Flott hlaup á Akranesi, en alltof fáir

birt 30. maí 2005

Akraneshlaupið fór fram í 14. skiptið um síðustu helgi. Veðrið var frábært, en oft hefur gustað á hlaupara á Skaganum undanfarin ár. Framkvæmd hlaupsins var með miklum ágætum. Hlaupaleiðin vel merkt, brautarverðir víða og allur viðurgjörningum góður. Auk þess má geta þess að útdráttarverðlaun voru mjög glæsileg. Þar sem mikill metnaður er ávallt lagður í framkvæmdina, brautin góð og gott veður núna þá er undarlegt að svo fáir skyldu taka þátt í lengri vegalengdunum. Í 10 km voru einungis 27 og 48 í hálfmaraþoni, samanlagt 75 sem er það fæsta síðan árið 2000. Hver er ástæðan fyrir þessari fækkun? Er að fækka í þeim hópi sem stundar hlaup reglulega? Taka hlauparar þátt í færri hlaupum en áður - leggja e.t.v. meira upp úr undirbúningi fyrir tiltekin hlaup? Spyr sá sem ekki veit.

Aðstæðurnar um síðustu helgi buðu upp á góða möguleika til bætinga. Þorlákur Jónsson, sem verður fertugur í haust, náði sem dæmi mjög athyglisverðum árangri. Varð í öðru sæti í hálfmaraþoni á 1:16:13 klst. sem er góð bæting og sýnir að hann á að geta hlaupið maraþon undir 2:40 í haust. Birgir Sævarsson var einnig að bæta sig. Stefán Viðar, Jóhann Gylfa og Sigurður Hansen eru á siglingu þessa dagana og bættu sig allir í 10 km. Ég var í því hlutverki að halda hraðanum fyrir tvær dömur sem ég er að þjálfa og get vel við unað. Hólmfríður Vala bætti sinn fyrri árangur í hálfmaraþoni um rúmar 4 mínútur og Valgerður bætti sinn besta tíma frá því fyrir 10 árum um 32 sek. Við lögðum upp með að hlaupa hvern km á 4:30 mín og sjá til hvernig það gengi. Eftir 10 km vorum við á 45:00 en nýttum síðan vel goluna í bakið fram að 15 km til að byggja upp inneign. Erfiðasti kaflinn var á milli 15 og 17 km en þar var golan nokkuð sterk í fangið og hlaupaleiðin aðeins upp á við. Fórum fram úr Huld Konráðsdóttur, sem var að hlaupa mjög vel og bætti sig töluvert, eftir 19 km og síðan nokkuð þægilegur lokakafli þar sem hlaupaleiðan hallar aðeins niður í móti. Millitíminn á 20 km var 1:29:26 þannig að seinni 10 km voru um hálfri mínútu hraðari. Ég hef verið á þeirri skoðun í seinni tíð að hlauparar ættu að prófa oftar að hlaupa "negatíva splitta" þ.e. byrja rólegar og vinna sig jafnt og þétt inn í hlaupið. Það má þó ekki fara of rólega - þarf alltaf að meta í hvert sinn m.t.t. aðstæðna.