birt 04. janúar 2019

Í apríl 2017 skrifaði ég pistil til minningar um kanadíska hlauparinn Ed Whitlock, sem öðrum mönnum fremur sýndi fram á að hægt er að ná góðum árangri á hlaupum þó að maður sé löngu kominn á eftirlaunaaldur. Eitt umtalaðasta afrek Eds var að hlaupa maraþon á 2:54:48 klst eftir sjötugt. Þetta var heimsmet sem flestir töldu að seint yrði bætt. En metið féll engu að síður vestur í Flórída 15. desember sl. þegar hinn sjötugi Gene Dykes hljóp vegalengdina á 2:54:23 klst.

Fyrir 5 árum var Gene Dykes meðal viðstaddra þar sem Ed Whitlock var spurður að því í pallborði í tengslum við Tórontómaraþonið hvað af metunum hans hann teldi að myndi standa lengst. Og þegar Ed nefndi heimsmetið í maraþoni 70 ára og eldri í því sambandi hugsaði Gene, þá 65 ára gamall og með 3:16 klst. sem besta maraþontíma ævinnar, „Já, auðvitað, það verður aldrei bætt".

Gene Dykes 70 ára

Gene Dykes fer e.t.v. ekki eins ótroðnar slóðir í þjálfun og Ed Whitlock heitinn, en sumt sem hann gerir er þó ekki alveg „eftir bókinni". Hann er t.d. þekktur fyrir að keppa oft í löngum hlaupum, miklu oftar en flestir þjálfarar myndu ráðleggja.Hjá Gene snýst þetta ekki alls ekki um eitt maraþon að vori og annað að hausti. Sem dæmi um viðfangsefni hans síðustu vikurnar fyrir methlaupið má nefna að hann hljóp maraþon í Tórontó í október á 2:55:17 klst, þann 1. desember tók hann þátt í 50 km hlaupi í San Fransiskó og daginn eftir hljóp hann California International maraþonið, reyndar „bara" á 3:23:58 klst. Þrettán dögum síðar sló hann heimsmetið. Sjálfur segir hann það vera sína sterkustu hlið hvað hann er fljótur að jafna sig eftir átök.

Í þessari sömu ferð hljóp Gene Tórontómaraþonið á 3:29 klst., þrátt fyrir að hafa gert sér vonir um bætingu á 3:16-tímanum. Hann kenndi háum aldri um, en ákvað engu að síður að gefa sér enn eitt tækifæri til að sýna fram á að í honum byggi betri hlaupari. Í þeim tilgangi réði hann sér þjálfara, jafnvel þótt honum fyndist asnalegt að borga einhverjum fyrir að segja sér hvernig ætti að hlaupa. „Hver eins og viti það ekki"!? Þjálfarinn fékk hann til að fjölga æfingum úr 3-4 á viku í 5-6, auk þess sem nánast allar æfingar voru hraðari en hann hafði vanist. Og það eitt að hafa þjálfara veitti honum aðhald í þjálfuninni. Fimm mánuðum síðar var hann búinn að bæta persónumetið sitt í 3:09 klst.

Jeannie Rice 70 ára

Gene Dykes er ekki eini öldungurinn sem hefur náð eftirtektarverðum árangri síðustu mánuði. Af mörgum öðrum frábærum hlaupurum á efri árum má nefna jafnöldru hans, Jeannie Rice frá Ohio, sem setti heimsmet í maraþonhlaupi kvenna 70 ára og eldri í Chicago maraþoninu í haust, þar sem hún kom í mark á 3:27:50 klst. Fyrra metið í aldursflokknum var 3:35:29 klst, þannig að þarna var um verulega bætingu að ræða. Jeannie Rice er enginn byrjandi í götuhlaupum, en hún byrjaði að stunda hlaup um tvítugt.Árið 1984 hljóp hún fyrsta maraþonið sitt á 3:45 klst. Í næsta hlaupi bætti hún sig í 3:16 klst og síðan hefur hvert maraþonið rekið annað, víða um heim. Methlaupið í Chicago var það 116. í röðinni. Í undirbúningnum fyrir hlaupið hljóp hún allt að 105 km á viku, þar af nokkur hlaup lengri en 32 km. Þar fyrir utan hefur hún verið dugleg að keppa í 5 og 10 km hlaupum til að viðhalda hraðanum. Kosturinn við hlaupin, að hennar mati, er að maður getur alltaf tekið sér hlé og byrjað svo aftur seinna, auk þess sem maður þarf ekkert að reiða sig á aðra, ólíkt því sem gerist í flestum öðrum íþróttum.

