Erlendur og Ívar bróðir hans th. að loknu Kaupmannahafnarmaraþoni 2012. | Erlendur Steinn Guðnason úr KR skokk er viðmælandi okkar á Hlaup.is í Yfirheyrslunni þessa vikuna. Ásamt því að hafa hlaupið með KR Skokki frá stofnun hefur Erlendur verið viðriðinn hlaup í 30 ár án þess þó að hafa æft af krafti og skipulagi fyrr en síðustu ár. Kynnumst þessum mæta Vesturbæingi aðeins betur: Fullt nafn: Erlendur Steinn Guðnason. Aldur: 42. Heimabær: Í Vesturbænum. |
Fjölskylda: Konan mín heitir Guðrún Gyða og á ég fjögur börn; Eydís Ylfa 23 ára, Ýmir Hrafn 20 ára, Árni Eyþórs 12 ára og Dísa María 8 ára,
Skokkhópur: Hef verið með KR skokk frá stofnun árið 2012.
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Það má segja að ég hafi alltaf verið viðloðandi hlaup, 30 ár liðin frá því að ég hljóp mína fyrstu 10 km mína á Melavellinum í skólahlaupinu 1984. En ég æfði aldrei formlega hlaup fyrr en ég tók þá ákvörðun áramótin 2011-2012 að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu.
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Öll hlaup þar sem allt gengur upp eru skemmtileg og skiptir þá vegalengdin minna máli. En síðasta frábæra hlaup sem er mér efst í huga þessa stundina er hálft maraþon í síðasta Reykjavíkurmaraþoni.
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Erlendis þykir mér gaman að hlaupa á fallegum sumardegi meðfram Amager strönd í Kaupmannahöfn þar sem foreldrar mínir búa. Þar er iðandi mannlíf, falleg náttúra og ferskt sjávarloft. Ferska sjávarloftið minnir líka á hlaup út á Gróttu og meðfram sjónum hér heima sem er alltaf gaman. Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Seinni part dags finnst mér best að hlaupa en ég hleyp rólega stundum 06.25 á morgnanna frá Melabúðinni með félögum úr KR Skokk og er það hressandi byrjun á deginum. Besti hlaupafélaginn? Ég og Ívar bróðir minn tókum þá stóru ákvörðun að taka þátt í okkar fyrsta maraþoni í Kaupmannahöfn 2012. Þrátt fyrir að hann búi í Köben og ég í Reykjavík studdum við hvorn annan með aðstoð netsins í undirbúningnum og lentum svo í 30 stiga hita í hlaupinu sjálfu. En náðum að klára með því að styðja vel við hvorn annan. Félagar mínir úr KR Skokk eru svo ómetanlegur félagsskapur sem er sterkasta aðdráttaraflið við æfingarnar dags daglega. | Erlendur og Guðrún Gyða á kunnuglegum slóðum á Lækjargötu. |
Hvernig hlaupaskó áttu? Ég á nokkrar tegundir og hef lengst af verið á Asics Nimbus en hef upp á síðkastið verið að prófa aðrar tegundir s.s. Brooks og Newton og líkar sérstaklega vel við Newton Motion III.
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góða skapið númer eitt, góður félagsskapur númer tvö og þrjú að vera búinn að nærast vel fyrir æfingu kraftur sé í kroppnum.
Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Innanlands er það Reykjavíkurmaraþonið enda frábær stemming og öll fjölskyldan er farin að taka þátt. Endum svo daginn með stórri matarveislu og fáum svo þessa fínu flugeldasýningu í eftirrétt. Erlendis er það Kaupmannhafnarmaraþonið enda hef ég búið í Kaupmannahöfn og foreldrar mínir og þrjú systkini búa þar.
Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Það er hiklaust iPhone síminn minn sem heldur utan öll mín hlaup og ég nota til að hlusta á tónlist eða útvarp.
Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Það er á dagskránni einhvern daginn að prófa utanvegahlaupin og þá er draumurinn að hlaupa Laugaveginn.
Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninnn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir keppnishlaup er það pasta og kjúklingur en um morguninn ristað brauð með jarðaberjasultu, banani og ávaxtasafi.
