Þeir eru ansi öflugir hlaupararnir sem þegar hafa skráð í í 100 km hlaupið í Salomon Hengill Ultra sem fram fer í Hveragerði helgina 5. til 6. júní næstkomandi. Listinn yfir hlauparana er nánast eins og listi yfir okkar allra bestu hlaupara. Þegar þetta er skrifað eru 35 hlauparar skráðir í 100 km hlaupið.
Hér að neðan stiklar Einar Bárðarson skipuleggjandi hlaupsins á stóru um þátttakendur í 100 km hlaupinu :
"Örvar Steingrímsson, margreyndur landsliðsmaður í utanvegahlaupum. Var í landsliði Íslands 2015,2016 og 2019. Sigraði Laugaveginn 2013 og varð annar í fyrra. Einn af bestu utanvegahlaupurum landsins.
Ásta Björk Guðmundsdóttir er með efnilegri utanvegahlaupurum landsins. Hefur bætt sig gríðarlega á undanförum árum. Síðasta haust kláraði Ásta 100 km í UTLO 2019 á Ítalíu, kláraði 65 km í Trans Gran Canaria í vetur á Canary. Virkilega sterk.
Birgir Már Vigfússon, hefur bætt sig gríðarlega á undanförnum árum. Varð þriðji á Laugaveginum 2019 og bætti tímann sinn verulega. Þá fór hann undir þrjá tíma í maraþoni sama ár. Er mjög reyndur utanvegahlaupari og kláraði meðal annars TDS hlaupið í Chamoix 2019.
Brynja Baldursdóttir, mjög sterk og hefur æft vel í vetur. Verður spennandi að sjá hvað hún gerir í 100 km. Hún kláraði 100 km í UTLO á Ítalíu 2019.
Daníel Reynisson, landsliðsmaður í utanvegahlaupum 2017 og 2018. Gífurlega sterkur hlaupari sem verður spennandi að fylgjast með í Hengill Ultra.
Síðan má nefna fleiri t.d. Gunnar Júlíusson sem er mjög reyndur utanvegahlaupari, Björn Rúnar Lúðvíksson en hann er hokinn af reynslu í utanvegahlaupum bæði innanlands og erlendis. Tómas Beck, virkilega sterkur og í „bætingarham", Þorleifur Þorleifsson og Adam Komorowski sem fór 25 km í fyrra."
Það stefnir því greinilega í mikla hlaupaveislu í Hveragerði og nærsveitum fyrstu helgina í júní þegar Salomon Hengill Ultra fer fram. Það er um að gera fyrir hlaupara að tryggja sér skráningu fyrr en seinna enda ekki langt í að fullt verði í hlaupin. Þess má geta að fimm vegalengdir eru í boði, 5 km, 10 km, 25 km, 50 km og 100 km sem er lengsta utanvega hlaup á Íslandi. Í ár verður í fyrsta sinn boðið upp á 100 km liðakeppni sem er skipt upp þannig að fjórir keppendur hlaupa 25 km hringinn. Nánari upplýsingar á hlaup.is.