Yfirheyrsla: Pálmar Viggóson úr Hlaupahópi Stjörnunnar

birt 14. apríl 2015


Pálmar reffilegur í Reykjavíkurmaraþoni 2014.

Pálmar Viggósson úr Hlaupahópi Stjörnunnar er einn þeirra sem hefur náð miklum árangri i hlaupum á skömmum tíma. Þessi 49 ára Stjörnumaður mætti á fyrstu hlaupaæfinguna í lok árs 2011, tæpum þremur árum síðar hljóp hann heilt maraþon á 03:07:10, ekki amalegt það.

Húmorinn og gleðin er ekki langt undan hjá Pálmari eins og skín í gegn í svörum hans. Hlaup.is mælir einkum með frásögn Pálmars af sínu fyrsta keppnishlaupi í lok yfirheyrslunnar. Kynnumst þessum spéfugli úr Garðabænum nánar.

Fullt nafn: Pálmar Viggósson.

Aldur: 49 ára.

Heimabær: Nýlega kominn í Kópavoginn úr Garðabænum en uppalinn í Árbænum.

Fjölskylda: Giftur, á tvær dætur 19 og 25 ára og nýlega afastelpu.

Skokkhópur? Hlaupahópur Stjörnunnar, hef líka fengið að mæta með Hlaupahóp Sigga P fyrir stærri verkefni.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Mætti á fyrstu hlaupaæfinguna í nóvember 2011 eftir suð frá nágranna í nokkur misseri, þá hafði ég aldrei hlaupið lengra en 5 km og fannst hlaup frekar púkó, spandex og skokk varla fyrir karlmenn. Eftir nokkrar vikur var maður kominn í spandex.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Langir laugardagar alltaf í uppáhaldi, potturinn nauðsynlegur á eftir.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Heiðmörkin yfir sumarið, annars er stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu orðið mjög gott, batnar með hverju árinu svo fjölbreytnin í bæjarferðum er mikil.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Skiptir ekki öllu máli, það góða við hlaupin að hægt er að koma þeim fyrir þegar hentar í dagskrá dagsins, gæðaæfingarnar henta samt betur síðdegis.

Besti hlaupafélaginn? Ekki hægt að gera upp á milli frábærra félaga í Hlaupahóp Stjörnunnar og Sigga P.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ronhill hefur verið í uppáhaldi undanfarið, mjög góðar vörur.

Hvernig hlaupaskó áttu? Eins og gengur eiga menn nokkuð mörg pör, í dag er ég mest að nota Saucony, Triump ISO í löngu og Kinvara í spretti.  Notaði Adidas adistar boost í sumar sem virkuðu vel, Brooks eru líka góðir.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góðir skór, Garmin og hlaupafélagarnir.

Uppáhaldshlaup og af hverju? Reykjavíkurmaraþon stendur upp úr innanlands, ótrúlega góð stemmning.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Á vonandi eftir að fara að fara í Boston og New York.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Helst að passa að borða ekki yfir sig kvöldið fyrir, vanur að hlaða fyrir hálft og heilt svo síðasta alvöru máltíðin er hádegi fyrir. Morgunmatur fyrir hlaup, vænn sopi af lýsi eins og alltaf, tvær ristaðar með sultu, appelsínusafi, banani og kaffi.


Hlaupahópur Stjörnunnar fyrir Gamlárshlaup, Pálmar fremstur meðal jafningja.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Hef aldrei getað hlaupið með tónlist í eyrum utandyra, vill frekar njóta umhverfisins og spjalla. Nota tónlist samt á brettinu, þá flakkar maður á rásunum og finnur eitthvað taktfast vinsældarpopp, finnst það skárra en að telja bíla eða jeppa eins og sumir hörðustu brettafélagarnir gera við gluggann í WC Kringlunni.

Uppáhaldsorkudrykkur?  Powerade er í uppáhaldi og ég á oftast til High5 sem nýtist vel fyrir hleðslu.

Besti matur eftir keppnishlaup? Maður lætur yfirleitt eftir sér svera steik með öllu, bjórinn góður með.

Hvernig slakar þú á? Gott að fara í heita pottinn með kaldann á kantinum.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Kom sjálfum mér á óvart í Reykjavíkurmaraþoninu, hitti á góðan dag þar sem allt gekk upp.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Vor og sumar þegar léttir á fatnaði.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni?  19:33 í 5 km, 40:20 í 10 km, 1:29:00 í hálfu og 3:07:10 í heilu. Allt tímar frá 2014.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, Siggi P heldur okkur við efnið.

Hvar hleypur þú helst? Oftast út frá sundlauginni í Garðabæ, hægt að fara í allar áttir eftir veðri og vindum, Heiðmörkin og Fossvogshringurinn verða oft fyrir valinu.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Það er seigt í gamla.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Fer eftir því hvað er í gangi, hleyp 3-6 sinnum í viku sem skila 40-80 km.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, reyni að mæta tvisvar í viku í ræktina í styrktaræfingar, er í golfi á sumrin og svo má segja að ég sé að reyna að hætta í fótbolta.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, alltaf tvisvar í viku svona gæðaæfingar.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Fyrirmyndirnar eru reynsluboltarnir sem maður fær að hlaupa með og eru alltaf jafnviljugir að deila reynslu sinni.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já, allt fælað í Excel, Garmin fer á connect.garmin og skrái líka á hlaup.is.

