Yfirheyrsla: Ólafur Briem úr Skokkklúbbi Icelandair

birt 15. desember 2015


Eftirminnilegt Edinborgarmaraþon 2012, þó í fullmikilli sól.

Ólafur Briem er þrautreyndur hlaupari úr Skokkklúbbi Icelandair en hann er í Yfirheyrslu á  hlaup.is þessa vikuna. Eftir að hafa hlaupið meira en tuttugu maraþon er ljóst að lesendur geta ýmislegt lært af þessum flotta hlaupara.

Eftir að hafa hlaupið í yfir 30 ár hefur hefur Ólafur frá ýmsu að segja, m.a. segir hann frá því þegar hann tók fyrst eftir hlaupurum á áttunda áratugnum. Þá voru slíkir álitnir allt að því skrýtnir eins og Ólafur lýsir hér að neðan. Kynnumst þessum gamansama hlaupara betur, gjörið svo vel.

Fleiri yfirheyrslur á hlaup.is.

Fullt nafn: Ólafur Briem.

Aldur: 52 ára.

Heimabær: Reykjavík.

Fjölskylda: Kvæntur Sigrúnu Tryggvadóttur og á þrjú börn, Óla (21), Öglu (16) og Tryggva (12).

Skokkhópur: Skokkklúbbur Icelandair.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði að hlaupa nokkuð snemma á lífsleiðinni. Það stefndi þó ekkert í það því trimmarar og almenningshlauparar voru álitnir hálfgerðir furðufuglar í mínu ungdæmi og það heillaði mig ekki að skipast á bekk með þeim. Til dæmis var karl sem hljóp um tíma fram hjá húsinu heima. Það var eftir honum tekið og krakkarnir í hverfinu kölluðu hann „Hæ-karlinn" því hann var alltaf svo glaðlegur og sagði hæ þegar hann hljóp fram hjá.

Annað dæmi: „Konan er að trimma - kona að trimma" var hrópað á eftir húsmóður sem hætti sér á hjólhest í Fossvoginum sér til ánægju og heilsubótar um svipað leyti. Þetta var um miðjan áttunda áratuginn en viðhorfin tóku mikið að breytast strax í kjölfarið. Svo var það einhverjum árum síðar, líklegast í kringum 1980 þegar ég var í próflestri að pabbi rak mig út til að fá ferskt loft í lungun og hlaupa „10 hringi í kringum hús".  Ég byrjaði á tveimur hringjum í kringum hús. Daginn eftir hljóp ég út Grundarlandið og austur að Fossvogsskóla og til baka. Svo smám saman varð ástundunin að lífsstíl. Þó tók ég ekki þátt í almenningshlaupum að ráði fyrr en tæpum 10 árum síðar.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Löng hlaup henta mér best, hef ekki tölu á hálfmaraþon hlaupunum en maraþonhlaupin eru orðin rúm tuttugu. Ég er ekki sprettharður en ég hef gott úthald. Ég hef hlaupið nokkur utanvega- og ofurhlaup en er í eðli mínu Maraþon Road Runner, mér líður best á malbiki og mér finnst maraþon vegalengdin hæfileg en ofurþon of langt. Uppáhaldsæfingahlaupin og þau algengustu eru 10 km.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Ég hleyp mest um höfuðborgarsvæðið - oftast strandlengjan og dalirnir þrír (Fossvogs- Kópavogs og Laugardalur). Vor og sumar teygist á þessu upp í efri byggðir og nærliggjandi sveitarfélög, t.d. um Mosó, austur fyrir Úlfarsfell og niður í Grafarvog sem er gaman í góðu veðri að ógleymdu Elliðaársvæðinu og Vatnsenda.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Árla morguns.

Besti hlaupafélaginn? Félagarnir í Skokkklúbbi Icelandair eru stórkostlegir hlaupafélagar og ekki hægt að gera upp á milli þeirra. Hinsvegar höfum við Dagur Egonsson verið nokkuð samstíga undanfarin ár - höfum svipuð viðhorf og markmið til skokksins. Hann hefur sennilega í kílómetrum og klukkustundum verið mér langmest samferða og diskússjónir og skoðanaskiptin okkar á þessum hlaupaferðum eru óteljandi.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Enginn sérstakur, gríp það sem hendi er næst, aðallega gjafabolir úr almenningshlaupum og tilboðsvörur í verslunum hverju sinni. Í seinni tíð hef ég valið Ronhill með góðri reynslu.

Hvernig hlaupaskó áttu? Ég byrjaði að hlaupa á Mizuno en fyrir tilviljun prófaði ég svo Asics Gel Cumulus sem reyndust vel og hef ekki keypt annað síðan.


Hraðastjórar í Reykjavíkurmaraþoni með Degi Egonssyni góðum hlaupafélaga.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Garmin og að hafa fyrirfram ákveðið verkefni.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Ég á engin uppáhaldshlaup. Hvert hlaup er sérstakt. Það er þó alltaf ævintýri að hlaupa á nýjum slóðum, sérstaklega að uppgötva erlendar borgir á léttu brokki. Hlaupaskórnir eru mér álíka mikilvægir og tölvan, þeir eru alltaf innan seilingar hvar sem ég er. Ég man þó eftir einu erlendu hlaupi sem er minnisstætt. Það var í Jóhannesarborg í Suður Afríku árið 1985 á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Yfirmaður minn sem var „Comrades" hlaupari tók mig með sér í „fun-run"  - fjölmennt almenningshlaup, en í hlaupinu áttaði ég mig á því að þar var enginn kynþáttaaðskilnaður eins og annarsstaðar og allir kynþættir hlupu sem einn hópur. Þarna áttaði ég mig á því hvernig íþróttir voru hafnar yfir fordóma.  Af innlendum hlaupum man ég vel eftir fyrsta Þorvaldsdalsskokkinu mínu. Þá var notaður jeppi til að ferja þátttakendur yfir á sem þótti farartálmi einhversstaðar ofarlega í dalnum. Því var gaukað að mér fyrir hlaup að skella ætti hurðinni miskunnarlaust á nefið á næsta manni sem á eftir kæmi og biðja bílstjórann um að stíga bensínið í botn. Þegar á hólminn var komið kom það mér á óvart hvað þetta reyndist nærri sannleikanum og bílstjórinn viðbragðsfljótur.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Enginn.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Ekkert sérstakt, og þó, ef til vill Tromsö maraþon.


