Auglýsing eftir sjálfboðaliðum í tvær rannsóknir í sjúkraþjálfun á Heilbrigðavísindasviði Háskóla Íslands

uppfært 30. október 2023

Hlaup.is hefur nokkrum sinnum kynnt rannsóknir í sjúkraþjálfun á Heilbrigðavísindasviði Háskóla Íslands og aðstoðað ábyrgðaraðila við að fá sjálfboðaliða í rannsóknina. Ábyrgðarmaður beggja rannsókna er Þórarinn Sveinsson prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun á Heilbrigðavísindasvið Háskóla Íslands, Stapi, Hringbraut 31, 101 Reykjavík, sími: 848-0554; thorasve@hi.is. Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í eftirfarandi tvær rannsóknir:

1) Samanburður á áhrifum þreytu á undirstöðukrafta og liðferla í ökkla hjá hlaupurum í skóm og berfættum

Auglýst er eftir hlaupurum til að taka þátt í ofannefndri rannsókn. Hún hefur það að markmiði að bæta skilning á því hvernig berfætt hlaup hafa áhrif á það hvernig hlaupastíll hlaupara breytist þegar hlauparar þreytast í samanburði við þá sem hlaupa í skóm. Þekkingin mun nýtast til að minnka meiðslaáhættu, bæta þjálfun og endurhæfingu eftir meiðsli hjá þeim sem stunda hlaup sér til heilsubótar.

Í þátttökunni felst að mæta þrisvar í mælingar. Fyrsta mælingin tekur um 20-30 mín með upphitun en þær síðari um klukkustund hver. Mælingar fara fram í húsnæði Rannsóknarstofu í hreyfivísindum að Hringbraut 31. Þátttakendur þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Stunda hlaup reglulega sér til heilsubótar
  • Vera á aldrinum 20-60 ára
  • Ekki hafa neinar fatlanir eða sjúkdóma sem gætu haft áhrif á hlaupin, t.d. hjarta eða lungnasjúkdóma
  • Hafa hlaupið á göngu- eða hlaupabretti nokkru sinnum sl 6 mánuði.

Mælingar fara fram í nóvember 2023. Þú getur smellt hér til fá nánari upplýsingar um rannsóknina og taka þátt í henni. Hlauparar og umsjónarmenn hlaupahópa eru hvattir til að deila þessari auglýsingu inn á þá samfélagsmiðla sem þeirra hlaupahópur, eða hlaupasamfélag, notar.

Rannsakandi er Svana Ösp Kristmundsdóttir meistaranemi í sjúkraþjálfun við HÍ, og er meistaraverkefni hennar hluti af þessari rannsókn.

2) Tengsl bátsbeinsfalls við álag á fjarlægan þriðjung sköflungs hjá langhlaupurum

Auglýst er eftir hlaupurum til að taka þátt í ofannefndri rannsókn. Hún hefur það að markmiði að bæta þekkingu á áhættuþáttum fyrir miðlægri beinhimnubólgu. Óskað er eftir þátttöku bæði einstaklinga sem hafa sögu um miðlæga beinhimnubólgu og án hennar. Niðurstöðurnar munu nýtast til að bæta forvarnir gegn henni og öðrum álagsmeiðslum meðal hlaupara, bæta þjálfun og endurhæfingu eftir meiðsli hjá þeim sem stunda hlaup sér til heilsubótar.

Í þátttökunni felst að mæta einu sinni í mælingu í húsnæði Rannsóknarstofu í hreyfivísindum við Háskóla Íslands að Hringbraut 31. Þátttakendur þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Stunda hlaup reglulega sér til heilsubótar

Vera á aldrinum 20-60 ára

Ekki hafa neinar fatlanir eða sjúkdóma sem gætu haft áhrif á hlaupin, t.d. hjarta eða lungnasjúkdóma

d) Hafa hlaupið á göngu- eða hlaupabretti nokkru sinnum sl 6 mánuði.

Mælingar fara fram í nóvember og desember 2023. Þú getur smellt hér til fá nánari upplýsingar um rannsóknina og taka þátt í henni. Hlauparar og umsjónarmenn hlaupahópa eru hvattir til að deila þessari auglýsingu inn á þá samfélagsmiðla sem þeirra hlaupahópur, eða hlaupasamfélag, notar.

Rannsakandi er Reynir Zoëga meistaranemi í sjúkraþjálfun við HÍ, og er meistaraverkefni hans hluti af þessari rannsókn.

Ef þú hefur spurningar um rétt þinn sem þátttakandi í vísindarannsókn eða vilt hætta þátttöku í rannsókninni getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Sími: 551-7100, fax: 551-1444, tölvupóstur: vsn@vsn.is.