Skoðar þú hlaup.is? Já,næstum daglega, frábær vefur fyrir hlaupara.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Finnst vefurinn mjög öflugur, eruð í stöðugri sókn með áhugavert efni fyrir alla hlaupara hvar sem menn eru staddir, þið eigið mikið hrós fyrir að halda þessu úti.


Flottir félagar úr Stjörnunni í London 2014, Pálmar í miðjunni.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Langtímamarkmiðið er að endast í hlaupum, hlaup er gott sport til að halda sér í formi og hægt að stunda hvar og hvenær sem er með litlum tilkostnaði. Næsta verkefni er Parísmaraþonið í apríl (innsk. blm; Pálmar hljóp á 03:14:48), sumarið fer væntanlega í að reyna skríða undir 40 mín í 10 km, ekkert sjálfsagt með það frekar en annað í þessu. Annars bara að mæta sem mest í þessi flottu hlaup sem eru í boði hérlendis

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Byrjendur í hlaupum komast fljótt að því að hlaup er hálfgerður eltingaleikur, maður er alltaf að elta einhverja og stundum veit maður ekki hverja maður er að elta. Oft líka leikfimi í að plata hausinn, í það minnsta hef ég lent í því að misskilja þessa eltingaleiki. 

Sem dæmi þá mætti segja frá fyrsta keppnishlaupinu sem ég tók þátt í á ævinni. Það var Gamlárshlaupið stuttu eftir að ég mætti á mína fyrstu æfingu, þá fór ég samferða lærimeistara mínum og nágranna í Hörpuna. Á leiðinni fór hann vel yfir öll helstu atriði varðandi þátttöku í svona hlaupi, þetta var góður skóli og upplýsandi fyrir byrjandann. Það var talað um keppnisáætlun, halda haus, peis og eitthvað fleira sem ég skildi ekkert í. Þetta var orðið svo flókið að ég ákvað bara að elta hann í hlaupinu, enda ber hann titilinn fljótustu 100 kílóin í Garðabænum, ekki slæmur félagsskapur.

Eftir góða upphitun, sem mér fannst eiginlega algjör óþarfi enda áttum við eftir að hlaupa heila 10 km, þá létti lærimeistarinn klæðum og var mættur í glænýrri snjóhvítri treyju. Þetta var flottasti aðþrengdi keppnisgalli sem ég hafði séð, svipaði til galla eins og skíðakappar nota, það stóð greinilega mikið til hjá lærimeistaranum. Við ráslínuna fékk ég síðustu ráðleggingarnar, við áttum að troða okkur framar, fór svo að minn maður hvarf í mannhafið fremst þegar nýliðinn missti einbeitinguna í spjalli við kunningja.

Allt í einu var búið að ræsa hlaupið og lærimeistarinn hvergi sjáanlegur, litla hjartað tók kipp og var frekar lítill í mannhafinu, mikill troðningur og lítið hægt að sjá fram fyrir sig en ég var ákveðinn í að finna minn mann. Fljótlega greiddist úr troðningnum og maður fór að skima eftir lærimeistaranum, loksins kom ég auga á minn mann, hann var kominn ótrúlega langt á undan mér. Þá var ekkert annað en að setja í gírinn og reyna ná honum, mikill barningur hófst en ekkert gekk,  hann hélt áfram að fjarlægjast sem endaði á því að ég missti sjónar á honum. Þetta var óskiljanlegt, ég þekkti auðvitað keppnisskapið hans en þetta var út fyrir það. Allskonar spurningar flugu um hugann... hvað fékk hann sér eiginlega í morgunmat, hvaða trix átti hann upp í erminni, ég hlaut að hafa misskilið eitthvað í undirbúningnum. Næstu kílómetrar fóru í að búa til afsakanir fyrir því að vera svona hægur. Þegar ég loks kom uppgefinn í mark sá ég hvítu treyjuna í mannhafinu, ég hafði mig varla að honum en sá mér til mikillar undrunar að þetta var ekki minn maður, næstu mínútur fóru í að bíða eftir mínum manni, hvíta treyjan skilaði byrjandanum fínum tíma.

Svipað gerðist í RM í sumar, þá elti ég gula treyju næstum allt maraþonið þar sem aftan á stóð með risa stöfum 3:14, hélt að þetta væri svona pace-ari fyrir 3:15 sem átti að vera draumatími fyrir mig.  Var mjög hissa þegar ég kom í mark á talsvert betri tíma. Ég er ekki enn búinn að finna viðkomandi og þakka honum aðstoðina við að búa til þennan góða tíma. Auglýsi hér með eftir honum, skulda honum einn kaldann