Kenía för – Toby Tanser og Shoes4Africa - Pistill 6

uppfært 26. apríl 2023

Margir hlauparar á miðjum aldri muna eftir að hafa æft og keppt við Toby Tanser á árunum 1990-1993 þegar hann bjó á Íslandi. Ég er einn þeirra og kynntist honum vel. Hitti hann síðast árið 2008 á uppboði sem fram fór á Hótel Nordica til fjáröflunar til byggingar skóla í Kenía. Með honum í för þá var þekktur leikari, Anthony Edwards, sem lék Dr. Green í vinsælum læknaþáttum í sjónvarpinu. Við FH-ingar hittum Toby sl föstudag hér í Iten og heyrðum sögu hans. Báðum hann um að byrja á byrjuninni:

2T9A3134
Fagnaðarfundir er Toby og Siggi P. hittast eftir 15 ár

„Ég þótti efnilegur hlaupari er ég var 12 ára og vann nokkur skólahlaup í Englandi. Á unglingsaldri byrjaði ég að drekka og reykja. Árið 1990, þá 22 ára, reykti ég tvo pakka á dag og var stefnulaus í lífinu. Einhverra hluta vegna datt mér í hug að fara til Íslands en þar átti ég skyldmenni en mamma er hálfíslensk. Er þangað kom hitti ég Kristinn Hrafnsson (þekktur fjölmiðlamaður) frænda minn og við fórum út á lífið. Einn daginn rákumst við á auglýsingu um Reykjavíkurmaraþon og ákváðum að skrá okkur í stystu vegalengdina 7 km skemmtiskokk. Sá okkar sem yrði á undan skyldi borga fyrir næstu djammferð. Það sem gerðist var að ég vann hlaupið og hlaupasamfélagið á Íslandi tók eftir mér. Ég ákvað að verða um kyrrt, fékk vinnu og fór að æfa og keppa. Kynntist m.a. sænskri stúlku er við unnum saman í Hagkaup við áfyllingar. Fór svo að ég fluttist með henni til Svíþjóðar eftir þrjú ánægjuleg ár á Íslandi."

2T9A3144
Toby að segja hópnum frá

Toby tók miklum framförum í hlaupunum á Íslandi og var sigursæll. Bætti árangur sinn enn frekar í Svíþjóð og náði best 28:45 mín í 10 km götuhlaupi og 63:02 mín í hálfmaraþoni árið 1997. Kom nokkrum sinnum til Íslands á þessum árum og keppti í hálfmaraþoni í RM á móti Hugh Jones, þekktum enskum hlaupara. En hvernig kom tenging hans við Afríku til?

„Árið 1995 keppti ég eitt sinn við góðan írskan langhlaupara í Svíþjóð. Hann sagðist vera á leið í æfingabúðir til Kenía og vildi fá mig með. Mér leist ekki á þá hugmynd í byrjun og sá fyrir mér alls konar sjúkdóma og vandræði. Lét þó tilleiðast að lokum og ætluðum við að hittast á flugvellinum í Nairobi. Írinn birtist hins vegar aldrei en ég var svo heppinn að rekast á hóp góðra kenískra hlaupara á æfingu er ég kom út af flugvellinum. Náði því strax tengingu og svo fór að dvöl mín varð sjö mánuðir við stífar hlaupaæfingar en í upphafi ætlaði ég einungis að eyða nokkrum vikum í Kenía. Þegar heim kom til Svíþjóðar skrifaði ég niður hjá mér upplýsingar um reynslu mína af keníska hlaupasamfélaginu og árið 1997 kom fyrsta bókin mín af fimm út – Train hard and win easy. Hún vakti mikla athygli og varð söluhæst bóka um hlaupaþjálfun það árið. Samtímis nýtti ég sambönd mín hjá NIKE, sem hafði stutt mig, til að senda skó til Kenía. Þannig varð Shoes for Africa til og ég hef jafnframt margsinnis staðið fyrir söfnun hálfnotaðra hlaupaskóa sem hafa komið að góðum notum í Kenía."

2T9A3186
Toby við bifreið sína sem er kyrfilega merkt Shoes for Africa

Ég minnist þess að þú lentir í alvarlegri árás í Tansaníu og varst hætt kominn.

„Já, ég og þáverandi kærasta mín vorum í fríi á Zansibar, sem er eyja utan við Tansaníu. Þann 29. desember 1999 var ég að hlaupa á ströndinni og mætti tveimur mönnum sem báðu um peninga. Ég hafði þá ekki og þá slógu þeir mig í höfuðið með hornaboltakylfu. Ég höfuðkúpubrotnaði og slasaðist einnig á hendi. Við illan leik tókst mér að komast á hótelið en ég var á þessum tíma í mjög góðu formi. Þegar upp á herbergi kom datt ég og viðbeinsbrotnaði og nefbrotnaði. Lögreglan gerði ekkert í málinu og enga heilbrigðisþjónustu að fá. Það sem bjargaði mér var indverskur læknir sem var staddur þarna og gat gefið mér kvalastillandi lyf. Hann var andlega sinnaður og stappaði í mig stálinu – sagði að líf mitt hefði tilgang og ég myndi ekki deyja. Ég komst á bát yfir til höfuðborgarinnar Dar es Salaam og Indverjinn fylgdi mér. Ekkert flugsæti var í boði til Kenía þannig að ég varð að komast þangað á puttanum. Þar var einungis saumað fyrir sárin – treystu sér ekki til að gera meira. Þá var ég orðinn mjög máttfarinn og komst loks í flug til London á ellefta degi frá árásinni. Vissi að ég myndi aldrei fá að fara í flug ef vitað væri um ástand mitt. Setti á mig hatt og sólgleraugu og reyndi að bera mig vel. Vissi að þetta væri 50/50 en það var ekki um annað að ræða en taka áhættuna. Var heppinn að komast strax á mjög gott sjúkrahús í London og þar var mér sagt að það væri ótrúlegt að ég væri lifandi með svo stóran blóðköggul í höfðinu eftir 11 daga – hefði átt að deyja eftir 4 daga. Svo alvarlegt var þetta. Þetta er þó ekki eina slysið sem ég hef lent í og verið hætt kominn. Árið 2013 var ég að hjóla eftir 5th. Avenue í New York og þá keyrði á mig bíll sem var á röngum vegarhelmingi. Ég kastaðist nokkra metra í loft upp og lenti á höfðinu og var hjálmlaus. Höfðukúpubrotnaði á hinni hliðinni en í þetta sinn komst ég fljótt í hendur lækna. Það er eitthvað til í því sem Indverjinn sagði forðum að líf mitt hafi tilgang – allavega lifi ég eftir því."

