Yfirheyrsla: Bjartmar Örnuson úr KFA

birt 28. desember 2017

Norðanmaðurinn Bjartmar Örnuson er Yfirheyrslunni að þessu sinni. Bjartmar hleypur aðallega í millivegalengdum og það er svo sannarlega kærkomið fyrir okkur á hlaup.is að kynnast hlaupurum með slíkar áherslur. Þess má geta að Bjartmar sigraði í bæði 800m og 1500m hlaupi á Íslandsmótinu innanhús í frjálsum íþróttum sem fram fór 18. febrúar síðastliðinn.

Fullt nafn: Bjartmar Örnuson.

Aldur: 28 ára.

Heimabær: Akureyri.

Fjölskylda: Ég og mamma.

Skokkhópur: Hef aldrei hlaupið með skokkhópi. Hef æft og keppt fyrir UFA en er nýbúinn að skipta yfir í KFA.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Markvisst 2005.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? 800m.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Kjarnaskógur verður skemmtilegri með árunum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Er mikill morgunhani og finnst best að taka löngu túrana á laugardagsmorgnum kl. 9.

Besti hlaupafélaginn? Hef æft með mörgum í gegnum tíðina en þó aðallega sjálfum mér. Verð ég helst að nefna Þorberg Inga Jónsson, Kolbein Höð Gunnarsson og nú nýlega Arnar Val Vignisson.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Nike.

Hvernig hlaupaskó áttu? Nike Pegasus 33.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Andi og einbeiting.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Mín grein er alltaf hlaupin á braut en af götuhlaupum er það Reykjavíkurmaraþonið (10km). Mikið af fólki og mikil gleði.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Skórnir.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Kannski Berlínarmaraþonið eftir fimmtugsaldurinn. Þarf sjálfsagt að krafthamra kílómetrana fyrir það, þar sem mín aðalgrein er 41395m styttri.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Allur gangur á því hvað fer í grímuna kvöldið fyrir keppni en um morguninn eru það lífrænir tröllahafrar með hnetusmjöri, chiafræjum, möndlum stöppuðum banana og epli ásamt appelsínu, lýsi, vítamínum og 1l af vatni.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Kannski 2x á ári. Hlusta þá helst á eitthvað sem rífur púlsinn upp t.d. Skálmöld, Lady Gaga, Scooter, Sia og eitthvað skrýtið sænskt rapp.

Uppáhaldsorkudrykkur? Leppin.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ljósar Kaliforníu súkkulaðirúsínur frá Góu.

Hvernig slakar þú á? Horfi á kvikmyndir, mjög margar kvikmyndir.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? 4. sæti í 800m hlaupi í Evrópukeppni landsliða 2011.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Október er sexý en það er maí líka.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni?
5km: 16:19,99
10km: 34:34
En aðalgiggið er 1:51,97 í 800m hlaupi

Hleypur þú eftir æfingaáætlun?

Hvar hleypur þú helst? Á frjálsíþróttavellinum á Akureyri, í Boganum, Kjarnaskógi og í gymminu á Bjargi.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Jákvæður.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Að meðaltali 65-70 km, 6-8x í viku. Það fer svo eftir æfingunni hve lengi er hlaupið

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, 800m þjálfun krefst alls kyns æfinga s.s. styrktar/lyftingaæfinga, hopp o.s.frv.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar emur að hlaupum? Verða sá besti sem ég get orðið.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ivan Heshko 1500m hlaupari og endasprettströll frá Úkraínu.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Á næsta tiltæka blað.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Mætti vera oftar.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Kannski brandarahorn.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Minnistæðasta augnablik sem ég man eftir var þegar ég fór með ÍR til Tenerife í apríl 2010. Einn daginn áttum við Snorri Sigurðsson millivegalengdahlaupari að taka langa brekkuspretti, 6-8x 500m minnir mig með jafn langri skokkhvíld. Það var frekar heitt og rakt og ekki létt að hlaupa helvítis brekkuna.

Það sem verra var að í miðri brekkunni lá dauður hundur sem greinilega hafði verið keyrt yfir. Hausinn var sprunginn og hvutti litli farinn að gerjast heldur vel. Þannig að í hverjum spretti önduðum við að okkur lyktinni af hundinum í ca 5 sek sem fékk okkur til að gleyma hvað æfingin var erfið. Við höfðum þetta þó af og höfum hlegið að þessu síðan, því við erum greinilega sálarlausir.