birt 24. febrúar 2007

Það er sérstök tilfinning að koma úr kulda og trekki og hlaupa um í stuttbuxum og hlýrabol. Hlupum í gærmorgun í tæpar 50 mínútur. Það tekur mig gjarnan nokkrar mínútur að komast í gang – losna við helsta stirðleikann og komast í skrefin. Þrátt fyrir að ég sé frekar þungur á mér þessa dagana þá líður mér eins og kálfi að vori í stuttbuxunum, ég meira að segja setti á sprett upp dágóða brekku í miðju hlaupi sem er reyndar ekki skynsamlegt að öllu jöfnu. Það eru annars margir að skokka á stígnum meðfram ströndinni á Maspolomas þar sem við búum. Jörundur Guðmundsson, hlaupari og prentari, var búinn að mæla vegalengdir og gaf mér nokkur “tips” um hlaupaleiðir þegar ég hitti hann fyrir jól. Þetta er mikið breytt frá því ég var hér síðast – búið að byggja mikið á undanförnum árum. Veðrið er í góðu lagi, um 17-18°C á morgnana og fer svo í allt að 26°C um miðjan dag.

Golfið í fyrradag (23. feb) á Campo Golf var nokkuð köflótt en þó nokkuð margir ljósir punktar. Nógu margir til þess að ég ætla að halda þessu áfram. Golf er auðvitað endalaus vandræði. Þeir reyndari kalla klúðrið verkefni sem þurfi að leysa. Þeir segjast flestir vera komnir yfir tuðstigið. Sennilega er ég nú að komast yfir miðjuna á þessum kvarða – þ.e. fer brátt að komast yfir bölvið og ná þessari stóísku ró og yfirvegun sem reyndu spilarnir hafa.

Ég var mættur um klukkutíma fyrir teigtíma. Gerði teygjuæfingar, sló úr einni fötu og æfði púttin. Eins gott því grínin eru ansi hröð hér á Kanarí og sá ég fljótt að ég yrði að pútta mjög laust. Með mér í holli voru þýsk eldri hjón og Svíi um fertugt. Þau voru öll á golfbíl sem ég afþakkaði – hugsaði sem svo að einhverja hreyfingu þyrfti ég að fá út úr þessu. Fyrsta teighöggið finnst mér alltaf óþægilegt enda oft eitthvað um fólk sem er að horfa á. Í þetta sinn tókst það vel og boltinn fór rúmlega 200 metra og meira að segja þráðbeint til tilbreytingar. Einhver kallaði “super” og fann ég fyrir aukinni pressu. Fékk skolla (einn yfir) á fjórum holum af fimm fyrstu, sú fimmta var tvö yfir. Var farinn að halda að þetta myndi nú bara smella þokkalega saman þrátt fyrir æfingaleysið. Skrítið hvað maður er alltaf bjartsýnn í þessu golfi. Auðvitað beið eitthvað miður gott handan við hornið. Á sjöttu og áttundu holu fékk ég tvær ferlegar sprengjur, 10 og 9. Sló út af, lenti svo í sandi, inn á milli trjáa og byrjaði að pirra mig. Fyrri níu voru á 56 höggum og það var frekar þungt í mér þrátt fyrir að vera í stuttbuxum. Tíunda brautin var ekki til að bæta úr, fékk 9 eftir að upphafshöggið hafði lent bakvið tré í útjaðri brautarinnar. Þá var eins og kæmi yfir mig ró og mátulegt kæruleysi. Fór næstu tvær á pari, og 15. og 16. einnig á pari. Á sautjándu fékk ég víti þar sem boltinn festist í 4 m hæð uppi í pálmatré sem ég var að reyna að lyfta yfir. Þarna tók ég auðvitað ranga ákvörðun – hélt eitt augnablik að ég gæti bjargað mér eins og Ballesteros var þekktur fyrir. Á átjándu fékk ég skolla eftir að hafa sett niður 13 m pútt. Alltaf gaman að enda vel en heildarskorið 104 er kannski ekki til frásagnar. Get þó huggað mig við ljósu punktana og þá helst upphafshöggin sem voru mörg óvenju bein og flest á bilinu 220-250 m að þessu sinni. Það er lengra en ég næ venjulega á Hvaleyrinni. Hins vegar var stutta spilið oft út og suður. Núna á eftir (25. feb) er ég að fara að spila annan völl (Meloneras) sem er allt öðruvísi, mjög hæðóttur. Verður væntanlega erfiðari.

Sá á netinu að FRÍ hefur valið Björn Margeirsson og Kára Stein Karlsson til þátttöku á EM innanhúss. Spennandi að sjá hvernig þeim reiðir af þar sem þeir eru báðir í fantaformi um þessar mundir. Sérstaklega nefni ég Kára Stein sem setti glæsilegt Íslandsmet í 3.000 m hlaupi (8:10,94) á dögunum. Sá árangur gefur vonir um að við munum loks eignast langhlaupara á Evrópumælikvarða. Kári Steinn er mjög ungur og á sannarlega framtíðina fyrir sér. Ég held einnig að tími Björns sé að koma, en hann hefur verið að þétta styrkleika sína undanfarin ár og springur vonandi út á þessu ári. Hefur alla burði til að eignast Íslandsmetin í 800 og 1.500 m innan- og utanhúss.