Yfirheyrsla: Sonja Sif Jóhannsdóttir úr UFA-Eyrarskokk

birt 02. febrúar 2016


Sonja á fullri ferð með þumal á lofti og brosið skammt undan.

Sonja Sif Jóhannsdóttir býr á Akureyri og starfar sem kennari í MA. Hún hleypur með UFA- Eyrarskokk sem er kraftmikill hlaupahópur á Akureyri. Sonja er fertugur hlaupari sem hefur verið að hlaupa síðan 2009 með nokkrum hléum.

Hún hefur aðallega verið að keppa í 10 km en á síðasta ári hljóp hún í fyrsta skipti lengra en hálfmaraþon, fór Laugaveginn og keppti svo í sínu fyrsta maraþoni í september þegar hún hljóp í Berlínarmaraþoni á tímanum 3:24:29 og náði níunda besta tíma ársins í kvennaflokki.

Sonja heldur því líka fram að hún sé í skemmtilegasta saumaklúbb landsins, allavega aktívasta. Þær hafa farið tvisvar erlendis til að keppa í hálfmaraþoni, Gautaborgar og Stokkhólms.

Fleiri Yfirheyrslur á hlaup.is

Fullt nafn: Sonja Sif Jóhannsdóttir.

Aldur: 40 ára á árinu.

Heimabær: Akureyri.

Fjölskylda: Gift Gunnari Atla Fríðusyni, eigum 4 börn - Kára, Örvar Erni, Selmu Hrönn og Kolbein Óla.

Skokkhópur: UFA - Eyrarskokk.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði ekki að hlaupa reglulega fyrr en haustið 2009. Þegar ég var yngri þá var ég í frjálsum en þá voru langhlaup ekki ofarlega á vinsældarlistanum.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Ég á mér engar uppáhalds vegalengd, mér finnst þetta allt mjög skemmtilegt. Fjölbreytt og ögrandi er skemmtilegast.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Mér finnst lang skemmtilegast að hlaupa utanvega. Hér í kringum Akureyri er mikið af skemmtilegum leiðum s.s. í Naustaborgum, Kjarna, Krossanesborgum og meðfram bökkunum fram í Eyjafjörð. Mér finnst líka einstaklega gaman að hlaupa utanvegar í Mývatnssveit, þar er ógrynni af spennandi leiðum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Hvenær sem er nema á kvöldin, er alls engin kvöldmanneskja.

Besti hlaupafélaginn? Eiginmaðurinn er mjög ofarlega á vinsældarlistanum, annars eru UFA - Eyrarskokkarar einstaklegar skemmtilegir upp til hópa og hlaupaskvízurnar í Hello Kitty eru gleðigjafar. Verst er að þær búa allar fyrir sunnan, þannig að ég hitti þær alltof sjaldan á hlaupum.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Adidas.

Hvernig hlaupaskó áttu? Ég á nú nokkur pör...en ég nota Saucony og Adidas skó þó mest.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góðir skór og skemmtilegur félagsskapur er alveg ómissandi á æfingu.


Brosandi á Laugaveginum 2014.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Það er alveg gríðarlega erfitt að gera upp á milli allra þessara skemmtilegu hlaupa sem eru í boði. Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið og Snæfellsjökulshlaupið koma fyrst upp í hugann, utanvegahlaup þar sem náttúrufegurðin er allsráðandi. Síðan finnst mér virkilega gaman að hlaupa með Stefáni Gíslasyni í Fjallahlaupunum hans, ætla mér að gera meira af því á næstu árum. Hef ekki mikla reynslu af hlaupum erlendis en það var einstaklega gaman að hlaupa mitt fyrsta maraþon í Berlín núna í haust. Það var svo undarleg orka í Berlín sem kom manni brosandi í mark. Félagsskapurinn í kringum hlaupin er alveg ómetanlegur, ég er í mjög virkum saumaklúbb sem hefur farið tvisvar sinnum erlendis saman og tekið þátt í hálfmaraþoni. Þessar ferðir gefa lífinu gildi.


