Heimsmet í maraþoni kvenna í Chicago maraþoninu

uppfært 13. október 2024

Nýtt heimsmet kvenna í maraþoni var sett í Chicago maraþoninu í dag sunnudaginn 13. október. Ruth Chepngetich frá Kenýa sló heimsmetið um tæpar tvær mínútur og sigraði á tímanum 2:09:56. Þessi þrítuga kona sló fyrra heimsmet 2:11:53, sem Tigst Assefa frá Eþíópíu setti í Berlínarmaraþoninu 2023. Sutume Asefa Kebede frá Eþíópíu varð önnur á tímanum 2:17:32.

Chepngetich varð fyrsta konan til að hlaupa undir 2:10 í maraþoninu. Hún vann einnig Chicago maraþonið 2021 og 2022 og endaði í öðru sæti í fyrra.

John Korir frá Kenýa sigraði í karlakeppninni á tímanum 2:02:44 og annar varð Huseydin Mohamed Esa frá Eþíópíu sem kom í mark á tímanum 2:04:39. Korir og Chepngetich hlupu til heiðurs Kelvin Kiptum frá Kenýa sem sló heimsmetið um 34 sekúndur og kom í mark á tímanum 2:00:35 í Chicago maraþoninu 2023, en hann lést í bílslysi nokkrum mánuðum eftir að hafa sett heimsmetið.

Skipuleggjendur Chicago maraþons héldu kyrrðarstund fyrir Kiptum fyrir hlaupið og buðu næstum 50.000 hlaupurum minningarlímmiða til að setja á rásnúmerið sitt.

Að venju tóku nokkrir Íslendingar þátt í hlaupinu og munu tímar þeirra birtast hér á hlaup.is, þegar þeir liggja fyrir.