Yfirheyrsla: Laugaskokkarinn, Borghildur Valgeirsdóttir

birt 23. maí 2018

Næst í Yfirheyrslunni á hlaup.is er Borgahildur Valgeirsódttir úr Laugaskokki. Borghildur sem er 38 ára hefur stundað hlaup frá unga aldri hefur hlaupið allar vegalengdir upp í maraþon auk þess að hafa hlaupið Laugaveginn. Gefum þessum hressa Laugaskokkara orðið.

Fullt nafn: Borghildur Valgeirsdóttir

Aldur: 38.

Heimabær: Bý í Reykjavík en frá Selfossi.

Fjölskylda: Er í sambúð með Eyþóri Kára Eðvaldssyni og eigum tvær dætur Katrínu 6 ára og Auði 2 ára.

Skokkhópur: Laugaskokk.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Það má segja að hlaupin hafi alltaf fylgt mér. En ætli ég hafi ekki síðan fengið útrás með því að hlaupa þegar ég byrjaði í frjálsum en ég keppti þar aðallega í millivegalengdahlaupum. Byrjaði síðan að hlaupa með Laugaskokki 2007.


Hvar er skemmtilegast að hlaupa?
Ég er með Heiðmörkina og Hádegishæðina nánast í bakgarðinum hjá mér og finnst æðislegt að komast af malbikinu.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Myndi segja það vera breytilegt hvaða vegalengd er í uppáhaldi hverju sinni. Ég er samt meira fyrir lengri hlaup.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Seinni partinn og fyrir hádegi um helgar.

Besti hlaupafélaginn? Er svo heppin að eiga hana Daldísi og Ingu Hrund fyrir nágranna sem oft eru tilbúnar í hlaupatúr með manni eða við drögum hvor aðra út þegar hlaupaandinn er ekki alveg yfir okkur. Síðan er ekki hægt að sleppa því að nefna hlaupafélagana í Laugaskokki.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég á fatnað frá hinum ýmsu framleiðendum og flest allt eru þetta fínustu vörur. Er mest í Ronhill og Nike dagana.

Hvernig hlaupaskó áttu? Er í Brooks og Saucony.


Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup?
Ég er ekki með neina sérstaka hefð fyrir því hvað ég borða kvöldið fyrir, bara hollur og góður matur sem ég veit að fer vel í mig. Um morguninn ristað brauð með banana og jafnvel með smá klípu af hnetusmjöri.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Garmin hlaupaúrið

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Uppáhalds utan lands er Munchen, en þar hljóp ég fyrsta og eina maraþonið mitt 2013 og á ég bara góðar minningar frá því hlaupi. Hér innanlands verð ég að segja Laugavegurinn, en það er löngu komin tími á að fara hann aftur.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupaúrið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Væri til í annað maraþon og síðan langar mig að fara á hlaupahátíðina á Vestfjörðum og fara lengstu vegalengdina í Jökulsárhlaupinu.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Hleyp mjög sjaldan með tónlist en inni á bretti er það nauðsynlegt og oftast þá bara það sem tónlistarrásin í World Class býður uppá.

Uppáhaldsorkudrykkur? Engin í uppáhaldi.

Hvernig slakar þú á? Samverustundir með fjölskyldunni eða bara heima í sófanum með gott lesefni eða horfi á sjónvarpið.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Sem unglingur var það toppurinn að komast á pall á meistaramóti en eftir að ég komst á fullorðinsárin er ég þakklát fyrir þær bætingar sem ég hef náð. Er nokkuð ánægð með að hafa náð að komast á verðlaunapall í 10 km vegalengd í Reykjavíkurmaraþoninu.


Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa?
Þó að hver árstíð hafi sinn sjarma þá finnst mér alltaf gaman að hlaupa úti á vorin þegar allt er að lifna við maður finnur að gróður er að taka við sér.Besti matur eftir keppnishlaup? Borða flest allt en heit súpa er alltaf góð, annars finnst mér ágætt að fá mér eina Hleðslu ef ég kemst ekki strax í almennilegan mat.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? Á eldgamlan tíma síðan 1998 í 5 km 20:15 mín (þá var allt lengra en 3000m langhlaup), en á best 20:18 mín á fullorðinsárunum. 10 km 41:32 mín, ½ maraþon 1:32:16, maraþon 3:19:51.

leypur þú eftir æfingaáætlun? Ekki eins og er en ég reyni ef ég get að hafa eina sprettæfingu, eina interval æfingu og eitt rólegt hlaup á viku ef ég kem því við. Þegar eitthvað stærra stendur til fer ég eftir áætlun.

Hvar hleypur þú helst? Hleyp mest að heiman en reyni að fara á hlaupaæfingu með Laugaskokki þegar ég get.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Úff, kappsöm...

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Mjög misjafnt hef ekki stundað hlaupin nógu markvisst sl. 2 - 3 árin en hef verið að hlaupa allt frá 0-30 km á viku. Ég hef undanfarnar vikur náð að halda mér í ca 30 km á viku og finn að það er að gefa mér helling að byrja aftur regluleg hlaup.


Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun?
Já.Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég hef aðeins verið að hjóla með og finn að það hjálpar í hlaupunum. Annars reyni ég að gera styrktaræfingar heima á stofugólfinu en mætti alveg gera meira af því.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Langar orðið að bæta mig í sem flestum vegalengdum á keppnisbrautinni en til langs tíma hlýtur það alltaf að vera markmiðið að hafa heilsu og getu til að stunda hlaupin svo að hlaupin haldi áfram að gefa manni þessa gleði og vellíðan sem þeim fylgja.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Get ekki nefnt eina fyrirmynd en allt í kringum mig er fullt af flottu fólki sem hægt er að taka sér til fyrirmyndar. Mér finnst alltaf aðdáðunarvert að fylgjast með fólki þegar það vinnur að markmiðum sínum af metnaði og elju hvort sem markmiðið er að bæta sinn árangur eða koma til baka eftir fjarveru hver sem ástæða hennar er (meiðsli, barnsburður, veikindi eða annað). Ég get ekki sleppt því að nefna hlaupafélaga mína úr Laugaskokki þá Gunnar Geirsson og Ingólf Sveinsson sem eru komnir yfir sjötugt og sýna að aldur er engin fyrirstaða þess að stunda hlaup ef maður fer vel með sig.