Kjóstu langhlaupara ársins 2020 hjá hlaup.is

uppfært 13. febrúar 2021

Í samvinnu við Sportís og HOKA stendur stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins í tólfta skiptið, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum.

Að þessu sinni hafa 5 konur og 5 karlar verið valdir af fulltrúum hlaup.is, sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek á síðasta ári.

Allir sem kjósa fara í pott og geta unnið HOKA hlaupaskó frá Sportís. Hægt verður að kjósa til miðnættis þriðjudaginn 2. febrúar.

Til að kjósa verður þú að skrá þig inn á Mínar síður á hlaup.is (sjá innskráningu efst til hægri á þessari síðu).

Hér fyrir neðan eru tilnefningar í stafrófsröð.

Karlar

Arnar Pétursson (29 ára) byrjaði árið vel og bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni er hann hljóp á  1:06:08 klst í Haag 8. mars en viku áður hafði hann náð sínum besta árangri í 10 km götuhlaupi (30:47) í Leverkusen sem hann bætti síðan í 30:24 í Boost hlaupinu í lok júlí. Arnar varð Íslandsmeistari í 5 km götuhlaupi karla er hann hljóp á 15:18 mín í Víðavangshlaupi ÍR sem fram fór í september í þetta skiptið.

Arnar Péturs FRÍ mynd
Arnar Pétursson

Hlynur Andrésson  (27 ára) stórbætti Íslandsmet Kára Steins Karlssonar (1:04:55) í hálfmaraþoni er hann kom í mark á 1:02:47 klst á Heimsmeistaramótinu er fram fór Gdynia í Póllandi 17. október. Mánuði áður eða 19. september setti hann Íslandsmet í 10.000 m brautarhlaupi 28:55,47 mín á hollenska meistaramótinu í Leiden en fyrra Íslandsmet hans var 29:20,92 mín frá árinu 2018.

Hlynur Andrésson VES2020 390
Hlynur Andrésson

Hlynur Guðmundsson (48 ára) byrjaði seint að æfa hlaup en hefur verið að bæta árangur sinn jafnt og þétt undanfarin ár. Náði sínum langbesta árangri í maraþonhlaupi er hann hljóp á 2:40:16 klst í Castellon á Spáni 16. febrúar og varð fyrstur í aldursflokki 45-49 ára. Þá varð Hlynur í 12.sæti í Laugavegshlaupinu á 4:58:53 klst.

Hlynur Guðmundsson LAU2020 2348
Hlynur Guðmundsson

Maxime Sauvageon (35 ára) er Frakki sem hefur búið á Íslandi undanfarin ár. Hann hefur verið ötull við að taka þátt í keppnishlaupum og bætt sig jafnt og þétt og barðist um verðlaunasæti í mörgum hlaupum á síðasta ári. Varð annar í Laugavegshlaupinu á 4:33:45 klst. Sigraði Snæfellsjökulshlaupið (22 km), varð annar í Mýrdalshlaupinu (21 km) á 1:50:17 og fjórði í Hengill Ultra (25 km) á 1:45:50 klst.

Maxime Sauvageon LAU2020 2307
Maxime Sauvageon

Stefán Guðmundsson (50 ára) náði sínum besta tíma í 10 km götuhlaupi er hann hljóp á 33:25 mín í Danmörku í byrjun mars en hann hefur verið búsettur þar í landi um langt árabil. Þetta er Íslandsmet í flokki karla 45-49 ára en Stefán varð fimmtugur síðar á árinu. Stefán setti síðan Íslandsmet í 5 km hlaupi í september, 16:22 í flokki karla 50-54 ára en hann varð fimmtugur í maí.

Stefán Guðmundsson 2
Stefán Guðmundsson

Konur

Andrea Kolbeinsdóttir (21 árs) bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni um tvær mínútur er hún kom í mark á 1:17:52 klst á Heimsmeistaramótinu er fram fór í Gdynia í Póllandi 17. október. Tími hennar er sá næstbesti á afrekaskrá íslenskra kvenna í hálfmaraþoni frá upphafi. Einungis Martha Ernstsdóttir hefur hlaupið hraðar.

Andrea Kolbeinsdóttir HVI2020 0132
Andrea Kolbeindóttir

Anna Berglind Pálmadóttir (41 árs) átti gott ár. Náði sínum besta tíma í hálfmaraþoni 1:22:44 klst í Haag 8. mars. Fylgdi því svo eftir með því að verða önnur kvenna í Laugavegshlaupinu 18. júlí á 5:05:53 klst sem er hennar besti tími á vegalengdinni.

Anna Berglind LAU2020 2413
Anna Berglind Pálmadóttir

Elín Edda Sigurðardóttir (31 árs) byrjaði árið vel og bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþonhlaupi er hún hljóp á 1:18:01 klst í Barcelona í lok febrúar. Þetta hlaup var liður í undirbúningi fyrir maraþon sem hún ætlaði að taka þátt í seinna um vorið en ekkert varð af. Elín Edda varð Íslandsmeistari í 5 km kvenna er hún hljóp á 18:12 mín í Víðavangshlaupi ÍR sem fram fór í september í þetta skiptið.

Elín EddaHVI2020 0153
Elín Edda Sigurðardóttir

Guðlaug Edda Hannesdóttir (26 ára) sem er besta þríþrautarkona landsins og stefnir á Ólympíuleikana í Tokyó brá sér óvænt í Íslandsmótið í 10 km götuhlaupi kvenna er fram fór á Akureyri 2. júlí. Guðlaug Edda sigraði á 34:57 mín sem er næstbesti árangur íslenskrar konu á þeirri vegalengd frá upphafi. Guðlaug æfði og keppti reyndar mikið í millivegalengdum á árunum 2013-2014 áður en hún sneri sér að þríþrautinni.

Akureyrarhlaupið PEDR0088 Guðlaug Edda
Guðlaug Edda Hannesdóttir

Rannveig Oddsdóttir  (47 ára) setti nýtt kvennamet í Laugavegshlaupinu er fram fór 18. júlí. Hún kom fyrst kvenna í mark á 5:00:29 klst. og bætti jafnframt sinn fyrri tíma frá árinu 2018 um 16 mín.

Rannveig Oddsdóttir LAU2020 2392
Rannveig Oddsdóttir