birt 24. september 2005

Jæja, þá er komið að því. Við Valgerður förum í fyrramálið, föstudag, til Berlínar. Svo er það maraþonið á sunnudag. Það fer ekki hjá því að spennan sé eitthvað að aukast. Ég var úti að borða á vegum vinnunnar í gærkvöldi og sessunautur minn var með kvef. Í dag var ég á fundi og sá sem sat við hliðina á mér var líka með kvef. Sennilega tekur maður meira eftir svona löguðu þegar maraþon er framundan. Undirbúningur hefur annars gengið vel og Valgerður er í sínu besta formi. Reyndar var hún hálfslöpp í dag og kom snemma heim úr vinnunni. Vonandi er það bara stress. Svo er það spurningin hversu langt formið dugar því veðrið er happdrætti. Spáin segir að hlaupið geti endað í 20-22°C. Þá er bara að taka því, drekka meira og vona það besta. Það verður nokkuð skrítið fyrir mig að koma til Berlínar eftir 20 ár, en hlaup mitt haustið 1985 hófst undir Múrnum og fór einungis um vesturhluta borgarinnar. Heilt járntjald fallið síðan. Á þessum tíma vann ég í sjávarútvegsráðuneytinu á öðru ári kvótans.

Aðdragandinn að þátttöku minni í Berlínarmaraþoni 25. sept. 1985 var nokkuð sérstakur. FRÍ fékk boð frá hlauphöldurunum vorið 1984 um að senda þrjá keppendur ásamt fararstjóra í hlaupið 1984. Þetta þótti flott og við þökkuðum gott boð og sendum þeim upplýsingar. Eftir langa bið kom loks svar frá þeim þess efnis að boðið hefði verið á misskilningi byggt. Við kvörtuðum yfir þessu og varð úr að þeir ákváðu að bjóða besta hlauparanum árið eftir. Til að nýta formið fórum við Steinar Friðgeirsson í Dublin maraþon í lok október og lentum þar í erfiðri hlaupaleið og roki. Í dagbókinni minni frá þessum tíma má sjá að æfingar fara að ganga vel frá febrúar eftir meiðsli í janúar. Frá þeim tíma allt árið 1985 fram að Berlín var ég laus við meiðsli og gengu æfingar yfirleitt vel. Hins vegar má sjá að ég var allt of mikið að taka hraðar brautaræfingar, enda meiri félagsskap að fá þar heldur en í æfingum fyrir maraþonhlaup. Þann 10. júlí hleyp ég t.d. 1.500 m á 3:58,74 mín. og daginn eftir 5.000 m á 14:40,05 mín. á mótum í Svíþjóð. Í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst hljóp ég hálft á 1:08:14 og næ eftir það fjórum góðum vikum (121 km-140-156-110-57).

Ég tók maraþonkúrinn. Eftir 19 km hlaup á sunnudegi, viku áður, fór ég í þriggja daga kolvetnissvelti þar sem ég nærðist svo til eingöngu á mjólkurvörum, kjöti og fiski. Á miðvikudegi var ég orðinn ansi slappur og drattaðist upp stigann í vinnunni. Í dagbókinni segir: Byrjaði að borða kl. 12: weetabix, hrökkbrauð, gróft brauð, döðlur, eplasafi, banani. kl. 18: spagetti, brúnar makkarónur, brauð, aðeins af döðlum, eplasafi. kl. 20: saltfiskur og mikið af kartöflum. kl. 22:30 brún kaka og tvær maltöl. Ég gæti aldrei torgað þessu öllu í dag, en ég hef greinilega verið orðinn svangur. Teórían segir að ef þessi maraþon diet tekst vel eigi maður að fá 10-15% aukaforða af kolvetni. Hins vegar eru margar hættur á ferð s.s. hugsanleg óþægindi í maga og minnkað viðnám við kvefi og þess háttar. Ég hafði gert tilraunir á þessu áður og tekist ágætlega. Ég og Magnús Haraldsson aðstoðarmaður minn, sem þá var einn besti 800 m hlaupari landsins, fórum út á fimmtudegi þannig að tíminn var nægur til að venjast aðstæðum. Talandi um áhyggjur þá stendur í dagbókinni að hálskirtlarnir öðrum megin hafi verið orðnir nokkuð bólgnir á fimmtudegi. Þegar ég var í miklu álagi gat ég lent í slíku og gróf stundum í þeim sem var óskemmtilegt. Sem betur fer hef ég ekki fundið fyrir þessu í 15 ár eða svo. Man að þetta var stressandi því ég vissi ekki hvaða áhrif þetta gæti haft. Svo fór reyndar að þetta hjaðnaði fyrir hlaupið og gleymdist. Seinustu dagana fyrir hlaupið hélt ég áfram að hlaða kolvetninu og má sjá að ég borðaði spagetti, pizzu, brauð, eplakökur, musli og drakk mikið af ávaxtasafa. Það er merkilegt eftir á séð að síðustu þrjú kvöldin drakk ég einn bjór á kvöldi. Þetta var í tísku hjá mörgum bestu maraþonhlaupurunum í þá daga. Sagt var að þetta myndi róa magann. Sennilega skiptir þetta engu máli en stundum gott að trúa á eitthvað. Kvöldið fyrir hlaupið segir: Kl. 21: snúðkaka, greinilega orðinn þemdur. Já, það má passa sig á því að borða ekki of mikið. Man að maður var stundum nokkuð þungur í gang í sumum maraþonhlaupunum, gat jafnvel tekið allt að 15 km þar til að manni fór að líða betur.

