Brekkuhlaup Breiðabliks - Arnar Pétursson segir frá hlaupinu og gefur heilræði

uppfært 12. maí 2021

Frjálsíþróttadeild Breiðabliks og Hlaupahópur Breiðabliks kynna spennandi nýjung, Brekkuhlaup Breiðabliks sem haldið verður laugardaginn 15. maí kl 10:00.  Ræst verður í Kópavogsdalnum og endamarkið verður Kópavogsvelli.

Leiðin er 15,4 km og uppsöfnuð hækkun er um 250 metrar. Hlaupinn verður skemmtilegur hringur um stíga Kópavogs en eins og nafnið gefur til kynna var lögð sérstök áhersla á að finna leið sem innihéldi brekkur til þess að gera hlaupið bæði meira krefjandi og skemmtilegt. Þannig þurfa þátttakendur að hlaupa upp hinn víðfræga Himnastiga, upp úr Kópavogsdal og einnig upp í efri byggðir Kópavogs. Það verður enginn svikinn af þessari áskorun.

Við töluðum við Arnar Pétursson og hann sagði okkur allt um hlaupið og hver hugsunin væri við það að halda hlaup af óstaðlaðri vegalengd með fullt af brekkum  hér í bænum. Hann gaf okkur líka heilræði um hvernig við ættum að afgreiða brekkurnar og sagði að í raun væri þetta bara eins og rétt rúmlega 11 km hlaup, þrátt fyrir alla 15,4 km sem mælingin segir okkur að það sé. Finndu út hvernig hægt er að stytta svona hlaup í höfðinu og nálgast það á nýjan hátt. Arnar segir líka að þetta hlaup henti bæði þeim sem eru að hlaupa styttri vegalengdir að jafnaði og þeim sem eru að hlaupa lengri hlaup eins og Laugaveginn.

Allar nánari upplýsingar og skráning eru hér á hlaup.is.