birt 24. febrúar 2005

Skagamaðurinn Gauti Jóhannesson sem hefur stundað læknanám í Svíþjóð undanfarin ár hefur aldeilis verið að sýna tilþrif á innanhússmótum undanfarið. Í síðustu viku setti hann nýtt Íslandsmet í 800 m hlaupi, hljóp á 1:51,89 mín. og bætti þar með ársgamalt met Björns Margeirssonar um 14 hundruðustu úr sekúndu. Fyrr var Gauti búinn að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í Madrid í næsta mánuði með því að  hlaupa 1.500 m á 3:47,99 mín. sem er stórbæting á fyrri árangri hans. Spennandi verður að sjá hvernig Gauta tekst til á EM, en enginn Íslenskur hlaupari hefur tekið þátt í því móti sl. tvo áratugi.

Gauti æfði sund af kappi fram á unglingsaldur, en tók þó oft þátt í götuhlaupum með Jóhannesi Guðjónssyni, föður sínum. Hann var snemma léttur á fæti en fór eiginlega ekki að æfa hlaup að ráði fyrr en undir tvítugt. Virtist fyrst ætla að leggja langhlaup fyrir sig, en hefur nú aldeilis sýnt að hann er mikið efni í góðan millivegalengdahlaupara.