Kári brýtur blað í langhlaupum á Íslandi

birt 06. apríl 2008

Ég er staddur þessa stundina á flugvellinum í Frankfurt á leiðinni á ráðstefnu í Slóveníu. Þurfum að bíða í 6 tíma eftir fluginu til Ljubliana, en sunnudagar eru víst lakastir hvað varðar tengingar. Til að eyða tímanum kíkti ég snöggvast á netið og við blasti frétt um að Kári Steinn hefði bætt Íslandsmetið í 10.000 m hlaupi um 41 sek. Hann fór ekki einungis undir 30 mínútna múrinn heldur hálfri mínútu betur. Þetta er frábært og óska ég honum innilega til hamingju.
Sannarlega tími kominn til að brjóta múra í langhlaupum á Íslandi. Bíð spenntur eftir að Kári brjóti aðra merkilega múra svo sem 14:00 í 5.000 m og 8:00 í 3.000 m. Hann á möguleika á því í ár.

Árangur Kára sýnir að við Íslendingar getum náð árangri í langhlaupum ef við leggjum hart að okkur. Því skyldum við ekki getað hlaupið eins og kastað. Kári er aðeins 22 ára og verður fróðlegt að fylgjast með framgangi hans.