Félagar í Skokkklúbbi Icelandair stilla sér upp eftir æfingu í haust.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Hvað sem er, pasta er ekki verra, en ég reyni bara að stöffa mig vel.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Hleyp aldrei með neitt í eyrunum lengur. Hef þó prófað ýmislegt. Reyndi að nýta tímann og hlusta á Podcast „fréttatengt efni". Metnaðarfyllsta verkefnið var að læra spænsku á hlaupum með því að hlusta á kennslubækur en ég gafst upp eftir fyrstu bókina vegna áreynslunnar.

Uppáhaldsorkudrykkur? Eigum við ekki að segja Powerade og Euroshopper energy - þetta er svo ódýrt í Bónus.

Besti matur eftir keppnishlaup? Hvað sem er.

Hvernig slakar þú á? Ég slaka mest á þegar ég hleyp en slökun eftir hlaup felst í svörtu kaffi og Mogganum.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Engin sérstök.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Skemmtilegast er að hlaupa á vorin þegar daginn tekur að lengja. Landslagið er þá einstaklega fallegt þegar morgunsólin skín á fannbreiður fjallanna en malbikið í bænum er loksins orðið laust við klakann. Þá er upplifunin af betri fótfestu mjög sterk.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? Þeir eru það ómerkilegir að þeir eiga ekkert erindi á blað. En eigum við ekki að segja að helsta markmið mitt sé að klára alltaf maraþon á undir 3:30. Það hefur tekist bærilega fram það þessu.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Ég nota enga sérstaka æfingaáætlun en styðst þó við lágmarks km. fjölda pr. viku í aðdragandanum fyrir maraþonhlaup.

Hvar hleypur þú helst? Ég hleyp oftast um æfingasvæði Skokkklúbbs Icelandair sem nær frá Fossvogsdal um Öskjuhlíðarhálendið og vestur að Eiðistorgi.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Þrautgóður á raunastund.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku?
Ég hleyp núorðið oftast 4 - 6 sinnum í viku, algengasta vegalengdin er 8-10 km í ca 50 min. Og langt um helgar, sem gerir um 40 - 70 km á viku og sl. tvö ár um 3000 km á ári.


Dagur og Ólafur í Akureyrarhlaupinu - Íslandsmóti í hálfmaraþoni.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun?
Æfingarnar  mínar ganga eingöngu út á að safna kílómetrum upp í þann lágmarksfjölda sem ég tel mig þurfa fyrir keppnishlaup. Þar sem ég er löngu hættur að reyna að bæta tímann, þá tel ég mig ekki hafa neitt gagn af hraðaæfingum (tempóæfingar) og brekkusprettum, nema síður sé. Hins vegar neyðist ég öðru hvoru „að taka á því" þegar félögunum dettur slíkt í hug án fyrirvara.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Ég er bara með eitt markmið og það til langs tíma, að stunda hlaupin sem lífsstíl á meðan ég get.


Félagar í Skokkklúbbi Icelandair ramma sig inn í regnboga.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Skíði, sund og karate.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Engin sérstök nema þá helst Caballo Blanco (white horse) og Tarahumara indíánarnir í Mexíkó. 

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Í gamla daga skrifaði ég km dreifingu vikunnar í dagbók til að draga úr líkum á álagsmeiðslum og mæta lágmarkskröfunum mínum fyrir maraþon. Nú fer allt í Endomondo.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, reglulega, þetta er ómissandi vettvangur hlaupara á Íslandi til boðskipta og skipulags á hlaupum.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Hlaup.is er til fyrirmyndar og hvers vegna að breyta því sem virkar vel. Kannski botox fyrir lúkkið?

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Fyrir mörgum árum þegar ég dvaldist á vesturströnd Írlands hljóp ég töluvert um sveitirnar þar. Eitthvert sinnið tók óboðinn gestur sér far með mér. Þetta var einhverskonar kakkalakki sem hafði laumast ofan í skóinn þá um nóttina fyrir hlaup og varð ég ekkert var við kvikindið fyrr en við komum aftur heim og ég tók af mér skóna. Hann lifði ekki ferðalagið af blessaður enda ekki mikið aukarými í skónum.

Þá var það á einhvern tímann á tíunda áratugnum sem ég tók þátt í Suðurnesjamaraþoni og einhversstaðar á sléttum Reykjaness, sennilega á leiðinn frá Sandgerði til Keflavíkur reyndi skúmur að fljúga mig niður. Ólíkt kríunni þá var þetta ekki skyndiárás og hann steypir sér ekki eins og hún heldur kom hann í lágflugi úr töluverðum fjarska og ég varð að beygja mig til að verða ekki fyrir fuglinum. En svo lét hann ekki eina árás duga heldur urðu þær tvær. Þetta varð til þess að ég herti hlaupin sem mest ég mátti og kom mér í mark fyrr en ella.