Yfirheyrsla: Svava Rán Guðmundsdóttir úr Árbæjarskokki

birt 12. mars 2015


Svava Rán í Berlín 2013, maraþon sem hún heldur mikið upp á.

Svava Rán Guðmundsdóttir úr Árbæjarskokki hefur náð eftirtektarverðum árangri í hlaupaíþróttinni þrátt fyrir tiltölulegan stuttan feril. Hún hljóp fyrst árið 2007 og hefur vart litið til baka síðan. "Ég tók nokkrar æfingar fyrir 10 km í RM 2007 en í kjölfarið hvíldi ég um veturinn. Frá því sumarið 2008 hef ég nokkurn veginn hlaupið stanslaust, en þá ákváðum ég og Kristján maðurinn minn að byrja að hlaupa saman," segir Svava Rán sem á flotta tíma í hinum ýmsu vegalengdum.

Haustið 2009 gengu þau hjón í Árbæjarskokk og var tekið opnum örmum af frábæru fólki sem gerðu hlaupin enn skemmtilegri eins og Svava orðar það. "Í dag lítum við eiginlega á hlaupafélagana sem nána fjölskyldumeðlimi og bestu vini!"

Fullt nafn: Svava Rán Guðmundsdóttir.

Aldur: 44 ára.

Heimabær: Alin upp í Kópavogi en hef búið í Reykjavík sl. 18 ár.

Fjölskylda: Gift Kristjáni Sigurðssyni og saman eigum við tvo stráka 15 og 18 ára.

Skokkhópur: Árbæjarskokk, hef líka aðeins fengið að vera með Afrekshópnum og Sigga P.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði eiginlega á að hlaupa niður Esjuna sem ég fór á hverjum laugardegi í uþ.b. ár. Svo hljóp ég á milli ljósastaura í leikfimi sem ég var í þar sem farið var út ef vel viðraði.  Í kjölfarið ákvað ég að reyna við 10 km í RM 2007 og það tókst á tímanum 55:43. Það fannst mér mikið afrek og man að öll fjölskyldan fór á Mc Donald''s eftir hlaup til að fagna.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Í keppni er þetta tröppugangur, allt frá maraþoni sem er í fyrsta sæti niður í 5 km. Á æfingum elska ég hreinlega langar laugadagsæfingar þar sem hlaupið er á sæmilegu tempói rúma 20 km, hef líka alltaf verið mjög hrifin af tempóæfingum, t.d. 10 km tempó inni í 18 km æfingu.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?  Er mjög fylgjandi því að breyta til hvað varðar hlaupaleiðir, leiðist að hlaupa sömu leiðina mjög oft í röð. Allar leiðir hafa sinn sjarma, bæði utanvega og á malbiki.  Finnst einnig mjög skemmtilegt að hlaupa á stöðum þar sem ég kem sjaldan, bæði hér heima og erlendis, svona "könnunarleiðangra."

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa?  Á morgnana (ekki of snemma samt) og seinnipartinn.

Besti hlaupafélaginn? Er svo heppin að nokkrir af mínum bestu vinum fylgdu mér í Árbæjarskokk á sínum tíma, þannig að þeir ásamt restinni af hópnum eru allir frábærir hlaupafélagar  Eftir að maðurinn minn varð of hraður til að hlaupa með mér hefur Arnar Garðarson reynt að fylla hans skarð og við hlaupum mikið saman. Sakna Hólmfríðar Völu sem var og er mér mikil fyrirmynd og hvatning, ekki síst þegar ég var að byrja í Árbæjarskokki. Það getur verið erfitt þegar hlaupafélagarnir ákveða að flytja landshluta á milli.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Nike.

