Kenía för - Fyrsti æfingadagur - Pistill 2

uppfært 08. apríl 2023

Tókum fyrstu æfinguna í Kenía í gær, föstudaginn langa. Unga fólkið skokkaði létt 6-7 km og ég fór aðeins skemmra og reyndi að blanda saman hraðgöngu og rólegu skokki. Þreyta var í mannskapnum eftir langt ferðalag að heiman. Flugið frá Frankfurt, eftir bið í 5 klst, til Nairobi tók um 8 klst en það fór vel um okkur í Airbus vél sem tók um 350 farþega. Flestir gátu sofið eitthvað, en ég náði í besta falli smá kríu. Skondið að horfa upp á mikla samkeppni meðal leigubílstjóra um að fá að aka okkur á hótel í Nairobi. Á endanum virtist einhver hafa foringjahlutverk í bílstjórahópnum sem tók lokaákvörðun en við skildum ekkert í þessu kerfi þeirra.

Um hádegisbilið í gær fórum við í innanlandsflugið til Eldoret. Kom á óvart að enn og aftur þurftum við að framvísa vegabréfi og öðrum pappírum. Yfirvöld í Kenía virðast vera nokkuð ströng á reglum, mikið beðið um pappíra og lögreglan stöðvaði okkur m.a. í tvígang í eins klukkutíma rútuferð milli Eldoret og Iten. Annars var mjög fróðlegt að fylgjast með því sem fyrir augu bar á leiðinni í gegnum þorp og sveitir.

Mikið um söluskúra frekar óhrjálega í vegarkantinum, kýr virtust vera í lausagangi en kindur hins vegar tjóðraðar og asnar bundnir fyrir kerrum. Gamlir Marsey Fergusonar, sennilega frá um 1980, skröltu áfram. Fólk að bjástra við ýmislegt en sumir að ræða saman í rólegheitum. Ekkert stress á ferðinni þarna og mér varð hugsað til æskuáranna á Hörgslandi á Síðu fyrir margt löngu síðan.

IMG 8090 B

Í dag, laugardaginn fyrir Páska, hittum við Arnar Pétursson, Blika, og Vigni Má Lýðsson, ÍR-ing. Þeir komu fjórum dögum á undan okkur og ætla að dvelja í Iten fram í byrjun maí. Þekkja vel til aðstæðna á þessu svæði enda í fimmta skiptið sem Vignir kemur til æfinga í Iten og í þriðja skiptið sem Arnar kemur. Mjög gagnlegt fyrir okkur nýliðana að læra af reynslu þeirra. Vignir er að undirbúa sig fyrir sitt fyrsta maraþonhlaup í Kaupmannahöfn 18. maí og Arnar er að undirbúa sig fyrir HM í 45 km utanvegahlaupi sem fram fer í Austurríki 8. júní.

2T9A2887
Arnar Pétursson og Vignir Már Lýðsson

Ráðlegt er að fara varlega í æfingar fyrstu dagana í þunnu lofti en Iten liggur í um 2.400 m hæð yfir sjávarmáli. Í þeirri hæð er skerðingin á súrefnisupptöku blóðsins um 12% frá því sem er við sjávarmál. Þreyta segir því fljótt til sín en þetta venst á nokkrum dögum. Við tókum eigi að síður þrjár æfingar í dag, en allar léttar. Unga fólkið hljóp um 7 km kl. sjö í morgun, tók styrktaræfingu í hádeginu og svo aftur létta 7 km í síðdeginu. Ég skrönglaðist á eftir með göngustafi og spelku á vinstra hnénu. Dróst fljótt aftur úr enda takmarkað hvað ég get skokkað. Er þó að ná nokkuð góðum tökum á göngustöfunum, beiti þeim svipað og í skíðagöngu, og hef vakið töluverða athygli meðal innfæddra. Sumir reyndar vorkenna ,,gamla“ halta manninum og hafa ítrekað boðið mér far. Það skondnasta er að oftast er þá um að ræða fólk á mótorhjóli. Krakkarnir henda hins vegar gaman að þessu og eru forvitnir og vilja endilega fá að skoða stafina.

IMG 8102 (1)
Fyrsta æfingin í góðum félagsskap :-)

Eitt það skrítnasta hér er að sólin er beint fyrir ofan höfuðið á manni á hádegi og skugginn því nánast enginn en Kenía liggur á miðbaug jarðar.

Sólarupprás er um kl 06:30 og um kl 18:30 dimmir mjög snögglega og kolniðamyrkur þá á eftir. Veðrið og veðurspáin hentar okkur Íslendingunum vel því það er ekki of heitt. Hitinn fer í 25-26°C og niður í 11-12°C yfir nóttina sem stelpunum í hópnum finnst kalt enda hús ekki upphituð hér um slóðir.