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég hlusta almennt lítið á tónlist þegar ég hleyp þar sem ég er að spjalla við félagana eða njóta umhverfisins. Undantekning er þó ef ég hleyp einn, þá hlusta ég á Virka morgna á Sarpi RÚV og í keppnishlaupum þá set ég stuðtónlist á síðustu kílómetrana til að gefa mér aukinn kraft.
Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Þegar allt er að vakna til lífsins á vorin þykir mér skemmtilegur tími.
Með krökkunum sínum, Eydísi Ylfu, Árna Eyþórs og Dísu Maríu. | Uppáhaldsorkudrykkur? Blár Powerade. Besti matur eftir keppnishlaup? Strax eftir hlaup er það banani og orkudrykkur. Svo ef gekk vel þá er gott að verðlauna sig með góðum hamborgara og bjór. Hvernig slakar þú á? Ég finn fyrir slökun á hlaupum. Svo enda ég hlaupaæfingar oft í heita pottinum í Vesturbæjarlaug og slaka vel á þar. Fyrir utan hlaupin slaka ég á með því er að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni. Mesta afrek á hlaupabrautinni? Það er hiklaust að hafa klárað mitt fyrsta maraþon 2012 í Kaupmannhöfn þegar reynslan var engin og hitastigið komið í 30 stig. Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 19:31 5 km í Víðvangshlaupi ÍR 2014, 40:53 10 km í Ármannshlaupinu 2014, 1:31:47 í 21 km í Reykjavíkurmaraþoni 2014. Hef barað klárað eitt maraþon og var tíminn 4:18:40 í Kaupmannahöfn 2012. Reyndi við Amsterdam maraþon í október og ætlaði að bæta tímann um klukkutíma en fékk sólsting eftir 36 km og náði ekki að klára. Bætingin bíður því til næsta maraþons. |
Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Ég fylgi æfingaáætlun KR skokk.
Hvar hleypur þú helst? Þegar ég er á hlaupum má helst finna mig í Vesturbæ Reykjavíkur.
Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Kappsamur og jákvæður hlaupari sem hefur gaman af útiverunni og félagsskapnum sem fylgja hlaupunum.
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Mjög misjafnt eftir því hvort ég er að æfa fyrir keppnishlaup eða ekki. Fer frá 20 km upp í 90 km á viku og hleyp þrisvar til sex sinnum í viku.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég hef æft sund með hlaupum en hef upp á síðkastið farið í styrktar- og Hot Yoga tíma í Hreyfingu.
Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, það eru góðar æfingar sem mér finnst skila miklum árangri.
Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Til skemmri tíma langar mig að komast undir 40 mínútna múrinn í 10 km. Til lengri tíma langar mig að brjóta 3:10 múrinn í maraþoni. Á sama tíma stefnir maður alltaf að því að halda sér meiðslalausum.
Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Hann Trausti Valdimarsson sem er giftur frænku minni og ég leyfi mér að kalla frænda er góð fyrirmynd. Hann nálgast hlaupin með jákvæðni og dugnaði og hefur afrekað að hlaupa yfir 70 maraþon á ævinni og er ekki hættur enn. Ekki síður hefur hann náð að smita aðra í fjölskyldunni hlaupaáhuga og er sonur hans Guðjón Karl hörkuhlaupari. Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég nota smáforritið iSmoothRun í iPhone símanum til að halda utan um hlaupin og sendir það sjálfkrafa upplýsingar um öll hlaup bæði í RunKeeper og Strava. | Hressir félagar KR Skokk í Amsterdam síðastliðið haust. |
Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, ég fer þar inn 1-2 í viku að meðaltali.
Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Undanfarin ár hef ég hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Fyrir síðasta Reykjavíkurmaraþon bauð ég upp á þá nýbreytni að taka eina armbeygju fyrir hvern þúsundkall sem safnaðist og sömuleiðis segja nafn viðkomandi upphátt strax að loknu hálfmaraþoninu mínu. Ég hafði séð fyrir mér að ná kannski tíu þúsund krónum fyrir góðan málstað og puða örlítið í markinu eftir hlaupið. Skemmst er frá því að segja að þetta gekk framar vonum og söfnuðust 31 þúsund krónur og leist mér nú ekki alveg á blikuna að þurfa að kreista út 31 armbeygju að hlaupi loknu en afraksturinn má sjá hér: https://www.facebook.com/video.php?v=10152633064569561&pnref=story