Skóbúnaður í Reykjavíkurmaraþoni 2013: Færri í Asics en samt langflestir

birt 18. janúar 2014

Asics hlaupaskór voru vinsælustu skórnir á meðal hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni síðasta ár. Niðurstöður könnunar á forsíðu hlaup.is leiddi í ljós að 40% þátttakenda hlupu í Asics skóm í síðasta Reykjavíkurmaraþoni. Það eru svosem ekki ný tíðindi að Asics eigi vinsælustu skóna en í sambærilegum könnunum hlaup.is frá árinu 2005 hafa skór frá Asics ávallt haft vinninginn þó aldrei hafi færri notast við þesskonar skó í Reykjavíkurmaraþoni frá því "mælingar" hlaup.is hófust árið 2005.Hlutfall Asics notenda síðan "mælingar" hófust 2005 og fram til ársins 2011 var á bilinu 47-53% en er í dag 40% eins og áður sagði. Þess ber að geta að þátttakendur í könnuninni sem fram fór misserin eftir Reykjavíkurmaraþonið á síðasta ári voru 2713.Næstvinsælastir skórnir í síðasta Reykjavíkurmaraþoni voru skórnir frá Brooks með 17% hlutdeild. Brooks merkið hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár og frá 2011 hafa þeir farið úr 5% í 17% hlutdeild. Nike skórnir virðast alltaf eiga upp á pallborðið hjá ákveðnum hópi en frá árinu 2005 hafa 13-17% lesenda reimað á sig Nike skó í Reykjavíkurmaraþoninu. Í ár notuðu 15% skóna frá Nike.

Aðrar tegundir ná ekki meira en 6% hlutdeild í ár, efstu tegundirnar í þeim hópi eru Adidas, Saucony og New Balance. Einhverra hluta vegna hefur dregið úr vinsældum New Balance skónna en í ár var hlutdeild þeirra 5% samanborið við 14% árið 2012 og heil 19% 2009.

Eins og áður segir hefur hlaup.is gert kannanir á skóbúnaði þátttakenda í Reykjavíkurmaraþoni hvers árs síðan 2005. Niðurstöðurnar ásamt öðrum könnunum má finna hér.