður situr heima og neitar að trúa að þú getir náð háleitum markmiðum er gott að leiða hugann að Birni, hann gæti sannfært þig um að kasta öllum afsökunum út á hafsauga.„Ég hleyp fyrst og fremst mér til heilsubótar og ánægju. Ég læt yfirleitt nægja að hlaupa þrisvar í viku enda hefur lífið upp á margt annað að bjóða og á að mínu mati ekki eingöngu að snúast um hlaup. Líkaminn er þó gerður fyrir hreyfingu og ég er ekki í nokkrum vafa um að ekkert er eins gott fyrir heilsuna og reglubundin hreyfing. Ég sé það daglega í störfum mínum hvað kyrrseta og hreyfingarleysi, sérstaklega á efri árum eru skaðleg heilsunni," segir Björn í viðtali við hlaup.is.

"Blessunarlega hef ég verið líkamlega hraustur og aldrei misst dag úr vinnu vegna veikinda. Hinsvegar hef ég fengið hjartsláttaróreglu í tengslum við vélindabakflæði sem algengt er í mínum ættum og einu sinni þurft á rafvendingu að halda. Ég fæ hins vegar aðeins einkenni ef ég verð kærulaus og slaka eitthvað á í hlaupunum. Læknar álíta hjartað hraust eftir rannsóknir og ég tek engin lyf vegna þessa. Ég læt þetta smáræði ekki stoppa mig á nokkurn hátt," segir Björn sannfærður um jákvæð áhrif hreyfingar og hlaupa á mannslíkamann.

Byrjaði að hlaupa skipulega um sextugt

En saga Björn sem hlaupara er einkar áhugaverð og ætti að vera öllum innblástur, ekki síst þeim sem telja sig ekki geta hlaupið af einhverjum ástæðum. Ólíkt því sem trúa mætti þá byrjaði Björn mjög seint að hlaupa. „Upphaflega fór ég að hlaupa reglubundið rétt fyrir sextugt en tíu árum áður hafði ég þó skokkað af og til en ekki með reglubundnum hætti. Tók t.d. þátt í fyrsta Barðsneshlaupinu 1997. Ástæða þess að ég fór að hlaupa nokkuð reglubundið var sú að 59 ára gamall gekk ég yfir hálendið á sex dögum með tengdasyni mínum Hálfdáni Steinþórssyni. Frá Bárðardal, yfir Óðdáðahraun um Jónsskarð í Dyngjufjöllum, um Öskjusvæðið að Kárahnjúkum niður Jökuldalinn, til Reyðarfjarðar og þaðan loks yfir Fönn á Neskaupsstað. Við gengum þrátt fyrir lítinn undirbúning, allt að 50 km á dag með allann  búnað og náðum upp þokkalegum styrk og þoli auk þess að léttast verulega," segir Björn um tildrög þess að hann fór að hlaupa með skipulögðum hætti.„Við ákváðum því að fyrst við gátum gengið alla þessa leið hlytum við einnig að geta hlaupið maraþon sem við gerðum svo í Madrid tæpum tveimur mánuðum fyrir sextugsafmæli mitt. Madrid maraþonið þykir erfitt og ekki fyrir byrjendur. Við kunnum ekkert að æfa fyrir svona hlaup, hlupum sjaldan lengra en 15 km og ekki oftar en þrisvar í viku. Hlaupið gekk þó vonum framar en tengdasynir mínir tveir og mágur minn voru þó frekar súrir þegar ég, gamli maðurinn kom fyrstur í markið," segir Björn í léttum tón.

Finnst sérstakt að eldri hlauparar láti staðar numið

Björn lét ekki staðar numið þarna, hefur vart hætt að hlaupa síðan og undanfarin tíu ár hlaupið þrettán maraþon og nokkur hálfmaraþon. Björn hefur undanfarin ár gjarnan verið ofarlega í sínum aldursflokki í Reykjavíkurmaraþoni, hafnaði t.a.m. í þriðja sæti í maraþoni í sínum aldursflokki í RM árið 2009 á 3:41:13 ásamt því að landa öðru sæti í hálfmaraþoni í ár eins og áður sagði.

„Eftir að ég varð sjötugur hef ég svo hlaupið tvö maraþon, hið fyrra á síðasta ári í Reykjavík þar sem ég hafnaði í fimmta sæti. Ég var ekki ánægður með tímann og ákvað því að taka þátt í Mývatnsmaraþoninu í vor en þar hljóp ég á 4.12.38 skv minni klukku."Björn sér því ekkert til fyrirstöðu að Íslendingar haldi áfram að hlaupa þó árin færist yfir, lengri vegalengdir eða maraþon þurfi þó ekki endilega að vera markmiðið. „Mér finnst svolítið skrýtið hversu margir Íslendingar virðast hætta hlaupum um sjötugt. Þannig var ég eini Íslendingurinn í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni í fyrra. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram hlaupum þótt heilt maraþon sé ef til vill full erfitt," segir Björn ákveðinn.

Vestmannaeyjahlaupið um helgina

Björn hefur lengst af hlaupið einn en undanfarin tvö ár hlaupið með Frískum Flóamönnum á Selfossi. „Það hefur verið til mikilla bóta enda hef ég tekið framförum með þeim og þá aðallega hvað varðar hraða, sem ég hugsaði lítið sem ekkert um áður. Hópurinn hittist þrisvar í viku í öllum veðrum undir öruggri stjórn stórhlauparans Sigmundar Stefánssonar sem stjórnar sínu liði af festu."

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Björn er langt frá því að leggja hlaupaskóna á hilluna og hefur skýr markmið. „Hvað framtíðina varðar held ég hlaupunum áfram á meðan ég get. Ég tel að ég geti enn bætt hraðann en stefni frekar á hálft en heilt maraþon. Þegar maður svo hættir að geta hlaupið er vonandi bara hægt að ganga," segir Björn jákvæður. Þess má geta að Björn er skráður í hálft maraþoni í Vestmannaeyjahlaupinu um næstu helgi og er að íhuga að taka þátt í landvættum á næsta ári.Munum að hetjurnar leynast víðar en bara á verðlaunapöllum. Finnum okkur áskoranir við hæfi, setjum okkur raunhæf markmið, smíðum okkar eigin verðlaunapall. Markmið sem áður virtust óralangt í burtu verða skyndilega í seilingarfjarlægð. Það er svo margt annað í þessu lífi en sófinn, tölvuskjárinn eða sjónvarpið.