Hlaupasamfélagið - Nýr hlaupahópur

uppfært 05. janúar 2024

Hlaupasamfélagið er nýr hlaupahópur byggður á eldri grunni og býður upp á fjölbreytta möguleika til æfinga. Undir einum hatti geta hlauparar fengið þjálfun í hinum ýmsum tegundum hlaupa eins og götuhlaupum, fjallahlaupum, utanvegahlaupum og brautarhlaupum.

Ertu að fara Laugaveginn eða annað utanvegahlaup í sumar? Ertu á leiðinni í 10 km hlaup, hálft maraþon eða heilt maraþon? Viltu prófa brautarhlaup? Allt þetta getur Hlaupasamfélagið boðið þér upp á þar sem þú getur mætt á mismunandi tegundir af æfingum og fengið hlaupaprógram aðlagað að þinni getu, þínum tíma og þínum markmiðum. Hlaupasamfélagið hentar því fólki á öllum aldri og af mismunandi getustigum en þetta er sextánda árið í röð sem Hlaupasamfélagið skipuleggur æfingar (áður Laugavegshópur Sigga P. og hlaup.is og æfingahópur Sigga P).

Hlaupasamfélaginu hefur bæst við liðsstyrkur, en Gréta Rut Bjarnadóttir hefur nú gengið til liðs við þá tvo þjálfara sem áður hafa verið með þjálfun götuhlaupara, utanvegahlaupara (Laugavegshópur Sigga P. og hlaup.is) og brautarhlaupara.

Hlaupasamfélagið A1 2023 12 05 19.01.35
Sigurður P. Sigmundsson, Gréta Rut Bjarnadóttir og Torfi H. Leifsson

Æfingar hjá Hlaupasamfélaginu hefjast 7. janúar kl. 9:30 í frjálsíþróttahúsinu í Kaplakrika (opin æfing sem allir geta mætt á án skuldbindinga) en þú getur byrjað hvenær sem er eftir það. Allar æfingar Hlaupasamfélagsins eru með þjálfara á staðnum.

Þjálfarar Hlaupasamfélagsins eru Sigurður P. Sigmundsson hlaupaþjálfari og fyrrum Íslandsmethafi í maraþoni (2:19:46), Gréta Rut Bjarnadóttir hlaupaþjálfari og Torfi H. Leifsson umsjónarmaður hlaup.is og hlaupaþjálfari.

Sérstakir fundir verða haldnir fyrir þátttakendur í stærri verkefnum eins og Laugavegshlaupið og Reykjavíkurmaraþon.

Skráning í Hlaupasamfélagið.

Upplýsingar um þjálfun

Í þjálfuninni og innifalið í æfingagjaldi (10.500 kr á mánuði) felst eftirfarandi:

  • Persónuleg áætlun en til 4-5 vikna í senn, sem tekur mið af markmiðum, fyrri hlaupareynslu, meiðslum, núverandi stöðu og fleiru.
  • Sérstakar styrktaræfingar fyrir hlaupara á æfingum sem nýtast fyrir öll hlaup.
  • Fyrir þá sem eru að undirbúa sig fyrir utanvegahlaup, þá verður farið í nokkrar sameiginlegar fjallaæfingar (Esjan, Hengillinn, Reykjadalur, Helgafell ofl.). Þær æfingar eru einnig opnar öðrum meðlimum Hlaupasamfélagsins
  • Fyrirlestrar þar sem farið verður yfir alla þætti í undirbúningi, æfingarnar, útbúnað og fleira.
  • Afsláttur af ýmsum hlaupavörum.
  • Aðgangur að þjálfurunum allan tímann í tölvupósti og/eða í síma.
  • Farið er yfir ýmsa þjálffræðilega þætti og frekari undirbúning á æfingum.

Skráningarupplýsingar

Vinsamlegast greiðið eins mánaðar æfingagjald 10.500 kr þegar þið skráið ykkur í hóp Hlaupasamfélagsins, inn á reikning 0544-26-35333 kt. 280257-3549. Þátttakendur á landsbyggðinni, sem ekki eiga möguleika á að sækja sameiginlegar æfingar, fá 20% afslátt.