Klukkan 09:00 hófst hlaupið í fínu veðri, hálfskýjað og 12°C hiti. Minnir að hann hafi farið mest í 15°C þannig að aðstæður voru mjög viðunandi. Eins og ávallt þá notaði ég fyrstu 3-4 km til að kanna hvernig ástandið væri á mér. Þá reynir maður að fara ekki of hratt út en hafa samt auga með þeim hópi sem maður telur sig hafa gagn af að fylgja. Ég reyndi ávallt að sigta út 5-6 manna hóp sem passaði fram í hlaupið. Yfirleitt finnur maður þennan hóp eftir 8-10 km þegar hlaupið jafnast og menn fara í “cruse control” gírinn. Fyrir þá sem hafa áhuga á millitímum voru þeir eftirfarandi: 15:55 (5 km)-32:01 (10 km)- 1:04:40 (20 km) – 1:08:24 (hálft) – 1:21:29 (25 km) – 1:38:14 (30 km) – 1:45:47 (32,2 km/20 mílur) – 2:12:28 (40 km) og 2:19:46 lokatími. Þetta var nokkuð öruggt hlaup og síðustu 10 km (33:59) betri lokasprettur en áður. Markmiðið var að fara undir 2:20 og það tókst. Með því að taka meiri áhættu síðustu 10 km er hugsanlegt að tíminn hefði getað orðið kannski hálfri mín betri en mér fannst það ekki áhættunnar virði. Kálfarnir eru yfirleitt mjög viðkvæmir síðustu km og má oft engu muna að maður sleppi við slæman krampa. Maraþonhlaup snýst mikið um stöðumat, reyna að lesa í ástandið og taka reyna að taka réttar ákvarðanir. Feginleikinn er mikill þegar í mark er komið og ótrúleg tilfinning að geta allt í einu slakað á og drukkið vatn að vild. Þetta er upplifun sem allir maraþonhlauparar þekkja – það tókst.

Eftir hlaupið fórum við í góða steik um kvöldið. Það hefur alltaf reynst mér vel. Haustið áður hafði ég brugðið út af vananum eftir Dublin maraþonið. Þá fórum við Steinar á kínverskan veitingarstað. Við vorum ekki komnir nema hálfa leið í gegnum matinn þegar mér fór að líða illa og fékk í framhaldinu heiftarlegan brjóstsviða. Bað um natron en aumingja Kínverjarnir skyldu ekki neitt í neinu og böðuðu út höndunum. Yfirkokkurinn var kominn á svæðið til að vita hvort eitthvað væri að matnum. Það var auðvitað ekkert að matnum þeirra, bara allt of kryddaður fyrir sáran maga eftir maraþonhlaup. Ég, hins vegar í keng, vildi bara ganga frá reikningnum og komast út undir bert loft. Það var rétt svo að við náðum að borga, en í útidyrunum réð ég ekki við neitt og ældi yfir innganginn. Þvílík uppákoma. Ég hef sjálfsagt ekki verið góð auglýsing fyrir staðinn þeirra – man ekki hvort við mættum einhverjum á innleið, en Steinar fann ekki fyrir neinu og var hinn rólegasti yfir öllu saman eins og hans er von og vísa.

Ferðasagan kemur eftir helgi.