Yfirheyrsla: Rannveig Hafberg úr Skokkhópi Hauka

birt 11. júní 2015


Rannveig ásamt dóttur sinni og hlaupafélaga, Elínu Ósk.
Rannveig Hafberg er 48 ára kennari úr Hafnarfirði. Vorið 2007 ákváðu hún og nokkrir vinnufélagar úr Áslandsskóla í Hafnarfirði að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hlaupa 10 km. Í kjölfarið hófust æfingar og Rannveig byrjaði að „hlabba" (hlaupa og labba til skiptis) eins og hún orðar það svo skemmtilega. „Ég kláraði hlaupið á 1:25 og var alsæl en gerði svo ekkert fyrr en 2008 en þá hlupum við aftur undir merkjum Áslandsskóla en núna vorum við yfir 20," segir Rannveig.

„Árangurinn var hinsvegar svipaður 2008 og árið áður og aftur hætti ég að „hlabba". Um vorið 2009 tók ég mataræðið alveg í gegn og byrjaði að léttast en ég hafði verið í mikilli yfirþyngd. Um sumarið var ég nokkuð dugleg að „hlabba" með Huldu vinkonu minni þó svo að æfingarnar hafi kannski ekki verið mjög markvissar. Nú kláraði ég á 1:14 og var alsæl með árangurinn og í kjölfarið mætti ég ásamt Huldu á mína fyrstu æfingu hjá Skokkhópi Hauka," útskýrir Rannveig.

Nú var ekki aftur snúið, hjá Haukunum fékk Rannveig ákveðna ráðgjöf og umgjörð sem hafði miklar framfarir í för með sér. Síðan hefur Rannveig hlaupið með Skokkhópi Hauka og tekið þátt í fjölda keppnishlaupa innanlands og utan, með fínum árangri. Kynnumst þessari kjarnakonu nánar.

Fullt nafn: Rannveig Hafberg, kennari og nemi í mannauðsstjórnun.

Aldur: 48 ára.

Heimabær: Hafnarfjörður.

Fjölskylda: Gift Trausta Steinþórssyni, eigum 2 börn, Elvar Stein sem er að verða 28 ára og Elínu Ósk sem er að verða 18 ára.

Skokkhópur: Skokkhópur Hauka.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði að hlaupa fyrir alvöru síðla sumars 2009.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Utanvegar í uppsveitum Hafnarfjarðar og í Heiðmörkinni.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Á morgnana


Líkamlegt atgervi Rannveigar hefur tekið stakkaskiptum frá
2007, hér er hún í Reykjavíkurmaraþoni það ár.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Mér finnst gaman að hlaupa allar vegalengdir, en lengri vegalengdir virðast henta mér betur.

Besti hlaupafélaginn? Félagar mínir í Skokkhópi Hauka. En ég bind miklar vonir við að dóttir mín verði öflugur hlaupafélagi í náinni framtíð og að systir mín dragi fram hlaupaskónna að nýju!

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Á svo mörg uppáhaldshlaup. Finnst svo gaman að taka þátt í keppnishlaupum. Laugavegurinn stendur samt upp úr hér heima ásamt Hvítasunnuhlaupi Hauka og Gullsprettinum. Umhverfið, náttúruupplifunin og stemmningin er frábær í öllum þessum hlaupum. Utanlandshlaupið sem stendur upp úr er Etape Bornholm í Danmörku. Það er fimm daga hlaupahátíð sem stórfjölskyldan fór á í fyrra, við hlupum á hverjum degi á mismunandi stöðum á eynni, umhverfið var stórbrotið, allt skipulag til fyrirmyndar og stemmingin einstök.


Rannveig í miðið með hlaupavinkonum, Júlíönu og Huldur eftir maraþon í Amsterdam 2012.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég er hrifin af Asics, Under Armour og Brooks en uppáhalds hlaupabuxurnar mínar eru frá cw-x.

Hvernig hlaupaskó áttu? Brooks Ghost, Brooks Cascadia og Asics Kayano.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Hlaupaúrið og félagarnir.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin úrið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Mig dreymir um að taka þátt í New York maraþoninu og Comrades ultra maraþoninu í Suður Afríku. Annars er listinn langur...

