Viðtal við Elísabetu Margeirs: : "Hlaup eru ekki í tísku að ástæðulausu"

birt 09. janúar 2014

Bókin Út að hlaupa kom út fyrir jólin en höfundar eru þær Elísabet Margeirsdóttir og Karen Kjartansdóttir. Báðar hafa þær reynslu af hlaupum, sérstaklega Elísabet sem hefur tekið þátt í fjölda keppnishlaupa bæði innanlands og utan. Bókin er kynnt sem alhliða hlaupabók sem gott er að eiga og grípa í þegar hlaupara þyrstir í fróðleik um allt mögulegt sem tengist hlaupum.

Það er óhætt að segja að fjölbreytni ráði ríkjum í bókinni en í henni má finna allt frá tillögum að hlaupalögum til sérhæfðrar ráðgjafar sjúkraþjálfara. Hlaup.is ræddi við Elísabetu um efni bókarinnar og hlaup í stóra samhenginu.Hver var kveikjan að gerð bókarinnar?Ég og fyrrverandi samstarfskona mín Karen Kjartansdóttir fórum að spjalla um hlaup eftir að hún byrjaði að hlaupa eftir barneignir með góðum árangri. Karen hafði safnað að sér mörgum erlendum hlaupabókum og datt í hug að þýða slíka bók á íslensku. Hún leitaði til mín en við komust að þeirri niðurstöðu að það væri ómögulegt að þýða erlenda hlaupabók heldur væri betra að skrifa séríslenska hlaupabók frá grunni fyrir íslenskar aðstæður. Ég hafði alltaf gengið með þá hugmynd í maganum að miðla minni reynslu af hlaupum og næringu og því var okkar samstarf mjög gott.Hefur bók sem þessa vantað fyrir íslenska hlaupara?Það eru auðvitað til fullt af góðum íslenskum upplýsingum á netinum um hlaup t.d. á hlaup.is og hlaupahópar eru duglegir að miðla fróðleik um hlaup. Gunnar Páll Jóakimsson hefur gefið út Hlaupahandbókina í mörg ár sem hefur reynst mörgum vel. Okkur þótti þó vanta alhliða rit sem myndi tala til þeirra sem hafa ekki enn reimt á sig skóna. Við fjöllum einnig mikið um lífsstílinn og hvernig hægt er að gera hlaupin ánægjulegri.

Af hverju ætti fólk að fá sér bók um hlaup, er ekki nóg fyrir "meðaljóninn" að eiga hlaupaskó og koma sér af stað?
Góðir hlaupaskór og drifkraftur þurfa að sjálfsögðu að vera til staðar þegar við byrjum að stunda hlaup. En það er nú þannig að margir byrjendur fara allt of geyst af stað og því tel ég gott fyrir þá að lesa sig aðeins til áður en lagt er af stað. Það er gott að fara yfir nokkur praktísk ráð sem koma í veg fyrir byrjendamistök og stuðla þannig að betri langtímaárangi t.d. með því að fylgja góðri æfingaáætlun fyrir byrjendur og hvernig eigi að fyrirbyggja meiðsli. Sjálfri finnst mér alltaf gaman að lesa fróðleik um hlaup og fer mikið inn á hlaupsíður til að fá hugmyndir um hvernig ég get gert hlaupin skemmtilegri og árangursríkari. Einnig skoða ég margar vísindagreinar um hlaup og þá sérstaklega þær sem fjalla um næringu og þolíþróttir.

Þið kynnið bókina sem alhliða hlaupabók, nýtist hún langreyndum hlaupurum jafn vel og þeim sem eru rétt að leggja drög að því að kaupa hlaupaskó?
Já hún hentar hlaupurum á öllum stigum og við förum yfir víðan völl. Bókin mun vissulega gagnast byrjendum sérstaklega vel en ekki síður þeim sem hafa hlaupið í einhvern tíma. Upprifjun er alltaf góð og það munu allir hlauparar finna einhver fersk og góð ráð. Það er kafli í bókinni um keppnishlaup fyrir lengra komna og þar má finna skemmtilegar æfingaáætlanir fyrir þá sem vilja taka skrefið lengra.

Elísabet kemur í mark í Boston maraþoni 2013Hvernig viðtökur hefur hún fengið?Bókin hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur og allar umsagnir sem ég hef lesið hafa verið mjög jákvæðar. Hún var á metsölulista í tvær vikur og spurning hvort það verði ekki annar kippur nú þegar fólk fer að huga að Reykjavíkurmaraþoninu eftir áramót.  Það er gaman að heyra hvað hún nýtist mörgum sem eru að byrja og fólk bendir á ólík ráð og kafla sem eru í uppáhaldi. Mörgum finnst gaman að lesa ráð hlauparáðgjafanna okkar eftir hvern kafla og margir hrósa kaflanum um meiðsli og styrktaræfingar sem Róbert Magnússon sjúkraþjálfari ritstýrði. Hlaupakortin og lagalistarnir hafa einnig fengið mikla athygli.Að lokum, af hverju heldur þú að hlaup sem líkamsrækt séu í jafn mikilli sókn hér á landi og raun ber vitni?Þjóðin hefur áttað sig á því að góð heilsa skiptir öllu máli og þar sem flestir eru í kyrrsetustörfum er nauðsynlegt að finna sér skemmtilega hreyfingu til að stunda reglulega. Sjálf er ég sannfærð um að hlaupin séu besta líkamsræktin með "dassi" af krossþjálfun og styrktaræfingum sem stuðla að vöðvajafnvægi. Einfaldleikinn er frábær og það er gott að geta stokkið út ef maður hefur lítinn tíma. Mér finnst líka æðislegt að hlaupa í útlöndum og kynnast þannig nýjum stöðum. Hlaup eru ekki í tísku að ástæðulausu því þau eru skemmtilegri og fjölbreyttari en margir halda og það er hægt að ná ótrúlegum árangri á skömmum tíma.

 Heimir Snær Guðmundsson