Viðtal við Kára Stein Karlsson: "Markmiðin eru einfaldlega bætingar og Íslandsmet í öllum greinum."

birt 26. mars 2014

Keppnismaður í ham á ÓL 2012 í London.Kári Steinn Karlsson er orðinn nokkurs konar þjóðareign okkar Íslendinga eftir afrek sín undanfarin ár. Með árangri sínum á Ólympíuleikunum í London árið 2012, þar sem hann lenti í 42. sæti í maraþonhlaupi, hefur Kári Steinn skipað sér á bekk með allra bestu frjálsíþróttamönnum sem Íslendingar hafa átt.Til marks um hve framarlega Kári Steinn stendur í sögulega samhengi íslenskra íþrótta má nefna Íslandsmet hans í maraþonhlaupi frá 2011, en þar sló Kári Steinn loks Íslandsmet Sigurðar P. Sigmundssonar sem hafði staðið óhaggað í 25 ár. Eftir Ólympíuárið 2012, var Kári Steinn ekki upp á sitt allra besta í fyrra en var samt valinn langhlaupari ársins í vali sem hlaup.is hefur staðið fyrir undanfarin ár. Kári Steinn mun ásamt sjö öðrum hlaupurum keppa á HM í hálfmaraþoni í Kaupmannahöfn um næstu helgi. Blaðamaður hlaup.is  ræddi við Kára Stein fyrir skömmu og afraksturinn verður birtur hér á hlaup.is um helgina, fyrri hluti hér að neðan og sá seinni á morgun.Lenti á vegg og breytti áherslum- Síðasta ár var frekar rólegt hjá þér, ertu sáttur með árangurinn 2013?  "Ég er sáttur með síðasta ár þó svo að ég sé ekki sáttur við árangurinn. Ég byrjaði árið af krafti og æfði vel en þrálát veikindi og meiðsli settu strik í reikninginn. Þegar kom fram á vorið og ég keppti á fyrsta móti sumarsins má segja að ég hafi brotlent og árangurinn var langt undir væntingum," segir Kári Steinn.

"Ég fann að ég var langþreyttur og neistinn og viljinn til að keppa og ná árangri var ekki sá sami.Ég ákvað því að stokka upp í rútínunni og minnkaði hlaupin en stundaði þess í stað jóga, hjólreiðar, styrktarþjálfun, sund og annað af krafti. Það má því segja að ég hafi æft jafn mikið og ég er vanur en með öðrum áherslum. Ég fékk því kærkomna hvíld frá hefðbundinni rútínu og fann þegar leið á sumarið að gamla hungrið og viljinn kom smám saman aftur og ég byrjaði svo aftur af krafti í október. Sumarið var skemmtilegt, "hvíldin" var akkúrat það sem ég þurfti og árangurinn góður miðað við aðstæður og æfingar," segir Kári Steinn um síðasta ár sem greinilega hefur verið lærdómsríkt fyrir þennan auðmjúka afreksmann.

Endurnærður og stefnir á Íslandsmet í öllum greinum í ár
Það er greinilega ekki að ástæðulausu að þjálfarar og annað fagfólk á sviði hlaupa mæla með fjölbreyttri þjálfun enda virðast slíkar áherslur hafa skilað Kára Steini endurnærðum á líkama og sál. Hungrið og metnaðinn virðist í það minnsta ekki vanta þegar Kári Steinn er spurður um markmið á árinu sem hann leggst mjög vel í hann: "Markmiðin eru einfaldlega bætingar og Íslandsmet í öllum greinum," segir Kári Steinn sem stefnir m.a. á þátttöku á HM í hálfu maraþoni í Kaupmannahöfn í lok mars, Rotterdammaraþonið í apríl og EM í ágúst þar sem hann hyggst hlaupa maraþon.