Hvernig hlaupaskó áttu? Asics og Brooks.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Hlaupaúrið, annars telur æfingin varla.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Berlín og Powerade.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Úrið og mjög hlýir vettlingar

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?  Eins og er þá langar mig mjög að hlaupa Laugaveginn aftur. Og taka svo Berlín eins oft og hægt er áður en ég fer á elliheimili.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Alltaf pizza (helst heimagerð) og einn ískaldur flöskubjór kvöldið fyrir keppni. Um morguninn er það hafra- og bygggrautur með rúsínum um ásamt kannski 1/2 - 1 banana.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Bara þegar ég er ein og í keppnum. Þá helst eitthvað létt, taktfast og hvetjandi. Gott disco eða hip hop klikkar seint.


Hjónin Svava og Kristján, þreytt og sæl eftir Sjö tinda hlaupið.

Uppáhaldsorkudrykkur? Hef aldrei drukkið orkudrykk, tekið orkugel eða neitt í þá veruna. Hef verið með kókosvatn með sítrónu, salti og smá hunangi í maraþonum, einnig hef ég prófað að vera með epla eða appelsínusafa og það hefur gengið vel.


Svava og félagar í Árbæjarskokki eftir Berlínarmaraþon 2011.

Besti matur eftir keppnishlaup? Banani, grænt te og brauð. Eftir maraþon finnst mér Big Mac og franskar mjög æskilegt!!

Hvernig slakar þú á? Slaka best á eftir æfingar, þá finnst mér mjög gott að fara í heita pottinn eða langt bað.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Að klára hlaup sem hafa ekki gengið að óskum hefur verið það sem mér hefur fundist erfiðast og má því segja að það séu jafnvel mestu afrekin.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Tvímælalaust á sumrin.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 20.00 - 41:03 - 1:30:10 og 3:13:13.

Hvar hleypur þú helst? Árbæ og Grafarholti.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Staðföst og með full mikið keppnisskap.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? 40 - 100 km, finnst nauðsynlegt að minnka aðeins hlaupin inn á milli, þetta má ekki verða of samfellt álag.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Spinning er í miklu uppáhaldi hjá mér, tek það á veturna ásamt æfingum og lyftingum. Þá reyni ég að halda hot yoga inni einu sinni í viku allan ársins hring. Hef gert það í tvö ár og finnst það algjörlega nauðsynlegt, frábærar teygjur og mikill styrkur. Er svo í hinni margrómuðu hlaupaleikfimi hjá Gauta Grétars einu sinni í viku.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, er samt ennþá hrædd við að beita mér á fullu í sprettum þar sem ég fór í aðgerð á báðum kálfum fyrir tveimur árum og finn að þeir eru viðkvæmir í sprettunum. Ég hef gífurlega trú á tempóhlaupum og finnst þau skila mér miklu.


Svava í miðið ásamt systur sinni og bestu vinkonu, Hildi og Hildi.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Að hafa ánægju af hlaupum, finnast gaman að reyna að bæta mig og halda áfram að hafa gaman af því að ögra mér.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Já, heillast af hugarfari hlaupara almennt, allt þetta fólk sem hleypur hér í þessum aðstæðum sem Ísland býður okkur upp á allan ársins hring. Fólk sem skellir sér út í hvaða veðri sem er, yfirleitt í fullri vinnu, með börn og bú og mörg önnur verkefni. Þetta finnst mér mjög aðdáunarvert og heillandi.

Skráir þú niður æfingar þínar, með hvaða hætti? Skrái allar æfingar í Garmin Connect og hef gert það frá því ég byrjaði að nota hlaupaúrið, finnst gaman og mjög gott að skoða æfingarnar mínar aftur í tímann.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já, mjög reglulega. Nauðsynleg frétta og upplýsingasíða fyrir hlaupara landsins.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Nei, sé að hún er í stöðugri þróun sem er gott.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Okkur Adda hlaupafélaga mínum fannst frekar fyndið þegar maður sem við mættum á hlaupum kallaði á eftir okkur í Heiðmörkinni: "Passaðu þig á að konan þín verði ekki á undan þér." Addi kallaði til baka: "Ha, konan mín? Það er nú frekar erfitt þar sem hún er ekki að hlaupa. Þetta er viðhaldið!"