Annáll 3 - Lok Krabbameinshlaupsins

birt 31. desember 2007

Hlaupaviðburðir koma og fara. Það er eðlilegt að sum hlaup renni sitt skeið á enda á sama tíma og stofnað er til nýrra hlaupaviðburða. Nýjungar eru nauðsynlegar til að vekja og viðhalda áhuga þátttakenda. Einn þeirra hlaupaviðburða sem lokið hefur göngu sinni er Heilsuhlaup Krabbameinsfélags Íslands. Það átti að fara fram í 20. skiptið í byrjun júní síðastliðinn. Nokkrum vikum áður ákvað stjórn Krabbameinsfélagsins að hætta við framvæmd hlaupsins. Sá sem þetta skrifar hefur verið hlaupstjóri þessa hlaups vel á annan áratug. Undirbúningur Krabbameinshlaupsins hefur verið fastur liður hjá mér á vorin. Yfirleitt hefur það verið þannig að Jónas Ragnarsson, starfsmaður félagsins, hefur haft samband við mig í apríl eða í byrjun maí. Framkvæmdarhópurinn hefur síðan hist vikulega fram að hlaupi, farið yfir stöðuna og skipt með sér verkefnum. Framan af var fyrsti framkvæmdarfundur stundum mun fyrr, jafnvel í janúar eða febrúar, en þess var ekki þörf síðustu árin enda hópurinn nánast sá sami ár frá ári og vel samstilltur og reynslumikill.

Krabbameinshlaupið hófst og endaði jafnan fyrir framan húsnæði félagsins í Skógarhlíðinni, fyrir utan nokkur ár um miðjan tíunda áratuginn er flytja þurfti hlaupið inn í Laugardal sökum þess hversu þátttakan var orðin mikil. Mig minnir að mesti fjöldinn hafi verið um 1.300 manns árið 1993 eða 1994, en þá stjórnaði hlaupinu Ólafur Þorsteinsson, þáverandi starfsmaður Krabbameinsfélagsins og upphafsmaður hlaupsins. Frá upphafi var lögð áhersla á að halda Heilsuhlaupið sem víðast á landinu. Þegar litið er til baka má sjá að hlaupið fór fram á flestum þéttbýlisstöðum á landinu einhverju sinni, varð t.a.m. stórt á Akureyri á árunum í kringum árið 1990 - um 500 þátttakendur þegar mest var. Þegar leið á tíunda áratuginn fækkaði töluvert þátttakendum í Krabbameinshlaupinu, bæði vegna samkeppni við önnur hlaup og minnkandi þátttöku almennt í almenningshlaupum. Á árunum 2001-2004 var þátttakan í hlaupinu í Skógarhlíðinni á bilinu 250-300 manns, fór síðan upp í 350 árið 2005 en niður í 230 árið 2006. Þrátt fyrir minnkandi þátttöku átti hlaupið alltaf fastan kjarna áhangenda.

Margs er að minnast frá þessum árum. Ávallt var lögð áhersla á að standa vel að framkvæmd hlaupsins og hafa tilboðið til hlauparanna sem best. Þannig fengu allir þátttökuverðlaun, T-bol, auk þess sem vegleg útdráttarverðlaun voru í boði svo og drykkir. Með góðum stuðningi Reykjavíkurborgar tókst að hafa umgjörð hlaupsins með ágætum s.s. marksvæði, tímaklukka, sviðsvagn og hljóðkerfi. Fyrir þessu þurfti þó alltaf að hafa og stundum fékkst ekki allt sem beðið var um. Í seinni tíð kom hljóðkerfið sem dæmi oftast frá Félagsmiðsstöð Garðabæjar. Margt var rætt á fundum framkvæmdanefndarinnar og margt prófað. Þannig breyttist hönnun á bolum og verðlaunapeningum reglulega. Hlaupavegalendir og hlaupaleiðirnar tóku jafnframt breytingum til að koma sem best til móts við þátttakendur. Einhverju sinni fengum við Birgittu Haukdal og hljómsveit og höfðum gaman af því að hún varð landsfræg seinna um sumarið. Samstarf við fjölmiðla var með ágætum um kynningu á hlaupinu og minnist ég þess að hafa farið í mörg útvarps- og sjónvarpsviðtöl í gegnum árin. Stundum með fegurðardrottningum, sem oft ræstu hlaupið. Ég minnist sérstaklega Ragnheiðar Steinunnar, nú fjölmiðakonu, og Unnar Birnu sem báðar vildu endilega fá að gera meira og aðstoðuðu við verðlaunaafhendingar. Ráðherrar og borgarstjórar komu einnig og handfjötluðu startbyssuna. Allt gekk slysalaust fyrir sig, reyndar varð einn ráðherrann að veifa vasaklút þar sem byssan virkaði ekki. Ánægjulegt er að allir sem leitað var til voru tilbúnir að ljá hlaupinu lið ef þeir gátu.

Eins og gengur í framkvæmd hlaupaviðburða ganga hlutir ekki alltaf fyrir sig eins og ætlast var til og man ég eftir að hafa lent í miklu stressi á hlaupdegi í einhver skipti við að bjarga hlutum. Sem dæmi þá uppgötvaði ég eitt sinn að ég hafði gleymt að ná í verðlaunagripina. Það tókst að hafa upp á eiganda verslunarinnar sem bjó upp í Mosfellsbæ og var hann til í að koma í verslun sína í Reykjavík í einum grænum og verðlaunin komu í hús skömmu fyrir afhendingu.

Samstarfsfólk mitt hjá Krabbameinsfélaginu við framkvæmd hlaupsins var alveg einstakt og nefni ég sérstaklega Jónas, Guðlaugu og Steinunni. Þessu fólki og öðru starfsfólki félagsins vil ég þakka fyrir sérlega ánægjulegt og gott samstarf í gegnum árin. Markmið þeirra og félagsins var aldrei að hafa tekjur af hlaupinu, heldur að leggja sitt af mörkum til að vekja almenning til umhugsunar um hreyfingu og heilsu. Það tókst þeim enda var Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins eitt af fyrstu stóru almenningshlaupunum hér á landi.