Fyrir hinn dæmigerða frístundahlaupara er forvitnilegt að fá að skyggnast inn í æfingaviku Kára Steins eins og hún leit út í janúar og febrúar þegar viðtalið var tekið. "Ég hef verið að vinna meira í hraða og sýruúthaldi síðustu vikur og hef verið að hlaupa um 140 km á viku að jafnaði. Ég ætla að taka stutt innanhústímabil, auka svo magnið í um 160 km á viku og taka sérhæfðar maraþon æfingar fram af HM í hálfu og Rotterdam maraþoni," segir Kári Steinn um áætlanir sínar á árinu."Æfingavikan er frekar hefðbundin, langur túr, tvær gæðaæfingar, ein millierfið æfing og svo létt skokk og styrktaræfingar þess á milli," sagði Kári Steinn um æfingar sínar í janúar og febrúar.Kári Steinn með þjálfara sínum Gunnari Páli Jóakimssyni eftir að hafa sett Íslandsmet í Berlínarmaraþoninu 2011.

Getur verið erfitt að halda andanum uppi yfir kaldasta veturinn
Að vera afreksmaður í langhlaupum er í eðli sínu gríðarlega krefjandi, ekki síður andlega en líkamlega. Bætum við íslenska vetrinum og þá er gjörsamlega ómögulegt að gera sér í hugarlund hversu hversu erfitt er að fara eftir þeirri æfingaáætlun sem Kári Steinn deilir með okkur hér að ofan.

-Hvernig hefur gengið að æfa í vetur á kalda Íslandi, er ekki erfitt að viðhalda andanum og metnaðinum yfir háveturinn í þeim aðstæðum sem við búum við á hér á landi? "Það hefur gengið vel en getur vissulega verið erfitt. Ég er í góðum æfingahóp sem hjálpar mér að halda andanum uppi og svo æfi ég mikið í Laugardalshöllinni sem gerir mér kleift að taka toppæfingar allt árið um kring. Í janúar skellti ég mér í æfingabúðir með Þorbergi Inga til Kanaríeyja. Það hjálpar heilmikið að brjóta upp og stytta veturinn aðeins með slíkri ferð," segir Kári Steinn fullur af jákvæðni.

Eins og flestir hlauparar vita þarf meira til heldur en hefðbundnar hlaupaæfingar til að taka framförum en hins vegar er misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Þegar Kári Steinn er spurður hvaða æfingar utan hinna hefðbundnu henti honum best, svarar hann því til að hann stundi jóga, sund og hjólreiðar af og til. "En það sem mér finnst skila sér best yfir í hlaupin eru maga- og bakæfingar, stílæffingar og sérhæfðar hlaupastyrktaræfingar," útskýrir Kári Steinn.

Kári Steinn að kreista fram síðustu dropana á lokaspretti í London 2012. Við sem fylgjumst með íþróttum og hlaupum hér á landi höfum vart komist hjá því að taka eftir þeirri hógværð sem einkennir alla framkomu Kára Steins. Það kemur því ekki á óvart að Kári Steinn er frekar stuttorður þegar hann er beðinn um að lýsa styrkleikum sínum sem hlaupara. Hann fæst þó til að játa að hann sé agaður, mikill keppnismaður og gefi sig allan í keppnir.Kári Steinn er öllu málglaðari þegar kemur að því að tala um veikleika sína sem hlaupara. "Ætli það sé ekki einna helst það sem ég geri milli æfinga. Ég mætti borða hollari og fjölbreyttari fæðu og vera minna duglegur við að borða súkkulaði. Eins mætti ég alveg sofa meira og hugsa betur um líkamann á milli æfinga t.d. með nuddi, teygjum og öðru. Ég reyni að standa mig vel í þessu en mætti gera miklu betur," segir Kári Steinn.

