Yfirheyrsla: Arnfríður Kjartansdóttir úr UFA Eyrarskokki

birt 12. maí 2015


Arnfríður kann vel við sig á fjöllum.

Arnfríður Kjartansdóttir er 54 ára Akureyringur sem er er ein þessum athyglisverðu hlaupakonum sem hafa verið að gera flotta hluti á undanförnum árum. Það er ekki síst á vettvangi ofurhlaupa sem Arnfríður hefur unnið afrek sem ekki eru á allra færi, hvað þá hlaupara á sextugsaldri. Gefum Arnfríði orðið.

Fullt nafn: Arnfríður Kjartansdóttir.

Aldur: 54 ára.

Heimabær: Akureyri.

Fjölskylda: Þrjú uppkomin börn.

Skokkhópur? Eyrarskokk og bara hver sem er.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Get ekki nefnt einhverja ákveðna dagsetningu, hef af og til hlaupið síðan ég var barn, en samt aldrei æft frjálsar. Var gift hlaupara og miðað við hann fannst mér ég ekki vera að gera mikið en tók þó þátt í nokkrum keppnishlaupum svona á milli barneigna á mínum yngri árum. Svo kom nokkurra ára pása þar til haustið 2005 þegar ég ákvað að gera eitthvað róttækt. Það hjálpaði til að það flutti Border collie hvolpur inn á fjölskylduna og hann er besti hlaupafélagi sem ég hef haft. Í heilan vetur fórum við tvö út á hverjum einasta virka morgni í skjóli myrkurs og skokkuðum alltaf sama hringinn, 4,5 km. Þá var ég einstæð móðir með þrjú börn og í fullri vinnu þannig að það var ekki inni í myndinni að fara út að hlaupa á öðrum tímum dagsins. Svo leiddi eitt af öðru. Í byrjun árs 2006 strengdi ég þess heit að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavík í ágúst og lét ekki nokkurn mann vita af því. En ég stóð við það. Reyndar hafði ég farið hálft maraþon 9 árum áður, í boðhlaupi á móti manninum mínum fyrrverandi og við fengum samanlagt mjög góðan maraþontíma.

Áramótaheitið 2007 var að fara heilt maraþon í ágúst og þá sagði ég hverjum sem heyra vildi frá. Ekki skemmdi fyrir að hlaupahópurinn Eyrarskokk var stofnaður um vorið og ég mætti þar á fyrstu æfingu og stundaði hlaupin grimmt með þeim. Svo leiddi eitt af öðru, ég fór að spá í Laugaveginn, sem ég hljóp 2009 og eftir hann datt mér í hug að prófa stystu vegalengdina í UTMB hlaupunum, CCC sem þá var 98 km. Það gekk og ég skráði mig í TDS árið eftir og þannig bara koll af kolli. Sumarið 2014 fór ég Fire and Ice Ultra sem er 250 km á viku.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Því lengra því betra, en dæmigerð hlaupaæfing er oft 17 km.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Í Naustaborgum og Kjarna sunnan Akureyrar og bara hvar sem maður er staddur í heiminum. Það er frábært að fara snemma á fætur í erlendri stórborg og taka hlaupandi sightseeing á meðan ferðafélagarnir skreiðast fram úr. Ég kynntist líka Stefáni Gíslasyni þegar hann mætti einu sinni sem gestur á Eyrarskokksæfingu og hef farið þónokkur fjallahlaup með honum. Það er það skemmtilegasta að fara á tveimur jafnfljótum á milli byggðarlaga í góðum félagsskap.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Fer gjarnan út á morgnana klukkan sex.

Besti hlaupafélaginn? Hundurinn minn heitinn. En það er líka stór kostur hvað maður kynnist mörgu frábæru fólki í gegn um þetta áhugamál.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Helst eitthvað úr ull.

Hvernig hlaupaskó áttu? Nike air pegasus og álíka.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Mp3 spilarinn.


