Yfirheyrsla: Kristjana Bergsdóttir úr Bíddu aðeins

birt 10. september 2015


Kristjana hefur tekið þátt í allskyns hlaupum erlendis.

Kristjana Bergsdóttir úr Bíddu aðeins er ansi athyglisverður hlaupari. Þessi 63 ára kraftmikla kona á virkilega flotta tíma í hinum ýmsu vegalengdum ásamt því að hafa farið hamförum viða um heiminn, bæði í þríþraut og í ofurhlaupum. leggur stund á þríþraut og hefur farið hamförum í ofurhlaupum víða um heiminn.

Það sem gerir sögu Kristjönu ennþá áhugaverðari er að hún átti lengi við afleiðingar beinþynningar að stríða sem gerði það að verkum að hún beinbrotnaði mjög auðveldlega. Smátt og smátt hefur hún unnið bug á sínum kvillum m.a. með mikilli hreyfingu. Forvitnist nánar um þessi flottu fyrirmynd í Yfirheyrslunni hér að neðan.

Fullt nafn: Kristjana Bergsdóttir.

Aldur: 63. ára í september.

Heimabær: Seltjarnarnes.

Fjölskylda: Eiginmaður er Atli Árnason, við eigum 3 uppkomin börn.

Skokkhópur: Bíddu aðeins sem hefur nú sameinast Blikunum, með Ívar Trausta Jósafatsson sem þjálfara.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Sem krakki hljóp ég mikið mér til skemmtunar og þá var ég smali í sveitinni fram á unglingsár. Síðan byrjaði ég aftur að hlaupa árið 2007 þá 55 ára, með hóp í vinnunni. Hópurinn spratt upp í heilsuátaki það sumar undir stjórn Bryndísar Baldursdóttur. Þessi hópur varð síðan að Bíddu aðeins hlaupahópnum sem enn lifir.

Ég var greind með töluverða beinþynningu og vildi gera eitthvað til að bæta úr því, hafði synt á morgnana í nokkur ár og unnið bug á astma. Nógu erfitt var þó samt að byrja að hlaupa lafmóð á milli ljósastaura. Fyrstu árin brotnaði ég reglulega en oftast voru rifbein að brotna eða brákast við það að ég datt. Þetta setti alltaf strik í reikninginn í keppnum og fyrir keppnir. Sárast var að axlarbrotna fyrir Boston maraþonið 2010 sem auðvitað rústaði undirbúningnum en ég fór nú samt og naut þess í botn.

Síðustu þrjú árin hafa beinbrot raunar ekki háð mér að ráði. Ég er einfaldlega orðin sterkari og dett ekki eins auðveldlega, hleyp auðvitað með linsur eða bara með lesgleraugun á nefinu. Ég nýt þess að hlaupa og aldurinn hjálpar bara til því á þessum aldri á maður sig algerlega sjálfur. Það eru eiginlega engar reglur til fyrir okkur en við fáum að vera með í öllu og fáum oftar verðlaunapening en aðrir. Það mun þó breytast á allra næstu árum. Fyrir fjórum árum byrjaði ég síðan að æfa þríþraut og hef farið í tvisvar í IM og er að undirbúa keppni í IM á Flórída í nóvember.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Lengri vegalengdir á fjöllum eru mitt uppáhald og ég vona að ég eigi eftir að gera meira af því. Undanfarin fjögur ár hef ég samt tekið hlé í fjallahlaupum þar sem að ég datt inn í þríþrautina.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Skemmtilegast er að hlaupa utan vega, þá nær maður að gleyma sér alveg úti í náttúrunni. En margar hlaupaleiðir hér á höfuðborgarsvæðinu ná þessari stemmingu alveg t.d. Heiðmörkin.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Á daginn, annars bara eftir vinnu.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Under armour.


Laugavegurinn skarar sínu fegursta, Kristjana önnur frá hægri.

Besti hlaupafélaginn? Bryndís Baldursdóttir og Ellý systir mín ásamt öllum öðrum hlaupafélögum.

Hvernig hlaupaskó áttu? Newton, Brooks, Salomon og Hoka. Ég var í töluverðum vandræðum vegna verkja í fótum fyrstu árin, prófaði margar tegundir en Newton skórnir björguðu mér alveg og þróunin á þeim hefur hentað mér vel.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Síminn. Ég hef hann alltaf með sem öryggistæki því ég er svo mikil slysavarnarkona.


