Í dag sunnudaginn 26. september 2021 fór Berlínarmaraþonið fram. Hlaupið er eitt af hlaupunum í Abbott World Marathon Majors seríunni og talið að sé með eina af hröðustu brautum í heimi. Hlaupið er því vinsælt meðal hlaupara sem vilja ná sínum besta tíma og hlaupið í ár var engin undantekning, en tæplega 25 þúsund hlauparar tóku þátt og þar af voru 26 Íslendingar.
Af þeim stóðu sig sérstaklega vel Stefán Guðmundsson sem hljóp á tímanum 2:34:36 og varð annar í aldursflokknum 50-54 ára og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttur frá UFA á Akureyri sem hljóp á tímanum 2:53:19 og varð í 15 sæti í aldursflokknum 30-34 ára. Þess má geta að Stefán var að hlaupa sitt 10 Berlínarmaraþon.
Hægt er að sjá aðra tíma Íslendinganna á hlaup.is undir Hlaup í útlöndum/Úrslit. Einnig er hægt að sjá stöðuna á ársbesta listanum undir Hlaup á Íslandi/Ársbesta.
Sigurvegarar hlaupsins voru að þessu sinni hlauparar frá Eþíópíu, Guye Adola í karlaflokki og Gotytom Gebreslase í kvennaflokki sem var að hlaupa sitt fyrsta hlaup. Hinn þrítugi Adola, sem var í öðru sæti í Berlín fyrir fjórum árum, hljóp núna á 2:05:45 sem dugði til sigurs. Bethwel Yegon frá Kenýa náði öðru sæti á 2:06:14 en þetta var ekki dagur Kenenisa Bekele sem ætlaði að reyna að slá heimsmetið. Eþíópíska stórstjarnan stefndi á að slá heimsmet Elíud Kipchoge frá Kenýa, sem er 2:01:39 og sett í Berlín árið 2018, og bar fyrri hluti hlaupsins þess merki, en hann gaf eftir og varð síðan að sætta sig við þriðja sætið á tímanum 2:06:47.
Þar sem hitastig var yfir 20 °C í seinni hluta hlaupsins og Bekele var farinn að gefa eftir, þá dofnaði fljótt vonin um nýtt heimsmet í karlaflokki. Engu að síður hljóp Gotytom Gebreslase frábæra frumraun í maraþoni og kom þessi 26 ára gamla kona öllum á óvart með því að hlaupa á þriðja besta tíma ársins 2:20:09. Hiwot Gebrekidan varð í öðru sæti á 2:21:23 og Helen Tola varð þriðja Eþíópska konan á verðlaunapall á tímanum 2:23:05.