Hefðbundið mataræði nema hlaup sé lengra en 90 mínútur
Talið berst næst að þeim ytri þáttum sem þurfa að vera í lagi hjá afreksmanni á borð við Kára Stein. -Hvernig hagar þú mataræðinu síðustu sólarhringana fyrir hlaup og morguninn fyrir keppni? "Mataræðið hjá mér er hefðbundið nema ég sé að fara hlaupa keppnishlaup sem tekur lengri tíma en ca. 90 mínútur, þá reyni ég að borða kolvetnaríka fæðu dagana fyrir keppni. Í maraþonundirbúningi miða ég við að byrja borða mikið af kolvetnum 3 dögum fyrir keppni. Morguninn fyrir keppni er það alltaf brauð og banani, sama hvað hlaupið er langt," segir Kári Steinn.

- Nánar að undirbúningnum fyrir keppni, hvernig hagar þú andlegum og líkamlegum undirbúningi síðustu daga fyrir keppnishlaup? "Andlega reyni ég fyrst og fremst að vera jákvæður í öllum mínum vangaveltum um hlaupið. Ég fer yfir allan undirbúninginn og vinnuna sem ég hef lagt að baki og hef trú á að allt sem ég hef gert fram að hlaupi eigi eftir að skila sér keppninni. Einnig reyni ég oft að skoða brautina vel og um leið fara í gegnum hlaupið í huganum.Annars eru það aðallega jákvæðar hugsanir og að hafa trú á sjálfum sér og æfingunum sem lagðar hafa verið að baki. Líkamlegur undirbúningur er frekar lítill svona síðustu dagana, allar æfingarnar eru komnar í "bankann" og lítið annað að gera en að vera frekar slakur á því, minnka æfingaálag, reyna að losa um alla þreytu og fá ferskleika í lappirnar. Létt skokk, teygjur, nudd og ísböð finnast mér til dæmis hjálpa til við að losa um þreytu."    Ólympíufararnir Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpari, Kári Steinn og júdókappinn Þormóður Árni Jónsson.

Æfði bæði fótbolta og handbolta sem unglingur
Það er nokkuð ljóst að afreksmaður eins og Kári Steinn stekkur ekki fram á sviðið fullmótaður, á bak við árangurinn hlýtur að liggja gríðarleg vinna. Því er kannski við hæfi að spyrja hvernig það hafi komið til að Kári Steinn leiddist út í hlaupin.
- Hvenær byrjaðir þú að æfa hlaup? Prófaðir þú aðrar íþróttir? "Ég byrjaði í fótbolta 6 ára gamall og stundaði hann með hléum til 16 ára aldurs. Mín aðalíþrótt var hins vegar körfubolti sem ég æfði af krafti frá 8 til 16 ára aldurs. Samhliða körfuboltaæfingunum var ég duglegur að lyfta og hlaupa og var alltaf í góðu formi. Ég tók þátt í götuhlaupum af og til og þegar ég hljóp 10 km á 37:19, 14 ára gamall fór ég að leiða hugann að því að prófa hlaupin meira. Vorið eftir tók ég þátt í Víðavangshlaupi ÍR þar sem ég hljóp á 17:29 og fékk í kjölfarið símtal frá Ólafi Margeirssyni sem bauð mér á æfingu. Ég sló til og þá var ekki aftur snúið."

Kári á námsárunum í BerkeleyHraðaspurningar með Kára SteiniHvar er skemmtilegast að hlaupa?HeiðmörkÁttu fyrirmyndir í hlaupum?Já en engin ein sem stendur upp úr. Besti hlaupafélaginn?Tobbi (Þorbergur Ingi Jónsson)Uppáhalds búnaður tengdur hlaupum?HlaupaskórUppáhalds hlaupafatnaður?NikeUppáhalds hlaupaskór?Nike Flyknit RacerHverjar eru syndir Kára Steins á "frí og nammidögum?"Ég er alveg veikur fyrir frönskum kartöflum.Hvaða vegalengd er skemmtilegast að hlaupa?HálfmaraþonÁ hvaða tíma árs er skemmtilegast að hlaupa?SumrinHleypur þú með tónlist í eyrunum?OftastUppáhalds hlaup innanlands?GullspretturinnUppáhalds hlaup erlendis?BerlínarmaraþonHlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?Ólympíuleikarnir í Ríó

