Yfirheyrsla: Guðrún Sóley Gestsdóttir, stemningshlaupari

birt 19. júní 2018

Næsti viðmælandi í yfirheyrslunni er fjölmiðlakonan geðþekka, Guðrún Sóley Gestsdóttir. Hún kallar sig „óforbetranlega stemningskonu" og fær útrás fyrir þá eiginleika sína með því að taka þátt í íslenskum götuhlaupum. Þá hleypur Guðrún Sóley á frekar óhefðbundnum tímum, „skringitímum" eins og hún kallar það, seint á kvöldin eða snemma á morgnana. Lesendur eru svo sannarlega hvattir til að kynnast þessum lífsglaða hlaupara nánar.. já og gefa hvor létta fimmu á hlaupum.

Fullt nafn: Guðrún Sóley Gestsdóttir.

Aldur: 30.

Heimabær: Reykjavík.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Byrjaði að dútla í joggi fyrir einhverjum 12 árum.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? 10 km.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Ég er óforbetranleg stemningskona og finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa í stærstu götuhlaupunum á Íslandi, þar sem allt ætlar um koll að keyra af fagnaðarlátum og peppi.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Finnst best að hlaupa „utandags", á skringitímum - annað hvort eldsnemma á morgnana eða seint á kvöldin, þegar það er ró yfir öllu.

Besti hlaupafélaginn? Pabbi minn. Frá upphafi höfum við farið saman í flest öll götuhlaup, það eru okkar gæðastundir sem skilja eftir sig verðmætar minningar.

Hvernig hlaupaskó áttu? Kayanotýpuna frá Asics, bráðnauðsynlegt fyrir flatfót eins og mig.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Tónlistin mín, ég kemst ekki metra án þess að vera með músík í eyrunum. Mig hefur alltaf langað til að vera týpan sem getur hlaupið án tónlistar, en hef ekki næga andlega yfirburði í slíkt. Verð að hafa tónlist sem hvetur mig áfram.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Finnst ómögulegt að gera upp á milli Gamlárshlaupsins og Miðnæturhlaupsins, bæði eru draumur stemningskonunnar og færa þátttakendum mikla gleði. Ég hef aldrei gerst svo fræg að hlaupa í keppnishlaupi utanlands, þó ég reyni að taka alltaf hlaupatúr þegar ég ferðast.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Ætli það sé ekki púlsmælirinn minn, eftir áralangt streð án árangurs gjörbreyttist nálgunin mín og tækni eftir að ég eignaðist mælinn. Hann er strangur þjálfari og umber ekkert bull þegar kemur að áreynslu. Fram að því fór ég mér allt of geyst og rauk hratt upp, og hljóp alltaf nálægt hámarkspúlsi. Þeir dagar eru sem betur fer (að mestu) liðnir.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Snæfellsjökulshlaupið hefur lengi freistað mín, en fyrst þarf ég að ná að hlussast hálfmaraþon sem ég hef enn ekki þorað að gera. Það er næsta markmið, sjáum hvað setur.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég fer svo stuttar vegalengdir að það er engin þörf á sérstakri næringu. Ég hef hingað til hlýtt ráðum Torfa Helga Leifssonar sem hann boðaði á námskeiði - að best sé að breyta ekki út af vana með næringu rétt fyrir hlaup, heldur bjóða maganum upp á eitthvað kunnuglegt og traust. Morguninn fyrir hlaup finnst mér gott að drekka hnetusmjörs,-banana- og berjabúst. Það er auðmelt og orkuríkt.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Er undarlega föst fyrir þegar kemur að hlaupadressinu - efri partur verður að vera Nike, buxur 2xu og skór frá Asics. Þó ég snobbi alla jafna lítið fyrir vörumerkjum þá rígheld ég í þessa skipan mála þegar kemru að hlaupagræjum þvi reynslan hefur kennt mér að þetta hentar mér best.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já, það geri ég svo sannarlega. Mér finnst langbest að hlaupa við reiðilega rappmúsík og einhvers konar tregablandið popp og rn''b. Drake, MF Doom, Azekel, Taylor Swift, Beyoncé og Jai Paul eru ofarlega á blaði.

Uppáhaldsorkudrykkur? Kaffi.

Besti matur eftir keppnishlaup? Franskar með vegan majó.

Hvernig slakar þú á? Í heitum og köldum potti og gufu.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Haha, þau eru svo lítil og lasin að það hefur ekki verið skrásett. Kannski bara að halda áfram þótt ýmislegt komi upp á, græjur slökkva á sér, steinar í skóm, magapína og lágmarksnenna.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Haustin - þá er umhverfið í sínu fínasta pússi og allar aðstæður eins og best verður á kosið.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? Það eru vel varðveittar persónuupplýsingar.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Neibb.

Hvar hleypur þú helst? Í nágrenni við heimilið mitt í Vesturbænum; Ægisíðu, Granda, Seltjarnarnes. Líka kringum sumarbústaðinn okkar í Kjósinni.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Þrautseigur viðvaningur.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Hleyp þrisvar í viku, ýmist 7 eða 10 km hring.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, ég stunda spinning í Hreyfingu og jóga hjá Önnu Helgu Björnsdóttur, besta jógakennara landsins. Held að þetta sé ágætis blanda með hlaupunum.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Ég reyni að koma sprettum að þegar ég man og nenni, tek þá ýmist ljósastaura- eða tröppuspretti með frjálsri aðferð.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Komast loksins hálfmaraþon, það skal gerast. Helst á næsta ári eða tveimur.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Notast við Endomondo-appið og skrái æfingar í dagatal, en það er allt annað en vísindaleg eða nákvæm skrásetning. Meira gert til að halda mér við efnið.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já - það hef ég gert í mörg ár. Bæði til að fá yfirsýn yfir hlaup á dagskrá og setja mér markmið, lesa greinar og fræðast. Og auðvitað skoða myndir!

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Jahá, mér finnst allar þessar íslensku goðsagnir meirihattar flottar - Aníta, Arnar Pétursson, Kári Steinn, Katrín Steinunn, Þórólfur Ingi, Elísabet Margeirs og Guðni Páll. Fylgist grannt með afrekum þeirra og ber botnlausa virðingu fyrir hæfileikum og seiglu.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Kannski ekki staka sögu, heldur eiginlega framhaldssögu. Félagi minn Konráð Jónsson, sem er mikill og snjall stemningsmaður, bryddaði upp á átaki fyrir nokkrum árum síðan sem gekk út á að hvetja hlaupara sem mætast á götum landsins að gefa high-five. Þetta tók ég lóðbeint upp eftir honum, og reyni að fá a.m.k. eitt hlaupa-hæfæv í hverjum hlaupatúr, en það er þó nokkur kúnst að gera þetta svo vel sé. Svo er allur gangur á hvernig hlauparar taka í uppátækið, ætli svörunin sé ekki um 30%, en alltaf er það jafn fjári skemmtilegt þegar maður fær gott og kröftugt hæfæv á móti. Það gefur aukna orku og gleður. Hvet lesendur eindregið til að taka upp þennna góða sið.