birt 04. október 2006

Einhver sagði við mig að golf væri endalaus vandræði - vonbrigði ofan á vonbrigði. Það er nokkuð til í þessu. Þegar vel gengur fara væntingarnar stundum upp úr öllu valdi. Svo þegar næsta högg fer út í skurð og síðan út af vellinum fer gamanið að kárna. Tala nú ekki um þegar kúlan ratar ofan í hraungjótu eða endar bakvið stein. Þá dimmir yfir manni og maður spyr sig hvað maður sé eiginlega að gera í þessari íþrótt - betra væri að auka bara hlaupin. Svo kemur allt í einu þetta fína högg, hundrað metra högg sem endar meter frá holu eða 10 metra pútt dettur ofan í. Þá tekur maður gleði sína á ný og golfið verður þess virði að eyða tíma í það.

Allan þennan skala er ég búinn að upplifa í sumar. Skráði mig loks í golfklúbb í vor eftir að hafa gutlað lítillega í þessu í 18 ár. Hef reynt að stunda þetta a.m.k. 2-3 í viku í allt sumar og er búinn að keppa á 12 opinberum mótum og þremur fyrirtækjamótum. Þetta er alveg ný reynsla fyrir mig en finnst þetta skemmtilegt. Byrjaði með 25 í forgjöf og eftir töluvert basl í maí og júní lækkaði ég í 24,3 um miðjan júlí. Síðan liðu 5 vikur þar til ég lækkaði mig í 22,8 og síðan loks í 22,1 um miðjan september. Ég þykist auðvitað eiga meira inni þar sem spilamennskan er óstöðug. Þannig fór ég fyrri níu holurnar í síðasta móti á 53 en þær seinni á 41. Loðir við mig að byrja illa. Finnst ég vera of spenntur - líð eins og ég sé að leggja af stað í stórhlaupi í mínu besta formi. Það tekur greinilega nokkurn tíma að aðlaga sig þessari íþróttagrein. Það hefur t.a.m. komið mér á óvart að golf krefst annars konar þolinmæði en langhlaup. Ég hélt að ég hefði mikla þolinmæði úr maraþonhlaupinu. Komst fljótt að raun um að sú tegund þolinmæði dugði skammt í golfinu þar sem alltaf eru óvæntir hlutir að gerast. Það getur verið stutt í pirringinn og tuðið þegar illa gengur. Svo heldur maður líka að maður sé alltaf svona óheppinn - af hverju var þessi skurður eða sandur þarna en ekki annars staðar.

Síðasta mótið mitt í sumar er á sunnudaginn í Grindavík en þar ætla átta gamlir frjálsíþróttafélagar að etja kappi saman ásamt öðrum. Síðasta tækifæri til að lækka forgjöfina og reyna að vinna Sighvat Dýra og Ágúst Þorsteins sem ég hef tapað reglulega fyrir undanfarið, reyndar bara með einu höggi síðast. Nú er bara að halda ró sinni og taka þá á sálfræðinni. Það hlýtur að gera þá óörugga að sjá mig allt í einu svona yfirvegaðan með pókerandlit. Þeir eiga ekki slíku að venjast.

Ég hef verk að vinna næsta ár. Samkvæmt skránni á golf.is er ég númer 7.465 í röð kylfinga í landinu hvað forgjöf varðar og númer 580 í mínum klúbb (GK). Ég hugga mig við að ég er búinn að bæta mig um 2.000 sæti frá því í vor og að í þessum hópi eru unglingar, konur og öldungar sem slá upphafshöggin af fremri teigum. Tel sjálfum mér trú um að ég sé betri en hluti þessa hóps. Þetta er allavega skemmtileg statestik sem gaman er að fylgjast með milli móta.