Vilhjálmur Þór Svansson úr mfl ÍR ætlar að blása lífi í Yfirheyrsluna á hlaup.is sem hefur nú legið í dvala um skeið. Þessi 31 árs gamli hlaupari byrjaði að leggja stund á hlaup fyrir fjórum árum og er nú fastagestur í efri sætum íslenskra götuhlaupa.
Það sem átti að vera fyrsta og síðasta götuhlaupið hjá Vilhjálmi árið 2014 hefur nú þróast út í það að æfa 9-10 sinnum í viku með gríðarlegum framförum. Hlaupabakterían greip Vilhjálm svo sannarlega og hefur ekki sleppt honum síðan. Gefum Vilhjálmi orðið.
Fullt nafn: Vilhjálmur Þór Svansson.
Aldur: 31 árs.
Heimabær: Reykjavik.
Fjölskylda: Ég er í sambúð með langhlauparanum og lækninum Elínu Eddu Sigurðardóttur.
Skokkhópur: Ég er að æfa með meistaraflokk ÍR hjá Mörthu Ernsdóttur og ég hef æft þar í rúm 3 ár, fyrst hjá Gunnari Páli Jóakimssyni áður en Martha tók við hópnum.
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði að æfa hlaup eftir að félagi minn Vignir Már Lýðsson fékk mig til að keppa í Miðnæturhlaupinu í júní 2014 og sé sannarlega ekki eftir því.
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Einhverra hluta vegna hefur mér alltaf fundist skemmtilegast að keppa í 5 km götuhlaupi og finnst það ennþá mjög skemmilegt ásamt 10 km götuhlaupi. Finnst einnig lúmskt skemmtilegt að keppa í 1500m hlaupi.
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Hérna heima finnst mér lang skemmtilegast að hlaupa á mjúku undirlagi, eins og í Heiðmörkinni. Þegar ég kíki til útlanda finnst mér alltaf gaman að taka góðan rólegan skokktúr til að kynnast staðnum sem ég er að heimsækja betur.
Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Eins og með fótboltaæfingarnar þegar ég var yngri finnst mér alltaf lang skemmtilegast að taka morgunæfingar um helgar og detta svo í pottinn eftir á. Það combo klikkar seint.
Uppáhalds hlaupafatnaður? Adidas.
Besti hlaupafélaginn? Það er kærastan Elín Edda en við æfum talsvert mikið saman, enda í sama langhlaupara prógrami hjá Mörthu, við erum t.am bæði að fara keppa í ½ maraþoni í Valencia í lok mars, Elín á HM en ég í götuhlaupinu. Því er nóg að gera í hlaupunum þessi misserin. Hlaupafélagarnir í Team Nesinu eru svo ávallt klassa æfingafélagar.
Hvernig hlaupaskó áttu? Ég hleyp í Adidas Boost skónum og á nokkrar tegundir frá þeim en nota mest Adidas Adizero sem ég keppi ávallt í og Adidas Ultra Boost sem eru ómissandi fyrir löngu túrana o.fl.
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góður æfingafélagi.
Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Ætli það sé ekki 5 km í Miðnæturhlaupi Suzuki eflaust af því að ég hef ávallt bætt mig vel í því hlaupi. Tók fyrst þátt 2014 og var þá í 223. sæti á tímanum 26:05 en var svo í 2. sæti í fyrra á tímanum 16:52 mín. Hef einungis tvisvar keppt erlendis í litlum götuhlaupum, en fyrsta stóra utanlands hlaupið verður í Valencia eftir 3 vikur - sjáum hvernig það fer.
Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Ég veit ekki hvort ég hefði getað hlaupið öll þessi útihlaup í vetur án þess að vera með gott buff yfir andltið.
Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Ekker sérstakt sem mér dettur í hug núna, en ég sá einhverja fréttaumfjöllun í fyrra af nokkrum Íslendingum sem kepptu í Pyongyang maraþoninu í N-Kóreu - gæti verið áhugavert að keppa þar.
Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég er ekki með neina sérstaka rútínu kvöldið fyrir hlaup, en er voða íhaldssamur þegar kemur að morgunmatnum fyrir keppni; þar hefur hafragrauturinn ávallt vinninginn.
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég gerði meira af því þegar ég byrjaði að hlaupa, en geri það eingöngu núna þegar ég tek löngu túrana einn á sunnudögum og hlusta þá mikið á Muse, Arcade Fire og Coldplay.
Besti matur eftir keppnishlaup? Pasta eða eitthvað ítalskt. Finnst ítalskt reyndar bara alltaf gott.
Uppáhaldsorkudrykkur? Drekk frekar lítið af slíku en Powerade í Árbæjarlauginni eftir Powerade hlaupið á veturna stendur alltaf fyrir sínu.
Hvernig slakar þú á? Ég slaka best á þegar ég dett í góða bók.
Mesta afrek á hlaupabrautinni? 10 km í Adidas Boost hlaupinu í fyrrasumar á tímanum 34:55 mín þar sem ég kom sjálfum mér nokkuð á óvart.
Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sá tími fer að ganga í garð: vorið.
Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km: 16:52. 10 km: 34:55. ½ maraþon: 1:19:28, allt tímar frá árinu 2017.
Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, frá þjálfaranum okkar Mörthu Ernst.
Hvar hleypur þú helst? Ég hleyp mjög mikið í vesturbænum, í Skerjarfirðinu og út á Seltjarnesi, en ég bý þar í kring.
Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Metnaðarfullur langhlaupari sem finnst skemmtilegt að æfa á hægum púls, en keppa í hröðu 5 km götuhlaupi.
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég hleyp ca 9-10 sinnum í viku, og fer í kringum 95-105 km á viku. Misjafnt hvað hver æfing er lengi en þær eru frá ca 60-120 mín.
Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, hvoru tveggja.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Fyrir utan hlaupin tek ég styrktaræfingar 2x í viku yfir haust- og vetrarmánuðina.
Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Til skemmri tíma eru það sömu markmiðin og ég hef haft síðan ég byrjaði að æfa hlaup, að bæta tímana mína eins mikið og ég get. Til lengri tíma langar mig að haldast heill heilsu svo ég nái að halda mér í þokkalegu formi enda finnst mér það algjör lífsgæði að æfa hlaup reglulega.
Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ætli það sé ekki æfingafélagi minn í ÍR og gamli jarðfræðkennari minn í menntó Hafsteinn Óskarsson sem sýnir mér að aldur er enginn fyrirstaða í því að ná góðum árangri í hlaupunum.
Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já ég geri fátt skemmtilegra en að skipuleggja hvaða hlaup ég ætla að taka þátt í á árinu með því að skoða dagskránna á síðunni ykkar reglulega.
Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég reyni að skrá æfingarnar mínar samviskusamlega í excel skjal sem ég hef notað síðan ég byrjaði að æfa hlaup.
Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Nei, held bara ekki, allt í orden hjá ykkur.
Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Ekkert voða spennó sögu sem mér dettur í hug einmitt núna, en ég man þegar ég byrjaði að hlaupa sumarið 2014 þá setti ég mér það markmið að ná undir 50 mín í RVK-maraþoninu í ágúst sama ár. Hafði í raun mjög takmarkaðan áhuga á að æfa hlaup að einhverju viti, en vildi ná undir 50 mín í 10 km, haka í það box. Fósturfaðir minn, Magnús Harðarson sem er mikill hlaupari sagði ítrekað við mig að mér ætti eftir að finnast mjög erfitt að taka eitt hlaup og hætta. Því ef menn lendi í hlaupabakteríunni sem ég gerði svo heldur betur væri erfitt að snúa til baka. Ég hef í raun ekki hætt að reyna bæta mig síðan ég tók þátt í mínum fyrstu keppnum sumarið 2014.