Jón H. Sigurðsson fallinn frá

birt 22. febrúar 2008

Góður langhlaupari og vinur minn, Jón H. Sigurðsson, lést 16. febrúar síðastliðinn tæplega 64 ára gamall. Ég hitti hann síðast á Landsmóti UMFÍ sem fram fór í Kópavogi í júlí á síðasta ári. Hann tók mér fagnandi eins og alltaf með sínu hlýja viðmóti. Þegar ég var að byrja að keppa á unglingamótum um 1970 var Jón H. einn af fremstu langhlaupurum landsins. Á árunum fyrir 1970 barðist hann einkum við Halldór Guðbjörnsson, KR, um meistaratitla í langhlaupum, en síðar við ÍR-ingana Sigfús Jónsson og Ágúst Ásgeirsson. Árið 1971 var besta hlaupaár Jóns H. Þá náði hann sínum besta árangri í 3.000 m (9:03,6), í 5.000 m (15:33,4) og í 10.000 m (32:46,0). Varð einnig Íslandsmeistari í víðavangshlaupi eftir harða keppni við Sigfús og Ágúst, en í viðavangshlaupum lá mesti styrkur Jóns H. Þar naut hann æfinganna um holt og hæðir í nágrenni Úthlíðar í Biskupstungum þar sem hann stundaði búskap. Höfðu margir á orði að hlaupastíll Jóns bæri þeim æfingum vitni en hann hljóp nokkuð álútur með háar hnélyftur. Sjálfsagt hefði Jón H. getað náð enn betri árangri hefði hann notið þjálfunar og æfingaaðstæðna sem bjóðast nú á dögum.

Fyrsta hlaupið sem ég tók þátt í þar sem Jón H. var meðal keppenda var Bláskógaskokkið árið 1972. Hann sigraði það auðveldlega. Á þeim tíma voru fá götuhlaup í boði og vegalengdir yfirleitt aðeins 4-8 km. Ekki var boðið upp á keppni í lengri götuhlaupum en 16 km fyrr en eftir 1980. Synd að Jón H. skyldi aldrei reyna sig við maraþonvegalengdina en ég er viss um að þar hefði hans góða þol notið sín best. Þegar ég var 18 ára árið 1975 var ég farinn að nálgast Jón H. að getu og minnist þess að hafa tapað fyrir honum á endaspretti í 6 km götuhlaupi á Selfossi. Man að mér fannst það mikill heiður að ná að hanga í honum allt hlaupið. Þá var hann farinn að slaka á og minnir mig að hann hafi seinast keppt í hlaupi árið 1976.

Árið 1977 lenti Jón H. í alvarlegu slysi og lamaðist fyrir neðan mitti. Hann tókst á við þetta áfall af miklu æðruleysi og hóf þegar að byggja upp nýtt líf. Þegar búskapurinn var ekki lengur möguleiki varð að sækja á nýjar slóðir. Hann menntaði sig, tók fyrst stúdentspróf og síðan háskólapróf í líffræði. Starfaði síðan lengi við kennslu í framhaldsskólum. Það er erfitt fyrir mig, sem alltaf hefur tekið það sem sjálfsögðum hlut, að geta hlaupið hvenær sem ég hef viljað, að setja mig í spor Jóns H. Það hlýtur að hafa verið erfið raun að takast á við þetta hlutskipti, en aldrei minnist ég þess að hann hafi kvartað yfir sínum hlut og alltaf var hann glaðvær og hlýr. Í hans huga voru allir vegir færir og tók hann m.a. margsinnis þátt í Reykjavíkurmaraþoni, oftast í 10 km en þrívegis í hálfmaraþoni á árunum 1998-2000. Hann hafði ánægju af að taka þátt í slíkum viðburðum og sýndi öðru fötluðu fólki að margt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég þakka heiðursmanninum Jóni H. Sigurðssyni fyrir góða samfylgd og votta aðstandendum hans samúð mína.