Martha Ernstdóttir á heimsmeistaramóti

birt 09. apríl 2004

Martha Ernstsdóttir ÍR varð í 50. sæti í heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni sem fram fór í Uster í Sviss á sunnudaginn en 101 hlaupari hóf keppni og 93 luku því. Martha hljóp á 74:58 mín sem er rúmum 2 mín. frá besta tíma hennar í ár en Íslandsmet hennar er 71:40 mín. Þetta er fyrsta hlaup Mörthu erlendis eftir barnseignahlé og ljóst að hún hefur ekki enn náð fyrri styrk, en fyrir tveimur árum varð Martha í 15. sæti í HM í hálfmaraþonhlaupi í Mallorka.

Sigurvegari var Tegla Loroupe frá Kenýa eftir mikla keppni við Elenu Meyer frá Suður Afríku og fékk Tegla 40 þúsund dollara fyrir sigurinn. Martha hefur sett stefnuna á maraþonvegalengdina og næsta takmark er að setja Íslandsmet í maraþonhlaupi í stóru maraþonhlaupi næsta vor.