Valur Þór skartaði alskeggi til heiðurs Forrest Gump í sínu fyrsta maraþoni. | Valur Þór Kristjánsson er 34 ára borinn og barnfæddur Breiðhyltingur sem æfir með ÍR skokk. Það var ekki fyrr en fyrir réttum þremur árum að Valur Þór fór að hlaupa reglulega en þrátt fyrir það á hann hreint frábæra tíma í hinum ýmsu vegalengdum. Fullt nafn: Valur Þór Kristjánsson Aldur: 34 ára. Heimabær: Fæddur og uppalinn í Reykjavík. Fjölskylda: Einhleypur. Skokkhópur: ÍR-Skokk. |
Hvenær byrjaðiru að hlaupa? Það er ekki lengra síðan en í janúar 2012 sem ég hljóp í fyrsta sinn tíu kílómetra vegalengd. Fyrir það hafði ég hins vegar í mörg ár tekið reglulega skokkhringi um hverfið mitt.
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Ef maður er í góðu ástandi þá eru þrjátíu kílómetrar úti í sólskinsveðri mjög frískandi.
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Þessa dagana er ég hrifnastur af Heiðmörkinni.
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Í fyrsta lagi maður sjálfur. Í öðru lagi þurfa fæturnir að vera í lagi. Svo er í þriðja lagi gott að hafa einbeitinguna góða.
Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Á frídögum er best að klára hlaupið fyrri hluta dags. En svo er líka mjög gott að láta amstrið líða úr sér með hlaupaæfingu eftir að maður kemur úr vinnu og áður en maður fer heim. Besti hlaupafélaginn? ÍR-ingarnir finnst mér nokkuð hressir. Uppáhalds hlaupafatnaður? Mér finnst Adidas kúl. Hvernig hlaupaskó áttu? Ég er núna að hlaupa í mínu öðru pari af Adidas Energy Boost. Þeir hafa reynst mér mjög vel. Svo á ég líka Asics Kayano, sem eru ágætir. | Valur Þór th. á verðlaunapalli í Haustmaraþoni. |
Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Mér fannst síðasta Haustmaraþonið nokkuð skemmtilegt. Mér fannst svo margt fara úrskeiðis. Ég þurfti að taka pissupásu. Ég rann í hálku, felldi niður eina drykkjastöð í leiðinni og leið auðvitað pínuilla fyrir hönd hlaupara sem komu á eftir mér. Mér skildist reyndar að brautaverðirnir hefðu reddað þessu á augabragði. En ég stífnaði líka vel upp eftir þrjátíu kílómetrana. Ég hélt hins vegar haus og hafði gaman af þessu og mér algjörlega að óvöru endaði ég í þriðja sæti. Ég hef ekkert hlaupið erlendis og er það óskrifað blað fyrir mér.
Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Vökvinn, orkan og ef ég er einn músíkin.
Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Mig dreymir um að hlaupa í næsta Bostonmaraþoni. Mér tókst í síðasta maraþoni að vera innan viðmiðunarmarka fyrir minn aldursflokk og ætla því að sækja um að hlaupa þar.
Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Fyrir síðasta maraþon held ég að ég hafi fengið mér hrísgrjónarétt með tófú og soðnu grænmeti í kvöldmat og epli í kvöldhressingu. Svo fékk ég mér hafragraut og banana í morgunmat. Það reyndist mér ágætlega.
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ef ég hleyp einn þá finnst mér MP3-spilarinn ómissandi. Ég hlusta á mín uppáhöld sem eru Bob Dylan, The Rolling Stones, Lou Reed og þannig týpur.
Uppáhaldsorkudrykkur? Ég drekk nokkuð af Powerade. Svo finnst mér Gúið gott á hlaupunum.
Besti matur eftir keppnishlaup? Strax eftir hlaup er best að fá sér súpu og brauð. Ef hlaupið gekk vel þá er auðvitað best að setjast fljótlega niður einhver staðar og fá sér fínan mat og drekka smá öl með.
Hvernig slakar þú á? Ég er ekkert voðalega hrifinn af því að slaka á. En stundum er maður bara búinn á því. Ég er reyndar nokkuð duglegur að leyfa sjálfum mér að sofa út. Mér finnst líka gott að vera alltaf með einhverja góða bók við höndina. Svo er ég einnig kvikmyndafíkill.
Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mér finnst næstum því alltaf mitt síðasta hlaup vera mitt mesta hlaupaafrek. Ég er allavega búinn að monta mig af ófáum PB-um á fésbókinni undanfarin misseri. Annars er ég tiltölulega nýr í þessu og á ennþá inni bætingar sem maður má kannski ekki vera of gráðugur í. Ég reyni samt alltaf að leggja mig allan fram og ef mér finnst ég takast það, þá verður það að hlaupaafreki.
Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Á vorin. Þá er fiðringur og gaman að vera úti. Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? Ég náði 36:16 í síðasta 10 km Krabbameinshlaupinu, 1:20:46 í síðasta hálfmaraþoni, miðnæturhlaupi Suzuki, 3:01:21 í síðasta Vormaraþoni. Ég á engan skráðan 5 km tíma. Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já. Ég er alltaf með áætlun. Þau eru reyndar að mestu sniðin í kringum maraþonhlaupin. En ég breyti þeim og hliðra fyrir hin hlaupin. Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég verð seint þreyttur á að hlaupa. | "Ég verð seint þreyttur á að hlaupa," segir Valur Þór. |
Hvar hleypur þú helst? Ég er mest í Elliðaárdalnum. En svo má líka sjá mig í Fossvoginum, Kópavoginum, Laugardalnum og Heiðmörkinni.
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Síðustu mánuði hef ég verið að hlaupa fimm til sex sinnum í viku og í heildina 65-85 km.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég reyni að rífa í lóðin og gera styrktaræfingar í ræktinni, allavega tvisvar í viku. Ég er ekki með neitt sérstakt prógram og er það bara svona bland-í-poka æfingar. Svo tek ég líka skriðsund reglulega og reyni að vera duglegur að nota götuhjólið mitt sem farartæki.
Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, enda finnst mér þær æfingar skipta miklu máli ef maður vill bæta hraða sinn.
Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Ég er með allskonar hlaupadrauma sem tengjast hinum og þessum stórborgum, Berlín, New York, London, París og svo framvegis.
Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Já, og ég myndi fyrst og fremst vilja nefna Forrest Gump en ég safnaði myndalegu skeggi honum til heiðurs þegar ég hljóp mitt fyrsta maraþon. Þó hann hafi verið skálduð persóna þá var hann hjartahreinn og heill í hlaupunum og alveg til fyrirmyndar. Annars eru margir töffarar þarna úti sem maður hefur kynnst og tekið til fyrirmyndar. Lítil ædóldýrkun er kannski dálítið einkennandi fyrir hlaupaíþróttina og helstu fyrirmyndirnar þá aðrir hlaupafélagar.
Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég skrái allt niður í bók og á alla mína kílómetra síðan í byrjun 2012. Mest af mínum útihlaupum eru inni á Garmin Connect. En svo hef ég líka verið nokkuð á hlaupabretti og sérstaklega á veturnar. Ég skrifa það allt niður.
Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já. Gott, ef ég geri það ekki næstum því daglega. Ein af mínum uppáhaldssíðum.
Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Nei, en mér finnst þið frábær.