Er ekki öskudagurinn búinn ?

birt 28. febrúar 2006

Ég var að skokka frá Kaplakrika í gegnum Setbergið síðastliðinn föstudag. Þar sem ég hleyp eftir stígnum í rólegheitum sé ég tvær stelpur um fimm ára aldurinn leika sér fyrir utan eitt húsið. Önnur þeirra kallar: ,,Þú ert langsíðastur." Ég svara: ,,Nú, ææ." Þá segir hin: ,,Þú verður að hlaupa hraðar." Nokkru síðar kom skýringin þegar ég sá hóp fótboltakvenna liðast upp Setbergsbrekkuna nokkur hundruð metrum fyrir framan mig. Þetta minnti mig á atvik fyrir um það bil ári síðan eða viku eftir Öskudaginn. Þá var ég að hlaupa framhjá Suðurbæjarlauginni í Hafnarfirði og þegar ég var kominn aðeins framhjá 12 ára strák sem stóð á gangstéttinni kallaði hann á eftir mér: ,,Er ekki Öskudagurinn búinn?"  Fyrst í stað vissi ég ekki hvaðan á mig stóð veðrið en áttaði mig síðan á því að sennilega ætti drengurinn við hlaupagallan minn. Hafði fengið hann árið 1997 í fertugsafmælisgjöf og líklega langt síðan að hann datt úr tísku. Þetta er þessi líka fíni vetrargalli sem hægt er að renna saman svo úr verður samfestingur en ekki hafði ég velt litunum sérstaklega fyrir mér. Eftir þessa ábendingu stráksins fór ég að skoða gallann með öðrum augum og tók þá eftir því að hann er skærblár í bland við svart og skærgult. Ekki skrítið að stráknum hafi fundist þetta furðuleg múndering sem best myndi nýtast til að afla sælgætis.

Ég hef alltaf gaman að því að fá viðbrögð frá fólki sem ég mæti á hlaupum. Það lífgar upp á tilveruna. Hins vegar var ég ekki sérstaklega ánægður með slíkt þegar ég var yngri. Þá hrópuðu krakkar gjarnan á eftir manni;  einn, tveir, einn, tveir........Hef ekki heyrt það lengi. Dett í hug að þessi hróp hafi verið tengd gömlu leikfiminni en þá var lagt mikið upp úr því að nemendur gengu í takt. Á þessum árum var líka meira um skrúðgöngur og mótmælagöngur og herinn á Vellinum og hermennska var hugleiknari fólki en nú er. Svo ég rifji fleira upp þá var mér stundum boðið far áður fyrr, sérstaklegar þegar ég var að hlaupa Álftaneshringinn í slæmu veðri. Afþakkaði það alltaf kurteislega, en man eftir því að einn bílstjórinn var ekki aldeilis á því að leyfa mér að hlaupa áfram. Taldi ekkert vit í því og tók mig allnokkra stund að losna við hann og koma honum í skilning um að ég væri á æfingu. Eftir á séð hafði hann auðvitað rétt fyrir sér - örugglega ekkert gagn verið af þessari æfingu. Einu skemmtilegu atviki man ég eftir frá Edinborgarárunum mínum þegar ég var í sem allrabesta formi. Var þá eitt sinn að taka erfiðan fartleik einn míns liðs í almennigsgarði. Þannig háttaði til að eftir að hafa lokið hröðum 1000 metra spretti skokkaði ég rólega inn í brekku og fyrir húshorn, var svona vinkill á hlaupaleiðinni. Þar sat maður á bekk og hann sá ekki betur en svo að þarna kæmi maður móður og másandi upp þessa litlu brekku - hafði ekki séð sprettinn. Hann virtist mjög hissa á þessum átökum (svitinn bogaði af mér) og stóð upp og kallaði hvatningarorð til mín um að taka nú á, ég hlyti að komast upp brekkuna (you can do it, keep going, you can do it). Þetta var ansi spaugilegt.