Á leiðinni til Kenía, Mekka langhlauparanna - Pistill 1

uppfært 08. apríl 2023

Þegar þessar línur eru skrifaðar erum við FH-hópurinn, sex samtals (Valur Elli Valsson, Elís Sóley Sigurbjörnsdóttir, Íris Dóra Snorradóttir, Hulda Fanný Pálsdóttir og Nick Gísli Janssen), staddur á flugvellinum í Frankfurt en þar þurfum við að bíða í rúma 5 tíma fyrir flugið til Nairobi, höfuðborgar Kenía. Dveljum þar eina nótt og förum svo í klukkutíma flug til Eldoret og þá tekur við klukkutíma akstur til Iten þar sem ætlunin er að dvelja við æfingar í 3-6 vikur. Komum sem sagt til Iten á föstudeginum langa en þetta er lítill bær með um sjö þúsund íbúa og þekktastur fyrir það að þangað koma margir bestu hlauparar landsins og erlendis frá til að æfa í þunna loftinu en bærinn er í um 2.400 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar komið er inn í bæinn er farið í gegnum stórt hlið þar sem stendur Home of Champions. Vel við hæfi enda koma flestir bestu hlauparar Kenía frá þessu landsvæði.

Kenía Hópur FH
Kenía hópur FH - Valur Elli, Elín Sóley, Siggi P, Íris Dóra og Hulda Fanný. Á myndina vantar Nick Gísla.

.

Ég hef frá því ég var unglingur fylgst með og hrifist af hlaupurum frá Kenía og Eþíópíu. Fyrst man ég eftir Kip Keino á Ólympíuleikunum í München árið 1972 en þar háði hann mikla baráttu við Finnann Pekka Vasala í 1.500 m og er fræg mynd til af þeim að hlaupa samsíðis á endasprettinum. Keino varð annar en hafði sigrað í þessari grein á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 á 3:34,91 mín sem var mjög góður árangur í þunna loftinu. Keino var fyrsti afburðahlauparinn frá Kenía sem vann stóra titla og setti heimsmet. Hann er nú kominn yfir áttrætt og býr í Eldoret og hefur lengi rekið heimili fyrir munaðarlaus börn.

Of langt mál yrði að telja upp öll nöfn hlaupara frá Kenía sem náð hafa framúrskarandi árangri. Þeirra langþekktastur núna er Eliud Kiphoge, 39 ára, sem á heimsmetið í maraþonhlaupi (2:01:09 í Berlín) og hljóp undir 2 klst (1:59:40) á kappakstursbraut í Vín árið 2019. Hann á brautarmetin í Berlín, London (2:02:37) og Tokyo (2:02:40) og ætlar að reyna við brautarmetið í Boston maraþoni sem fram fer síðar í þessum mánuði. Nefni til viðbótar David Rudisha sem setti heimsmet í 800 m á Ólympíuleikunum í London 2012, Paul Tergat sem var gríðarlega góður í vegalengdum frá 5.000 m upp í maraþon, Brigid Kosgei sem á heimsmetið í maraþoni (2:14:04), og Pamelu Jelimo sem setti heimsmet í 800 m. Hins vegar held ég mest upp á Henry Rono, kannski vegna þess hversu óútreiknanlegur hann var. Rono var algjör yfirburðarmaður árið 1978 þegar hann setti fjögur heimsmet á 81 dögum. Metin voru í 3.000 (7:32,5), 3.000 H (8:05,4), 5.000 (13:08,4) og 10.000 (27:22,5). Metið í hindrunarhlaupinu stóð í 11 ár. Rono átti það til að svalla og bæta á sig 10-20 kg en reif sig svo upp og var kominn aftur á heimsmælikvarða innan nokkurra vikna. Eftir hlaupaferilinn bjó hann í Bandaríkjunum og átti oft erfiðan dag sökum alkóhólisma.

Jæja – það er verið að kalla út í vél. Næsti pistill kemur frá Kenía með þeim fyrirvara að netsamband og þess háttar sé í góðu lagi.

Boðhlaupsmynd Elín Sóley Íris Dóra Og Hulda Fanný
Boðhlaupssveit FH. Frá vinstri Halldóra Ingvarsdóttir, Elín Sóley, Hulda Fanný og Íris Dóra

.