birt 04. júlí 2005

Jón Diðriksson, Íslandsmethafi í 1.000 m, 2.000 m, 1.500 m, míluhlaupi, 3.000 m og 5.000 m hlaupi og Borgfirðingur, varð fimmtugur 17. júní sl. Hann brá sér heim í viku frá Boston þar sem hann hefur búið síðan 1987 til að halda upp á afmælið og bauð m.a. gömlum frjálsíþróttarmönnum í smá teiti þann 18. júní. Því miður komst ég ekki þar sem ég var á þeim tíma á Spáni.

Ég sá Jón fyrst árið 1972 á Íslandsmóti 15-18 ára á Sauðárkróki. Held það hafi verið hans fyrsta keppni. Hann keppti þá í drengjaflokki og varð annar í 1.500 m hlaupi á eftir Einari Óskarssyni úr Kópavogi á 4:26,0 mín. (skrítið hvað maður man tíma - hlýtur að vera einhver klikkun) á grasbraut. Ég var hins vegar í sveinaflokki (15-16 ára) og atti því ekki kappi við Jón í það sinn. Jón gerðist síðan nemandi við Menntaskólann við Tjörnina (MT) og fór þá að æfa skipulega. Hann tók fljótt miklum framförum og varð brátt í fararbroddi í millivegalengdum hér á landi ásamt Ágústi Ásgeirssyni og Gunnari Páli Jóakimssyni.

Jón var stórhuga og dvaldi 1975-76 í Newcastle og fór í framhaldi af því í nám í Íþróttaháskólanum í Köln. Hann kom heim frá Þýskalandi árið 1985 og starfaði einn vetur við kennslu á Laugarvatni og síðan eitt ár hjá Austurbakka. Virtist ekki finna sig alveg hér heima og hélt í vesturveg. Við gömlu félagar hans höfum lengi verið að suða í honum að flytja aftur heim en það hefur ekki orðið enn af því.

Jón er drengur góður og vinur vina sinna. Það sem einkenndi hann á hans íþróttamannsferli er það sem er kallað atvinnumennska í dag. Á ensku er það "dedication." Hann var skipulagður og metnaðargjarn. Stundum fannst okkur félögunum nóg um - en gerðum okkur síðan grein fyrir að til að ná árangri þarftu að leggja mikið á þig. Jón var gjarnan mjög ákveðinn og var ekki tilbúinn til að sveigja mikið frá sinni áætlun.

Í margar eftirminnilegar æfinga- og keppnisferðir fór ég með Jóni. Til að nefna eitthvað þá var æfingaferðin vorið 1975 til Durham nokkuð skondin sem Sigfús Jónsson og Ágúst Ásgeirsson skipulögðu en þeir voru þá þar við háskólanám. Til að hafa þetta sem ódýrast höfðu þeir leigt húsbíl fyrir okkur (ég, Jón, Gunnar Páll og Vilmundur Vilhjálmsson) á svokölluðu caravan side. Rúmin voru ekki nema um 1,80 m að lengd og þurfti að hlaða púðum undir fæturnar á Jóni sem er 1,94 m. Síðan þurftum við að tannbusta okkur úti á túni í sameiginlegum krana fyrir svæðið. Jón varð fljótt mjög brúnaþungur og kvað síðan upp að þetta léti hann ekki bjóða sér. Fórum við þá inn í bæinn á B&B og dvöldum þar í 4 vikur í ágætu yfirlæti hjá fullorðnum manni sem reyndar var nokkuð geðstirður. Man eftir því að þegar við kvörtuðum um kulda um miðjan maí sagði hann að venjan væri sú að skrúfa fyrir alla ofna 1. maí. ,,You Icelanders should make through that." Við létum gott heita og breiddum enn einu teppinu yfir okkur - held við höfum verið með um sjö teppalög mest því engin var sængin.

Eins og áður sagði á Jón enn flest metin í lengri hlaupum. Aðeins búið að slá metin í 800 m og í 3.000 m hindrunarhlaupi. Hann hefur því lagt mikið af mörkum - sett takmörk fyrir þá sem eftir koma. Jón hefur haldið sér í góðu formi alla tíð og er nánast í sömu vigt og þegar hann var að keppa.

Heill þér Jón á þessum tímamótum og hlakka til að hitta þig í lok júlí, en kappinn ætlar að koma öðru sinni á þessu ári.