Kenía för - Fyrstu brautaræfingar - Pistill 3

uppfært 11. apríl 2023

Í morgun, þriðjudaginn 11. apríl, vorum við mætt út á götu kl. 06:15 í veg fyrir Arnar og Vigni Má sem pikkuðu okkur upp. Ferðinni heitið á Kipchoge Keino Stadium í Eldoret. Komum þangað um kl. sjö og þá var þegar hópur hlaupara byrjaður að æfa. Það átti eftir að fjölga enn meira og þegar Íslendingarnir voru búnir að hita upp og byrjuðu sína brautaræfingu var röðin orðin nánast samfelld allan hringinn þegar mest var. Á þessa æfingu koma margir bestu hlauparar Kenía, karlar og konur, og var ótrúlegt að sjá hraðann sem þau voru á. Mér sýndist flestir vera að taka langa spretti á bilinu 800-1.200 m og sennilega 6-10 sinnum með stuttri hvíld á milli 60-90 sek.

2T9A2943
Röðin samfellda
2T9A2951
Ekkert gefið eftir í hraðanum

Þetta var önnur hraðaæfing okkar fólks í ferðinni og við vorum því öllu hógværari í vegalengd og fjölda spretta. Vignir Már lét sig þó hafa það og tók 12x600 en hann er að undirbúa sig fyrir maraþon og löngu orðinn vanur þunna loftinu. Eftir tvo tíma yfirgáfum við þennan leikvang (stadium) ef leikvang skyldi kalla. Hann hefur aldrei verið kláraður og því ekki hæfur til mótahalds. Hlaupurunum er slétt sama um það svo lengi sem hægt er að hlaupa á brautinni.

2T9A2968
Íslendingar í góðum hópi
2T9A2971
Íris Dóra í góðum félagsskap og Arnar Pétursson fylgir í humátt á eftir

Miðstöðin sem við höldum til á heitir HATC (High Altitude Training Centre) og var stofnuð árið 1999 af Lornah Kiplagat (fædd 1974) sem var mjög fjölhæfur langhlaupari í fremstu röð í heiminum. Hún gerðist hollenskur ríkisborgari árið 2003. Fór á þrenna Ólympíuleika 2004, 2008 og 2012. Varð heimsmeistari í víðavangshlaupi 2007, átti heimsmetið í hálfmaraþoni (1:06:25) frá 2007 til 2011 og í 5 km götuhlaupi (14:47) í skamman tíma. Sigraði í fjölda maraþonhlaupa m.a. í Amsterdam, Rotterdam, Osaka og Los Angeles en hennar besti tími er 2:22:22 klst.

2T9A2913
Hraðaæfing á HATC
2T9A2917
Íris Dóra, Valur Elli, Elín Sóley, Hulda Fanný

Verðlaunafé í slíkum hlaupum er töluvert og hefur Lornah nýtt það að miklu leyti til að efla langhlaupin í Kenía og látið sig mörg önnur framfaramál varða. Hefur jafnframt látið að sér kveða í viðskiptum og m.a. sett á fót íþróttavörulínuna Lornah Sports. Þá átti hún stóran þátt í því að London Marathon fjármagnaði byggingu æfinga- og keppnisbrautar í Iten fyrir um áratug síðan sem heitir í höfuðið á henni. Við fórum einmitt á þá braut á Páskadag til að taka létta hraðaæfingu. Þar var enginn fyrir utan einn gæslumann. Mjög gott Tartan efni á brautinni en innfæddir æfa þar lítið sem ekkert því það kostar víst 20 USD inn á í hvert skipti. Eitthvað klúður þarna í gangi sýnist mér. Gæslumaðurinn sagði mér að þar færu einungis fram skólamót.

2T9A2941
Elín Sóley og Hulda Fanný

Á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum er boðið upp á tíma hér í HATC þar sem áherslan er lögð á magaæfingar. Þetta eru þekktir tímar hér um slóðir því leiðbeiðendurnir eru kröfuharðir. Djöflast er í um 35 mín og síðan teygjur í 20-25 mín þar á eftir. Unga fólkið skellti sér í þetta en ég þóttist vera upptekinn við bókalestur. Það var satt að hálfu leyti því ég tók bókina hans Ingvars Viktorssonar, þekkts Hafnfirðings, með í ferðina og var að klára hana. Skyldulesning fyrir alla Hafnfirðinga og aðra enda lífshlaup Ingvars fjölbreytt og skemmtilega sagt frá.