birt 23. janúar 2006

Svona breytast tímarnir. Nú er ég kominn í hóp þeirra sem í ársbyrjun fjárfesta í árskorti á líkamsræktarstöðvum til að gera heilsueflingarátak. Mér finnst ég ekki hafa borðað meira yfir jólin núna en áður, en niðurstaðan var eigi að síður sú að í ársbyrjun var ég orðinn 83 kg sem er metþyngd hjá mér. Þetta er engin ofurþyngd en tekur í ef manni dettur í hug að skreppa í eitt og eitt hlaup. Það var því ekki um annað að ræða en taka á málinu. Ég fór auðvitað inn í Technosport, sem er lítil stöð í mínu bæjarfélagi, en þar hafði ég verið með kort fyrir 4-5 árum í skamman tíma. Hef reyndar aldrei verið spenntur fyrir líkamsræktarstöðvum og hef t.d. aldrei komið inn í Laugar. Útiveran höfðar meira til mín, en á þessum árstíma er veðrið risjótt svo og var kominn tími til að styrkja skrokkinn. Nú eru tvær vikur liðnar og ég búinn að fara í sex skipti. Setti mér það markmið í upphafi að fara þrisvar í viku og var hugmyndin að fara 1-2 sinnum á morgnana fyrir vinnu. Það hefur ekki tekist ennþá en ég stefni að því - ég er nefnilega B maður og slekk gjarnan á klukkunni þegar ég hálfvakna.

Þó að það sé kannski ekki bráðnauðsynlegt að hafa sérstakt skipulag eða strategíu á inniæfingum þá geri ég það eigi að síður. Af fyrri reynslu veit ég að nauðsynlegt er fyrir mig að fara rólega í styrktaræfingarnar til að fá ekki miklar harðsperrur eða jafnvel leiðindar tak t.d. í herðar. Mitt fyrirkomulag er að skokka rólega (ca 5:30 tempó) 3 km á bretti í upphitun og taka síðan 30-40 mínútur í æfingasalnum. Ég tek æfingar fyrir fætur, bak, maga og hendur til skiptis til að setja ekki of mikið álag á sama vöðvahópinn. Ég miða þyngdir við það að geta tekið 15-20 endurtekningar án erfiðleika. Læt ekki freistast til að prófa hámarksþyngdir. Ég er að þjálfa vöðvaúthald en ekki að byggja upp hámarksstyrk. Hef þetta mér til afsökunar þegar ég týni lóðin af stönginni í bekkpressunni. Langhlaupari hefur reyndar ekkert við stöðukraft að gera. Þar sem ekki er raunhæft að fara stanslaust úr einu tækinu í annað er upplagt að nota tímann og gera teygjur á milli. Það kemur sér vel enda hef ég í gegnum tíðina verið latur að gera teygjur. Svo er þess að geta að ég læt þau tæki eiga sig sem eru ætluð til að þjálfa upp einhverja sérvöðva fyrir útlit. Ég legg frekar áherslu á hefðbundnar styrktaræfingar sem ég veit að gagnast hlaupurum. Eftir æfingarnar í salnum hleyp ég í 20 mínútur á brettinu og fer þá töluvert hraðar - hef miðað undanfarið við að komast um 4,6-4,8 km á þeim tíma. Það er alltaf nokkur freisting að auka hraðann síðustu mínúturnar en það er skynsamlegt að fara varlega í það. Betri kostur er að taka áfangaþjálfun í Laugardalshöllinni. Þá eru hlaupaskrefin opnari og óþvingaðri.

Eitt er skemmtilegt við að æfa á líkamsræktarstöðvum og það er að maður er alltaf að hitta einhverja sem maður þekkir - gamla skólafélaga, vinnufélaga, íþróttafélaga og jafnvel ættingja. Þá er bara að stilla spjallinu í hóf - en það vill nú stundum verða erfitt fyrir menn sem hafa gaman af því að tala.