Laugardalshöllin skilar sér - athuga með hlaupaseríu

birt 21. febrúar 2006

Greinilegt að tilkoma nýju frjálsíþróttaaðstöðunnar í Laugardal er að skila sér mjög vel í aukinni þátttöku og bættum árangri. Meistaramót í fullorðinsflokki fór fram um síðustu helgi og náðist góður árangur hjá hlaupurum. Kári Steinn og Stefán Guðmundsson náðu fínum tímum í 3.000 m hlaupi og sömuleiðis var gaman að sjá að 2:15 mín dugðu aðeins í 3. sætið í 800 m hlaupi kvenna, en þar hlupu Stefanía Hákonardóttir og Íris Anna Skúladóttir báðar á 2:13 mín. Margt fleira mætti nefna en unga fólkið er í greinilegri framför.

Öldungameistaramótið var haldið fyrr í mánuðinum og er ég viss um að þegar fram í sækir mun þetta verða mun fjölmennara mót og öflugra. Það tekur tíma fyrir eldri hlaupara að færa sig á innibrautirnar. Margir vilja frekar vera úti,  sérstaklega þegar veðrið er jafn gott og undanfarið. Þó svo þátttakan hefði mátt vera betri í hlaupunum var þó margt áhugavert að gerast. Stefán Sigtryggsson (1970) sýndi að hann er öflugur millivegalengdahlaupari og gamli landsliðsmaðurinn í 3.000 m hindrunarhlaupi, Hafsteinn Óskarsson (1959) hljóp 800 m mjög vel (2:09). Bæði hann og Steinn Jóhannsson (1968) tóku síðan þátt í MÍ um síðustu helgi og hlupu 1.500 m mjög vel (4:25).

Mér finnst áhugavert fyrir næsta vetur að Öldungaráð FRÍ setji upp eins konar mótaseríu fyrir öldunga. Þar gæti verið hlaupasería þar sem gefin væru stig eins og í Powerade hlaupunum. Hugsa má sér eitt hlaup í mánuði t.d. nóv-des-jan-feb þar sem boðið væri upp á keppni í tveimur flokkum þ.e. annars vegar 800/1.500 (millivegalengd) og hins vegar 3.000/5.000 (langhlaup). Þannig myndi í nóv vera keppt í 800 og 3.000 og í des í 1.500 og 5.000 eða til skiptis. Þetta gæti verið skemmtilegur valkostur fyrir hlaupara, sérstaklega þá sem búa yfir hraða. Hingað til hefur millivegalengdatýpunum ekki staðið mikið til boða að keppa í styttri vegalengdum en 10 km.