Komið í Eiffel turninum eftir heila 80 km.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Innanlands eru það vor og haust hlaup Félags maraþonhlaupara. Þau eru algjört uppáhald og verða alltaf. Erlendis þá var Eco trail de Paris t.d. mjög skemmtilegt 80 km hlaup um útjaðar Parísar og markið uppi í Eiffel turninum. Þátttakendur voru nær eingöngu Frakkar og konur í miklum minnihluta. Þá áttaði ég mig á hve íslenskar konur standa evrópskum konum framar hvað almenna hlaupaþáttöku varðar.

Uppáhaldsorkudrykkur? Núna er Zero aðaldrykkurinn minn, nota ekkert annað á æfingum. Ég nota aðallega H5 í keppnum.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Bara hentug föt og skór. 

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Lavaredo ultra trail í Dolomite fjöllunum á Ítalíu. Myndir af landslaginu þar hafa alltaf heillað mig en ég hefði raunar átt að vera búin að taka þetta hlaup fyrir löngu, sé samt til hvort ég dríf mig ekki áður en ég verð sjötug.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ora fiskibollur með kartöflum eða engu, þetta er sérlega hentugur matur ef maður er staddur erlendis eða á fjöllum. Bara muna eftir dósaupptakara. Svo er köld lifrarpylsa rosa góður orkugjafi fyrir fjallahlaupin.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég hleyp aldrei með tónlist en ég hef hlustað á sögur í lengri hlaupum.

Besti matur eftir keppnishlaup?  Lambakjöt eða hamborgari. Ekki pasta.

Hvernig slakar þú á? Eftir æfingar þá er toppurinn að fara í heitt baðkar í smá stund. Annars slaka ég á fyrir framan sjónvarpið eða með prjónana.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mér fannst ljúft að ná Boston lágmarkinu mínu í haustmaraþoni FM árið 2009 á tímanum 4:02. Það var mikið afrek í mínum huga.

En einnig var það afrek að klára Ironman á Cozumel á sextugasta aldursárinu mínu og kunni ég þó varla að hjóla, dj.. harka var það!

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Það er auðvitað best að hlaupa á sumrin en nú hefur hlaupahópurinn kost á æfingum inni í Laugardalshöll á veturna og það er hreint frábært.


Á fullu gasi í þríþraut í Kalmar í Svíþjóð.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Ég hef alltaf stuðst við einhvers konar plön fyrir keppnir og grúska mjög mikið í æfingapælingum á netinu. Nú æfi ég fyrir Ironman á Flórída og fer samviskusamlega eftir planinu hjá Þríkó, nema ég stytti örlítið erfiðustu æfingarnar til að verða ekki of þreytt fyrir næstu æfingu. Aldurinn er ákveðinn þröskuldur.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km í Miðnæturhlaupinu 2008 á 27:28. 10 km í Brúarhlaupinu 2009 á 50:46. Hálfmaraþon í Haustmaraþoni FM á 01:56.


Hlaupafélagar í fallegu umhverfi, Kristjana og Ellý.

Hvar hleypur þú helst? Hlaupin fara fram í Kópavogi og nágrenni en hjólaæfingar út um alla borg.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég er drifin áfram af innri hlaupaþrá.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Núna æfi ég þríþraut og á í vandræðum með hjólið þannig að hlaupin sitja á hakanum.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, sund og hjól.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, þær æfingar eru algerlega nauðsynlegar. Þegar ég byrjaði fyrst á hraðaæfingum þá tók ég miklum framförum.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Ég hef áhuga á að ná tímamörkum fyrir Boston maraþon 2017. Það ár verð ég 65 ára þannig að tímamörkin eru 4:40.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Eiginlega eru mínar fyrirmyndir þær konur sem voru frumkvöðlar í hlaupaíþróttum eins og Joan Benoit sem ég sá svarthvíta í sjónvarpinu, vinna fyrst kvenna ólympiska gullið í maraþoni árið 1984. Grete Waitz var þá nr. 2. Það var stórkostleg að hlusta á Kathrine Switzer halda fyrirlestur í tengslum við Reykjavíkur maraþonið. Þá er Marta Ernstdóttir í hópi þessara fyrirmynda. Ég sá hana oft æfa og dáðist mikið að henni.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Garmininn (garmin connect) minn geymir þetta allt og ég fletti oft upp í gömlum æfingum, skoða tíma og púls.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, ég geri það. Mjög gagnlegur vettvangur með allar þessar upplýsingar og heldur hlaupurum saman.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Ekkert kemur upp í hugann, vefurinn er einfaldur og aðgengilegur - ég myndi alls ekki vilja flækja hann.


Brosmild eftir gott dagsverk.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Ég á alveg ótrúlega mikið af skemmtilegum minningum. Mest vegna þess að ég hef alltaf verið svo mikill álfur, bara ákveðið keppnir og uppákomur af því mig langar en ekki vegna þess að ég hafi alltaf verið mjög vel undirbúin.