Í samvinnu við Sportís og HOKA stendur stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins í tólfta skiptið, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum.
Að þessu sinni hafa 5 konur og 5 karlar verið valdir af fulltrúum hlaup.is, sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek á síðasta ári.
Allir sem kjósa fara í pott og geta unnið HOKA hlaupaskó frá Sportís. Hægt verður að kjósa til miðnættis þriðjudaginn 2. febrúar.
Til að kjósa verður þú að skrá þig inn á Mínar síður á hlaup.is (sjá innskráningu efst til hægri á þessari síðu).
Hér fyrir neðan eru tilnefningar í stafrófsröð.
Karlar
Arnar Pétursson (29 ára) byrjaði árið vel og bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni er hann hljóp á 1:06:08 klst í Haag 8. mars en viku áður hafði hann náð sínum besta árangri í 10 km götuhlaupi (30:47) í Leverkusen sem hann bætti síðan í 30:24 í Boost hlaupinu í lok júlí. Arnar varð Íslandsmeistari í 5 km götuhlaupi karla er hann hljóp á 15:18 mín í Víðavangshlaupi ÍR sem fram fór í september í þetta skiptið.
Hlynur Andrésson (27 ára) stórbætti Íslandsmet Kára Steins Karlssonar (1:04:55) í hálfmaraþoni er hann kom í mark á 1:02:47 klst á Heimsmeistaramótinu er fram fór Gdynia í Póllandi 17. október. Mánuði áður eða 19. september setti hann Íslandsmet í 10.000 m brautarhlaupi 28:55,47 mín á hollenska meistaramótinu í Leiden en fyrra Íslandsmet hans var 29:20,92 mín frá árinu 2018.
Hlynur Guðmundsson (48 ára) byrjaði seint að æfa hlaup en hefur verið að bæta árangur sinn jafnt og þétt undanfarin ár. Náði sínum langbesta árangri í maraþonhlaupi er hann hljóp á 2:40:16 klst í Castellon á Spáni 16. febrúar og varð fyrstur í aldursflokki 45-49 ára. Þá varð Hlynur í 12.sæti í Laugavegshlaupinu á 4:58:53 klst.
Maxime Sauvageon (35 ára) er Frakki sem hefur búið á Íslandi undanfarin ár. Hann hefur verið ötull við að taka þátt í keppnishlaupum og bætt sig jafnt og þétt og barðist um verðlaunasæti í mörgum hlaupum á síðasta ári. Varð annar í Laugavegshlaupinu á 4:33:45 klst. Sigraði Snæfellsjökulshlaupið (22 km), varð annar í Mýrdalshlaupinu (21 km) á 1:50:17 og fjórði í Hengill Ultra (25 km) á 1:45:50 klst.
Stefán Guðmundsson (50 ára) náði sínum besta tíma í 10 km götuhlaupi er hann hljóp á 33:25 mín í Danmörku í byrjun mars en hann hefur verið búsettur þar í landi um langt árabil. Þetta er Íslandsmet í flokki karla 45-49 ára en Stefán varð fimmtugur síðar á árinu. Stefán setti síðan Íslandsmet í 5 km hlaupi í september, 16:22 í flokki karla 50-54 ára en hann varð fimmtugur í maí.
Konur
Andrea Kolbeinsdóttir (21 árs) bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni um tvær mínútur er hún kom í mark á 1:17:52 klst á Heimsmeistaramótinu er fram fór í Gdynia í Póllandi 17. október. Tími hennar er sá næstbesti á afrekaskrá íslenskra kvenna í hálfmaraþoni frá upphafi. Einungis Martha Ernstsdóttir hefur hlaupið hraðar.
Anna Berglind Pálmadóttir (41 árs) átti gott ár. Náði sínum besta tíma í hálfmaraþoni 1:22:44 klst í Haag 8. mars. Fylgdi því svo eftir með því að verða önnur kvenna í Laugavegshlaupinu 18. júlí á 5:05:53 klst sem er hennar besti tími á vegalengdinni.
Elín Edda Sigurðardóttir (31 árs) byrjaði árið vel og bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþonhlaupi er hún hljóp á 1:18:01 klst í Barcelona í lok febrúar. Þetta hlaup var liður í undirbúningi fyrir maraþon sem hún ætlaði að taka þátt í seinna um vorið en ekkert varð af. Elín Edda varð Íslandsmeistari í 5 km kvenna er hún hljóp á 18:12 mín í Víðavangshlaupi ÍR sem fram fór í september í þetta skiptið.
Guðlaug Edda Hannesdóttir (26 ára) sem er besta þríþrautarkona landsins og stefnir á Ólympíuleikana í Tokyó brá sér óvænt í Íslandsmótið í 10 km götuhlaupi kvenna er fram fór á Akureyri 2. júlí. Guðlaug Edda sigraði á 34:57 mín sem er næstbesti árangur íslenskrar konu á þeirri vegalengd frá upphafi. Guðlaug æfði og keppti reyndar mikið í millivegalengdum á árunum 2013-2014 áður en hún sneri sér að þríþrautinni.
Rannveig Oddsdóttir (47 ára) setti nýtt kvennamet í Laugavegshlaupinu er fram fór 18. júlí. Hún kom fyrst kvenna í mark á 5:00:29 klst. og bætti jafnframt sinn fyrri tíma frá árinu 2018 um 16 mín.