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Mér finnst best að borða kjúkling og steikt grænmeti kvöldið fyrir keppnishlaup. Morguninn fyrir hlaup borða ég yfirleitt soyapönnuköku með steiktu kanilepli, smá skyri og stundum banana klukkutíma fyrir hlaup, ef mjög langt er liðið frá morgunmatnum.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég hleyp yfirleitt ekki með tónlist í eyrunum nema þegar ég er að keppa og þá set ég oftast í gang þegar hlaupið er hálfnað og ég farin að þreytast. Lagalistinn er fjölbreyttur, lögin gömul og ný en öll hafa þau einhverja merkingu eða tengingu við fólk, atburði eða minningu og hvetja mig áfram.

Uppáhaldsorkudrykkur? Vatn (hljómar betur en Pepsi Max sem ég drekk allt of mikið af!)

Besti matur eftir keppnishlaup? Blóðug nautasteik.

Hvernig slakar þú á? Upp í rúmi með bók, í heitapottinum og úti í náttúrunni í göngu og á hlaupum..

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mesta afrekið var fyrsta hlaupið mitt 2007. En að fara Laugveginn 2012 og 2013 og heilt maraþon í Amsterdam 2012 var líka afrek.


Rannveig með fjölskyldunni eftir Hvítasunnuhlaup Hauka 2014.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Mér finnst alltaf gaman að hlaupa en það er sérstaklega gaman á vorin og sumrin.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km 25:16. - 10 km 51:36 - hálft maraþon 1:55:11- maraþon 4:17 og Laugarvegurinn 8:02:29


Haukarar eftir Poweradehlaup í brunagaddi um hávetur.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, yfirleitt.

Hvar hleypur þú helst? Í Hafnarfirði og þar um kring.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Jákvæð og þrautseig.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Yfir háveturinn hleyp ég þrisvar í viku og þá svona klukkutíma í einu 8 - 10 km. Núna er ég að æfa fyrir Laugarveginn og hleyp fjórum sinnum í viku, lengra og lengra í hverri viku sem líður.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, ég reyni að fara í jóga 1-2 í viku og svo eru styrktaræfingar einu sinni í viku hjá skokkhópnum. Svo dreg ég hjólið fram um leið og fer að vora og hjóla töluvert. Hef m.a. farið í Bláalónsþrautina og er búin að skrá mig aftur í sumar. Síðan stefni ég á að taka skíðagöngu föstum tökum næsta vetur!

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já.


Glæsilegir fulltrúar Hauka við upphaf Laugavegshlaupsins 2013.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Markmiðið mitt er að geta hlaupið eins lengi og ég get. Mig langar að bæta alla tímana mína, en ég er búin að vera meidd meira og minna síðastliðið ár og er farin að átta mig á því að það skiptir mig meira máli að geta hlaupið en að bæta tímana mína.

Það eru forréttindi að geta hlaupið og þegar ég verð svekkt út í tímann minn þá hugsa ég um alla þá sem ekki geta stundað hreyfingu og fyllist þakklæti yfir því að geta hlaupið!

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Já mínar fyrirmyndir eru foreldrar mínir! Þau eru bæði í Skokkhópi Hauka, mamma er að verða 73 og pabbi 75 ára. Pabbi hleypir a.m.k. 3 í viku og fór heilt maraþon í Edinborg í fyrra og í Amsterdam 2012 og þó að mamma geti lítið hlaupið núna þá fer hún út að ganga nánast daglega og fór 10 km í Reykjarvíkurmaraþoninu í sumar. Ég vona að ég verði eins spræk og þau þegar ég kemst á þeirra aldur.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já ég skrái hlaupin mín í hlaupadagbókina á hlaup.is og í connect.garmim.com
Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já ég skoða hlaup.is nokkrum sinnum í viku.


Rannveig ásamt systkinum sínum og foreldrum í Stokkhólmi 2011 þar sem þau tóku þátt í hálfmaraþoni.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Það væri frábært að geta hlaðið garmin úrinu beint inn á hlaupadagbókina.