Hafið samband við Sigurð P. Sigmundsson, siggip@hlaup.is, sími 864-6766, Torfa H. Leifsson, torfi@hlaup.is, sími 845-1600 eða Grétu Rut Bjarnadóttir, gretarut94@gmail.com, sími 861-9426 ef þið hafið spurningar. Skráið ykkur með því að smella á eftirfarandi tengil:

Skráning í Hlaupasamfélagið.

Umsagnir

Ég hef æft undir handleiðslu Sigga P. í nokkur ár núna og líkar mjög vel. Æfingar eru skemmtilegar og fjölbreyttar en þó alltaf fastir liðir, sem ég kann að meta og gerir manni kleift að meta framfarir. Hann tekur mið af þeim markmiðum sem maður setur sér og aðlagar prógrammið að hverjum og einum. Hann er einnig til taks og aðstoðar við raunhæfa markmiðasetningu ef svo ber undir. Utanumhald er gott og eftirfylgni til fyrirmyndar. Áhuginn, metnaðurinn og þekkingin leynir sér ekki í þjálfuninni. Margra ára reynsla hans sem afrekshlaupari og síðan hlaupaþjálfari býr að baki og hefur hann náð mjög góðum árangri með sína íþróttamenn. 

Hlaupasamfélagið þykir mér spennandi viðbót við íslenska hlaupa flóru, sem fer ört stækkandi. Ég þekki Sigga P., Torfa og Grétu Rut, sem standa að baki hópnum og öll eru þau reynslumiklir þjálfarar og íþróttamenn, hvert með sína styrkleika og þykir mér mjög spennandi að sjá þau sameina krafta sína í þágu okkar hlauparanna sem verðum svo heppin að fá að tilheyra Hlaupasamfélaginu. 
Íris Anna Skúladóttir

Ég er mjög ánægður með þjálfunina hjá Sigga og Torfa og hef ég verið hjá þeim í um þrjú ár. Æfingarnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar með skýran tilgang. Æfingaprógröm eru sérsniðin að hverjum og einum og er góð eftirfylgni með hvernig áætlun gengur hverju sinni.

Þeir hjálpa til við að setja upp markmið, allt eftir þeim árangri sem hverjum og einum langar að ná. Það er auðvelt að nálgast þjálfarana ef einhverjar spurningar vakna varðandi hlaupin, mataræði, æfingaálag eða annað sem skiptir máli. Ég mæli því með hlaupaþjálfun hjá Hlaupasamfélaginu fyrir alla sem vilja bæta hlaupagetu sína.
Þorsteinn Helgi Valsson

Meginkosturinn við æfingar Sigurðar og Torfa er hve vel þeim hefur tekist að laga kröfur til einstaklinga að getu þeirra. Þannig geta þeir sem mjög er tekið að hægjast á æft með efnilegustu hlaupurum landsins þótt aldursbilið sé hálf öld. Hinir gömlu njóta þess að sjá ungt fólk og miðaldra, sem til dæmis er að taka upp þráðinn við hlaupin að nýju eftir barneignir, blómstra og sýna ótrúlegar framfarir á nokkrum mánuðum. Unga fólkið getur hugsanlega lært eitthvað af hinum gömlu þegar hlaupið er á spjallhraða um fjöll.

Annar styrkur æfinganna er fjölbreytni. Æfingar fara ýmist fram innanhúss, á göngustígum eða utan vega. Þjálfarar eru einkar lagnir við að benda þátttakendum á hvar styrkur þeirra liggur og hvað þeir mættu bæta. Allt fer þetta fram á hófstilltan og uppbyggilegan hátt.
Sigurður Konráðsson, 70 ára (með tólf ára reynslu af æfingum hjá þeim félögum)

Ég hef tekið þátt í undirbúningi fyrir bæði fyrsta Laugaveginn og maraþonið mitt hjá Hlaupasamfélaginu (Sigga P). Náði miklum framförum og bætti tímann í öllum hlaupunum mínum og náði öllum markmiðunum mínum. Hlaupanámskeiðið gerði það að verkum að ég komst vel í gegnum Laugavegshlaupið sem er örugglega erfiðasta verkefnið sem ég hef tekist á við. Mér líkar sérstaklega vel persónulegu uppsetningu á hlaupaáætluninni. Mæli hiklaust með hlaupaþjálfun hjá Hlaupasamfélaginu fyrir byrjendur, lengra komna og afreksfólkið.
Alexander Eck