Annáll 2 - Kári Steinn á stöðugri uppleið

birt 24. desember 2007

Kári Steinn Karlsson (1986) bætti sinni fyrri árangur verulega. Hann byrjaði árið með glæsibrag er hann setti glæsilegt Íslandsmet í 3.000 m innanhúss (8:10,94) á Reykjavíkurleikunum er fram fóru í Laugardalshöll 21. janúar. Því miður var ég ekki á staðnum en sá hlaupið í sjónvarpi. Gaman var að sjá keppnisskapið í Kára sem átti í höggi við góðan danskan hlaupara og sýndi mikla baráttu fram á síðasta metra. Það var einmitt það sem þurfti til að komast undir gott met Jóns Diðrikssonar. Kári fylgdi þessum árangri eftir með því að setja Íslandsmet ungkarla (flokkur 21-22 ára) utanhúss í 3.000 m (8:16,82), í 5.000 m (14:20,70) og í 10.000 m (30:30,06). Í þessum þremur hlaupagreinum er Kári Steinn nú í öðru sæti á afrekaskrá Íslendinga frá upphafi og þess skammt að bíða að hann slái þessi met og fleiri til.

Kári Steinn stundar nú nám í háskólanum í Berkeley í Bandaríkjunum og hef ég fregnað að æfingar gangi vel. Að mínu mati var það nauðsynlegt hjá honum að halda utan til að fá tækifæri til að æfa og keppa með sér sterkari hlaupurum, læra af þeim og þroskast sem hlaupari.

Þetta hafa margir íslenskir frjálsíþróttamenn gert áður og haft mikið gagn af. Þó eru á því undantekningar þar sem kröfur einstakra háskóla og þjálfara, sérstaklega í Bandaríkjunum, hafa reynst íþróttamönnum ofviða. Ekki er auðvelt að halda sér í keppnisformi á innanhússtímabili og utanhússtímabili snemmvors og ætla sér síðan að vera einnig í formi á evrópska keppnistímabilinu sem lýkur ekki fyrr en í ágústlok. Nú veit ég ekki hvernig aðstæður Kára Steins eru, en vonandi nær hann að samræma þessar kröfur á þann veg að þróun hans sem hlaupara verði sem best. Staðreyndin er sú að eftir því sem vegur íþróttamanns eykst, því meira aukast kröfurnar og athygli fjölmiðla. Þá þarf íþróttamaðurinn stundum að hafa sterk bein, að vera nægilega sjálfselskur og halda ró sinni og áætlun. Kári Steinn er heilsteyptur ungur maður sem ég hef mikla trú á að finni réttu leiðina að sínum markmiðum. Hann á góðan möguleika á að brjóta blað í sögu langhlaupa á Íslandi, verða fyrsti hlauparinn sem fer undir 8:00 mín., 14:00 mín. og 30:00 mín. og síðar undir 29:00 mín. Við hlaupaáhugafólk bíðum spennt eftir framhaldinu, en vitum líka að hlaupabrautin er ekki alltaf beinn og breiður vegur.

Kári Steinn hefur hins vegar tímann fyrir sér og er manna líklegastur til þess að sigrast á hugsanlegu mótlæti og ná þeim árangri sem hann hefur hæfileika til.