Hlaup.is fagnaði síðastliðinn sunnudag þann 13. ágúst, 27 ára afmæli sínu. Frá 1996 hefur hlaup.is haft það að markmiði að þjónusta íslenska hlaupasamfélagið með meiri og betri hætti en þekkst hefur hér á landi. Við kappkostum að veita íslenska hlaupasamfélaginu eins mikla þjónustu og afþreyingu og mögulegt er á hverjum tíma, allt okkar starf er meira og minna unnið í sjálfboðavinnu og allar tekjur vefsins fara í að byggja hann upp og gera hann betri fyrir hlaupasamfélagið.
Fyrir þremur árum síðan leit dagsins ljós ný útgáfa af hlaup.is, þar sem útliti vefsins og þjónustu var umbylt. Lykilþættir eins og hlaupadagskráin, myndbirtingar, birting úrslita og skráningarkerfi voru endurhannaðir með þarfir íslenska hlaupasamfélagsins í huga. Nú geta hlauparar einnig stofnað eigið svæði á hlaup.is þar sem þeir geta safnað saman myndum, úrslitum og skráningum á einn stað. Ennþá er stefnt að því að bæta vefinn, t.d. er í bígerð ný útgáfa af æfingadagbók (með tengingu hlaupaúra) svo eitthvað sé nefnt og skemmtileg tölfræðivinnsla í tengslum við Mín úrslit, ásamt ýmsu öðru sem er í farvatninu. Flutningur á úrslitum fyrri ára yfir á nýja vefinn hefur tafist vegna skorts á fjármagni til að greiða fyrir vinnu við þann þátt, en við vonumst eftir því að úrslit almenningshlaupa síðustu 35 ára verði aðgengileg hér á nýja hlaup.is, eins og á gamla hlaup.is.
Öll vinnan við nýja vefinn og þær viðbótarþjónustur sem ætlunin er að bæta við er mjög kostnaðarsöm og því viljum við minna á að hægt er að styrkja hlaup.is með lágum mánaðarlegum greiðslum og kaupa myndir sem hlaup.is tekur í hlaupunum.
Einnig viljum við minna íslenska hlaupasamfélagið á að beina viðskiptum sínum til hlaup.is t.d. með myndakaupum og hlauphaldara á að nýta sér skráningarþjónustu hlaup.is. Með því að versla við hlaup.is þá styður þú við betri þjónustu við íslenska hlaupasamfélagið. Einnig má bæta við að hlaup.is er frábær auglýsingakostur fyrir fjölmörg fyrirtæki og við erum alltaf að leita að fyrirtækjum sem eru tilbúin að gerast bakhjarlar hlaup.is.
Þið getið alltaf haft samband á hlaup@hlaup.is.