Jenny Hitchings 55 ára

Einn yngri öldungur sem hefur látið mikið að sér kveða upp á síðkastið er Jenny Hitchings frá Sacramento, sem setti fjögur Bandaríkjamet í aldursflokknum sínum (55-59 ára) á fjögurra mánaða tímabili í haust.Fyrst hljóp hún 5 km á 18:05 mín í ágúst, þar næst 10 mílur (16,09 km) á 1:01:20 klst í september, þá hálft maraþon á 1:21:17 klst í október og loks 10 km á 37:27 mín í nóvember. Þar var hún að bæta 5 ára gamalt met goðsagnarinnar Joan Benoit Samuelson. Og það var ekki nóg með að Jenny væri þarna að slá aldursflokkamet, heldur voru allir þessir tímar hennar bestu tímar frá upphafi. Sem sagt: Fjögur PB 55 ára! Reyndar byrjaði hún ekki að hlaupa fyrr en undir fertugt, en hvað um það!?Jenny hleypur alla jafna 85-110 km á viku, en leggur jafnframt mikið upp úr því að fá næga hvíld til að minnka líkur á meiðslum. Að sögn þjálfarans hennar er það hennar sterkasta hlið að hlusta vel á eigin líkama.

Eitt af næstu verkefnum Jenny Hitchings verður sennilega að gera atlögu að Bandaríkjametinu í maraþoni kvenna 55-59 ára (2:52:14 klst), en það hefur staðið óhaggað síðan 1998. Besti tími Jennýar á vegalengdinni er reyndar 2:51:50 klst í California International maraþoninu 2. des. sl. (þar sem Gene Dykes var einnig á meðal keppenda). Sá tími fæst þó ekki staðfestur sem met þar sem fjarlægð á milli rásmarks og endamarks er meiri en reglur leyfa. Sjálf vonast Jenny eftir að hlaupa undir 2:50 klst við tækifæri til að bæta tíma Joan Benoit Samuelson, 2:50:33 klst, frá því í Boston fyrir nokkrum árum, en tímar í Bostonmaraþoninu fást heldur ekki skráðir sem met.

Ginette Bedard 85 ára

Árið 2006 setti Ginette Bedard bandarískt met í maraþonhlaupi kvenna 70-74 ára, þegar hún hljóp vegalengdina á 3:46:03 klst. Það met hefur verið bætt rækilega síðan eins og fram kemur hér að framan. Einhver hefur kannski haldið að þar með hefði Ginette sett punktinn aftan við hlaupaævisöguna sína, en því fer fjarri. Hún hleypur enn um 110 km á viku og í byrjun nóvember lauk hún New York maraþoninu á 6:19:01 klst, 85 ára gömul. Þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera neitt sérstakur tími, en hún var samt á undan 3.000 síðustu hlaupurunum í mark.Ginette Bedard byrjaði ekki að hlaupa reglulega fyrr en um aldamót og fyrsta keppnishlaupið hennar var 10 km hlaup árið 2001 þegar hún var 68 ára. Síðan þá hefur hún tekið þátt í meira en 300 keppnishlaupum á vegum Götuhlaupafélags New York (NY Road Runners, NYRR). Hún ævir aðallega á sandströnd nálægt heimili sínu á Howard Beach og missir helst aldrei dag úr. Daginn eftir New York maraþonið lét hún þó 8 km æfingu duga.

Hún viðurkennir að hraðinn sé farinn að minnka, en það þýðir bara að æfingarnar taka svolítið lengri tíma en áður. Og hún segist enn komast í bikiníið sem hún var í þegar hún var 18 ára.

Lokaorð

Eins og Bernard Lagat og fleiri hafa sagt, þá er aldur bara tala. Og eins og einhver annar sagði, þá eru algengustu mistökin sem fólk gerir að halda að það sé „of eitthvað til einhvers". Vissulega má búast við afturför í hlaupum þegar eftirlaunaaldurinn nálgast, en dæmin sýna að fólki á þeim aldri hættir til að vanmeta getu sína stórlega. Það er aldrei of seint að byrja og í hlaupum eru betri æfingar yfirleitt það eina sem þarf til að ná betri árangri, óháð því á hvaða aldri maður er.

Efnisflokkur: Öldungar

Heimildir:
  1. Jacob Meschke (2018): 85-Year-Old Marathoner on Her 10-Mile Daily Runs, Fad Diets, and the Problem With Men Her Age. Runner‘s World, 20. nóvember. https://www.runnersworld.com/runners-stories/a25049407/ginette-bedard-new-york-city-marathon.
  2. Sarah Lorge Butler (2018): 70-Year-Old Ohio Woman Runs Insanely Fast Marathon in Chicago. Runner‘s World, 12. október. https://www.runnersworld.com/runners-stories/a23742988/70-year-old-woman-sets-marathon-record.
  3. Sarah Lorge Butler (2018): 70-Year-Old Sets World Age Group Record for Marathon. Runner‘s World, 16. desember. https://www.runnersworld.com/news/a25593341/70-year-old-marathon-record.
  4. Sarah Lorge Butler (2018): Blazing Fast Masters Champion Sets Four American Records in Four Months. Runner‘s World, 3. desember. https://www.runnersworld.com/runners-stories/a25361595/four-american-records-in-four-months.
  5. Sarah Lorge Butler (2018): Pennsylvania 70-Year-Old Goes Sub-3:00 in Toronto. Runner‘s World, 26. október. https://www.runnersworld.com/runners-stories/a24231891/70-year-old-run-sub-3-hour-marathon.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.