2T9A3151
Toby segir frá árásinni í Tansaníu

Aftur til byrjun ársins 2000 – hvernig gekk að ná sér eftir aðgerðina og koma fótunum undir sig að nýju?

„Furðu fljótt og ég flaug til New York mánuði seinna en ég hafði flutt þangað nokkrum árum áður. Á þessum tíma var ég algerlega peningalaus og átti ekkert. Var hins vegar þekktur hlaupari sem hjálpaði mér. Keppti í fjölmörgum hlaupum árið 2000 þar sem verðlaun voru í boði og náði að skrapa saman nægu fé til kaupa mat og borga húsaleigu. Svo byrjaði ég líka að þjálfa og þá jukust tekjurnar. Mér bauðst að taka sæti í stjórn New York maraþonsins árið 2001 og var í stjórninni til 2017. Launalaust en það opnaði ýmsar leiðir fyrir mig m.a. til að afla fjármagns fyrir verkefni mín í Kenía. New York er skemmtileg borg, mikill fjölbreytileiki og tækifæri alls staðar ef maður hefur augun opin."

Aftur til Kenía – ég tók eftir því þegar ég fór í bíltúr með þér um Iten til að hitta fólk og skoða mannvirki að þér er einstaklega vel tekið. Greinilegt að allir bera mikla virðingu fyrir þér. Segðu aðeins frá verkefnum þínum hingað til.

„Ég hef staðið að byggingu sex skóla í sveitahéruðum fyrir börn og heita þeir allir í höfuðið á bestu hlaupurum Kenía en ég vil að börnin hafi þá sem góðar fyrirmyndir. Þá hef ég staðið að byggingu eins sjúkrahúss sem einkum er ætlað fyrir börn en það var opnað í ágúst 2015. Í desember n.k. áætlum við að milljónasti sjúklingurinn komi. Svo mikil er þörfin. Fjármögnunin var ekki auðveld fyrstu árin en ég er þrautseigur og það hefur verið auðveldara að fá styrki og framlög seinni árin. Í undirbúningi er að fara í byggingu sjúkrahúss fyrir krabbameinsveik börn en tíðni þess sjúkdóms hefur aukist töluvert seinni árin, hugsanlega vegna mikillar notkunar eiturefna í landbúnaði. Nú er ég að klára byggingu um 800 fm klúbbhúss fyrir drengi og stúlkur í Iten sem verður vígt í júlí n.k. Það mun breyta miklu fyrir íþróttaiðkun þeirra. Ég er hvergi hættur enda verkefnin næg."

2T9A3153
Klúbbhúsið sem Toby er að reisa í Iten fyrir stúlkur og drengi

Þú ert mikið á ferð og flugi.

„Já, þar til 2020 bjó ég í New York og á einnig íbúð í Eldoret en nágranni minn er enginn annar en David Rudisha, heimsmetshafi í 800 m (1:40,91). Bý nú í Seattle ásamt eiginkonu minni sem er kenísk og ég kynntist árið 2012. Hún var á sínum tíma í keníska landsliðinu í landhokkí og líka góður hlaupari. Frá árinu 2007 hef ég haft þann háttinn á að búa í einn mánuð í senn í USA og einn mánuð í Eldoret. Hef skipt þessu þannig nokkurn veginn sem auðvitað hefur haft í för með sér mikil ferðalög."

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?

„Ég er nægjusamur og hef lært margt af Keníubúum. Ég mun halda starfi mínu áfram og aldrei að vita nema ég gerist bóndi í Kenía síðustu ár æfi minnar. Á þegar þokkalega stóra jörð með 50 kúm og 25 kindum sem aðrir sjá um núna fyrir mig. Gæti tekið yfir reksturinn en fyrst hef ég hug á að byggja mér hús í Eldoret."

Toby, sem verður 55 ára í júlí, sagði okkur einnig frá því hvernig Keníabúar æfa, hvernig þeir nálgast æfingar og keppni og mörgu fleiru sem snýr að hlaupaþjálfun m.a. afrekum föður Colm O‘Donnell sem þjálfaði marga bestu hlaupara Kenía. Það er efni í aðra umfjöllun. Sannarlega gaman fyrir hópinn að hitta þennan merkilega mann og fræðast af honum. Gangi honum sem best í framtíðinni.

2T9A3180
Toby og Siggi P. með írska prestinum Colm O'Donnell

.