birt 24. maí 2005

Kári Steinn Karlsson (1986) vann ÍR-hlaupið og Flugleiðahlaupið og er greinilega í góðu formi. Hann og Stefán Guðmundsson, jafnaldri hans, eru framtíðarmenn í langhlaupum hér á landi. Mjög efnilegir strákar. Vilhjálmur Atlason (1988) vakti einnig athygli mína í ÍR-hlaupinu, en hann varð í 5. sæti á 16:12 mín. Hann er í mikilli framför. Hitt er svo annað mál að breiddin er fremur lítil um þessar mundir í langhlaupunum. Í kvennaflokki ber Íris Anna Skúladóttir af, en hún er á sextánda ári en þegar komin í landslið og mun keppa í lok þessa mánaðar á Smáþjóðaleikunum í Andorra. Íris er mesta hlaupaefni meðal kvenna hér á landi frá því systurnar Ragnheiður og Rut Ólafsdætur komu fram á sjónarsviðið á seinnihluta áttunda áratugarins. Ragnheiður á reyndar ennþá Íslandsmetin á vegalengdum frá 800 til 3.000 m. Íris hefur að mínu mati alla möguleika til að slá þau met eftir nokkur ár. Til þess þarf þó miklar æfingar og vandvirkan undirbúning.

Breiddin í eldri aldursflokkunum er töluverð og yfirleitt góð samkeppni. Greinilegt er að margir hafa æft vel í vetur og eru að bæta sig. Nefni sem dæmi Stefán Viðar Sigtryggsson (1970) sem sigraði 10 km í Fjölnishlaupinu á 36:03 mín. Jóhann Gylfason (1964) og Birgir Marteinsson (1971) eru einnig að bæta sig. Eins og gengur þá færist fólk upp um aldursflokka sbr. Sigurjón Sigurbjörnsson (1955) sem lætur nú hinn síunga Þórhall Jóhannesson (1953) finna fyrir því í 50 ára flokknum. Síðast en ekki síst má nefna Jón Guðlaugsson sem hljóp 5 km á 27:44 í ÍR-hlaupinu. Að hlaupa á 5:30 tempói 79 ára gamall verður að teljast gott. Annar ,,unglingur" Höskuldur Eyfjörð Guðmannson, 73 ára, hljóp enn hraðar eða á 26:34.

Í heildina sagt byrjar hlaupasumarið nokkuð vel, m.a. mjög góð þátttaka í Neshlaupinu, og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig fyrsta hálfmaraþon sumarsins á Akranesi kemur út. Búast má við að þá fari maraþonhlauparnir að stimpla sig inn.