UFA-Eyrarskokkarar í Munchen árið 2014.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupaúrið er í pínu uppáhaldi, maður vill halda utanum kílómetrana og pace-ið! Maður verður hálfgerður tölunörd á þessum hlaupum. Núna síðustu misseri er góður púlsmælir líka ómissandi.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Draumurinn er að fara einn daginn og hlaupa í Mount Blanc og í Lavaredo ultra trail í Dolomite fjöllunum. Síðan á ég eftir að hlaupa eitthvað af þessum stóru maraþonum úti í heimi.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei ég hleyp nánast aldrei með tónlist í eyrunum.

Uppáhaldsorkudrykkur? Leppin og HIGH5

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Mér finnst best að borða eitthvað létt kvöldið fyrir hlaup s.s. matarmikla súpu eða góðan fisk. Passa samt að hafa kolvetnin í meirihluta og drekka nóg af vatni. Í morgunmat fyrir keppnishlaup fæ ég mér alltaf tvær ristaðar brauðsneiðar með sultu og drekk vatn.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ekkert sérstakt í uppáhaldi, borða nánast allt.

Hvernig slakar þú á? Upp í sófa, undir teppi með góða bók.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ég hef nú ekki afrekað neitt sérstaklega á hlaupabrautinni en ég er stoltust af því að eiga annan besta tímann í miðju vegalengdinni í Jökulsárhlaupinu og þriðja besta tímann í stystu vegalengdinni. Nú þarf ég bara að komast á blað í lengstu vegalengdinni.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Alltaf, allar árstíðir hafa sinn sjarma.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km - 20:18 - þarf að bæta þetta, þrjú ár síðan ég hef hlaupið 5 km á tíma. 10 km - 41:29 - hálfmaraþon -1:35:21 - maraþon -3:24:29. Mætti mig í 10 km, hálfu og maraþonu á þessu ári (reyndar var þetta mitt fyrsta maraþon), fór að hlaupa eftir púls og lagði minni áherslu á paceið....mjög erfitt í fyrstu en fer vonandi að tikka betur og betur inn.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, finnst það mjög mikilvægt.

Hvar hleypur þú helst? Í Kjarnaskógi og Naustaborgum.


Á lokametrunum í Berlínarmaraþoni 2015.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Maðurinn minn vill meina að ég sé hlaupandi excel-skjal!


Saumaklúbburinn Hello Kitty í hálfmaraþoni í Stokkhólmi 2012
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Það er mjög misjafnt, fer eftir árstíma og markmiðum. Oftast 5x í viku alveg frá 5 km og upp í 35 km í einu. Ég er að hlaupa cirka 50 km á viku en getur farið alveg yfir 100 km ef ég er að æfa fyrir löng hlaup.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já, yfir vetrartímann lyfti ég 2x í viku með hlaupunum, síðan reyni ég að fara í jóga 1x í viku. Sund og hjól detta öðru hverju inn líka.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, ekki spurning.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Næsta markmið er að fara Laugaveginn á sem skemmstum tíma sumarið 2016. Síðan er draumurinn að bæta tímana í 5 km, 10 km og hálfu á næsta ári. Langtímamarkmiðið er svo að geta hlaupið þegar ég verð gömul, hugsa vel um líkamann þannig að ég verði ekki öll úr mér gengin og auðvitað hafa gaman af þessu.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ég á mér nokkrar fyrirmyndir, ein þeirra er Stefán Gíslason. Hann er alltaf svo jákvæður og brosmildur á hlaupum og alveg einstaklega hvetjandi keppinautur. Þorbergur Ingi er líka alveg frábær fyrirmynd þegar kemur að dugnaði og elju!

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já ég hleyp með garmin úr og nota garmin connect og Strava.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, algjör biblía okkar hlaupara.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Nei - bara fín eins og hún er.


Sonja ásamt eiginmanni og vinkonum eftir Vesturgötuna.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Já en flestar eru ekki prenthæfar og flestar tengjast því að verða brátt í brók á hlaupum ;)