Ekki ónytt að láta þreytuna líða úr sér á Ólympíuleikvanginum í Munchen.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? UTMB hlaupin og Fire and Ice Ultra. Tilfinningin að komast hvert sem er á tveimur jafnfljótum er engu lík.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Helst sem minnst.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Ég er eiginlega komin allan hringinn, nú er það kannski g2gultra í Bandaríkjunum, 273 km á 7 dögum í Grand Canyon og þjóðgörðum þar í kring.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kornflex og lýsi

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já, ég er nær alltaf með tónlist í eyrunum, er í klassísku söngnámi og nýti tækifærið til að læra óperuaríur og annað. Stundum hlusta ég þó bara á poppið sem krakkarnir mínir hlusta á.


Arnfríður spókar sig um í stórkostlegu landslagi.

Uppáhaldsorkudrykkur? Gatorade. Annars vil ég helst möndlur, þurrkuð trönuber og vatn á löngu æfingunum.

Besti matur eftir keppnishlaup? Eldaður matur eða mjólkurglas og einhver ávöxtur.

Hvernig slakar þú á? Prjóna og hlusta á tónlist.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Hvaða braut? Ok, Fire and Ice Ultra í ágúst 2014. 250 km á viku með allt á bakinu.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Á sumrin, þá er hægt að fara um fjöllin á hlaupaskóm.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 10 km á 48:35 og maraþon á 4:16.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Ég hef aldrei farið stíft eftir æfingaáætlun, hlusta á líkamann, safna kílómetrum og tek stundum spretti inn á milli. Sé ekki hvernig aðrir geta vitað hvað hentar mér, þeir eru ekki í mínum líkama.

Hvar hleypur þú helst? Í Naustaborgum og Kjarna við Akureyri.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Fer langt og hægt og forðast meiðsli eins og heitan eldinn.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Á veturna eru þetta kannski 20 km á viku, deilt á 3-4 æfingar, á sumrin yfir 100 km á viku. Þegar ég er að æfa fyrir löngu hlaupin tek ég kannski heilu dagana í að hlaupa upp á Súlur og/eða Hlíðarfjall og yfir í Vaglaskóg eða álíka.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Fjallgöngur, dans og sund.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Nei.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Barnsfaðir minn er sá sem hefur kennt mér mest á þetta.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Oftast fer einhver kílómetratala í vinnudagbókina mína, hef ekki gert það skipulega eftir að hlaup.com lést.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já.


Að loknum 250 km í Fire and Ice áskoruninni.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Halda heilsu. Ég vinn sem sálfræðingur og sé þess dæmi á hverjum degi hvað það gerir fólki gott að hreyfa sig. Myndi vilja sjá miklu fleiri úti að leika, börn sem fullorðna.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Eiginlega ekki, mér finnst þetta fín síða eins og hún er.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Milljón! Til dæmis dettur mér í hug þegar ég ákvað að nýta tækifærið og hlaupa til Akureyrar frá Grundarkirkju eftir að ég hafði verið þar á æfingu fyrir brúðkaup í fjölskyldunni. Ég var þarna á þessari æfingu í hlutverki organista og fékk far inneftir með mágkonu minni, móður brúðgumans. Hugsaði mér gott til glóðarinnar að þurfa ekki að vera á bíl sjálf og geta svo skokkað þessa 20 kílómetra heim undan sunnanvindinum. Mætti á staðinn í hlaupafötum sem engum þótti tiltökumál, meira að segja presturinn sýndi þessu mikinn skilning, enda hefur þessi sami prestur unnið það afrek að verða Íslandsmeistari í fitness. Og ættingjarnir voru vanir að sjá mig svona til fara. En umsjónarmaður kirkjunnar var líka þarna á staðnum, fjörgömul kona.

Eftir æfinguna fóru allir upp í sína bíla og flestir keyrðu jú sem leið lá til Akureyrar. Nema ég sem hljóp af stað eftir þjóðveginum. Ekki komst ég langt áður en umrædd kona stoppaði bílinn sinn hjá mér, alveg hneyksluð á því að enginn af hinum hefði viljað hafa mig með í þeirra bíl. Hún bara samþykkti ekki að nokkur maður hlypi svona ótilneyddur. Hún sagði orðrétt: „Er virkilega ekki pláss fyrir þig hjá neinum!" Og sagði mér að koma upp í bílinn hjá henni. Mér tókst samt eftir þó nokkuð þref að fá frið með þessi furðulegheit mín.