Að vissu leyti viðbrigði að koma heim eftir árin í Kaliforníu
Ekki nóg með að Kári Steinn sé framúrskarandi langhlaupari heldur er hann einnig frábær námsmaður. Hann nýtti sér hvort tveggja og stundaði nám í verkfræði við Berkeley háskólann í Kaliforníu, einn þann þekktasta sinnar tegundar í heiminum. Kári Steinn var í fjögur ár í Berkeley á skólastyrk sem hann fékk út á hlaupin og æfði með skólaliðinu við frábærar aðstæður. Kári segir óhætt að segja að aðbúnaðurinn hafi verið eins og best verður á kosið, góðir þjálfarar, frábær aðstaða, gott veður allt árið og góðir æfingafélagar.

Kári var í fjögur ár við nám í Berkeley háskóla í Kaliforníu.-Eftir að hafa verið í þessu umhverfi í fjögur ár, var ekki erfitt að koma heim aftur, þ.e. íþróttalega séð? "Það var að vissu leyti erfitt að koma heim en á sama tíma gott að breyta um umhverfi. Ég var úti í fjögur ár og var alveg tilbúinn að koma aftur heim að þeim tíma loknum. Ég neita því þó ekki að ég sakna Kaliforníu en ég hef það þó merkilega gott hérna heima.Ég er með algjöran toppþjálfara (Gunnar Pál Jóakimsson), ég er í flottum æfingahóp og svo nýt ég góðs af Laugardalshöllinni og frábærri aðstöðu í World Class þannig ég hef enga afsökun fyrir því að æfa eitthvað minna en í Kaliforníu," útskýrir Kári Steinn sem hefur svo sannarlega nýtt sér íþrótt sína sér til góða.

Segir að atvinnumennska myndi ekki henta sér
Ólíkt mörgum keppinautum sínum út í heimi þá er Kári Steinn ekki atvinnumaður í sinni grein. Kári Steinn kvartar þó ekki og segir að núverandi tilhögun henti sér ágætlega en hann starfar hjá Icelandair Technical Services. Hann svarar því þó til að auðvitað hafi vinnan áhrif á æfingar og endurheimt. "Ég er þó sáttur með þessa rútínu og myndi ekki vilja breyta henni. Ég er vanur að hafa mikið að gera og þrífst vel á því. Ég er hræddur um að ég myndi ekki endast lengi ef ég væri bara að hlaupa og slappa svo af allan daginn þess á milli. Svo þarf ég líka á tekjunum að halda burt séð frá því."

Þeir sem stunda hlaupa af kappi þekkja vel að æfingar geta verið tímafrekar. Hvað þá hjá afreksmanni sem er sífellt með augun á næsta heimsmeistaramóti eða Ólympíuleikum með tilheyrandi æfingum, endurheimt, mataræði og öguðum lífstíl. -Hvernig skyldi Kára Steini ganga að sameina þennan lífstíl einkalífinu en hann er í sambúð med Aldísi Arnardóttur? "Þetta virðist bara fara alveg merkilega vel í hana enda er ég búinn að ná mér í alveg einstaka stelpu. Síðan hefur mér tekist að smita hana aðeins af hlaupabakteríunni líka þannig að þetta hefur bara gengið eins og í sögu."-Áður en við sleppum Kára Steini spyrjum við hann um besta ráðið sem hann getur gefið hinum fjölmörgu hlaupurum sem eru þarna útì? "Að hlusta á líkamann og bregðast strax við óeðlilegum verkjum. Stöðugleiki í æfingum er lykilatriði að mínu mati og því er mikilvægt að halda sér heilum. Það gerir ekkert til þó svo að maður missi úr æfingar hér og þar vegna eymsla og þreytu. Ef eymslin verða að meiðslum þá verða æfingadagarnir sem maður missir út að vikum og það er ekki vænlegt til árangurs," segir okkar fremsti langhlaupari í dag.Kári Steinn og kærasta hans Aldis Arnardóttir.