Litið yfir júlí að afloknu sumarfríi

birt 08. ágúst 2005

Jæja, þá er maður sestur aftur við skrifborðið að afloknu sumarfríi. Við hlaupahjónin vorum svo heppin að fá besta veður sumarsins meðan við dvöldum í sumarbústað í Borgarfirðinum 22.-29. júlí. Ísland er frábært land í góðu veðri og hvergi skemmtilegra að ferðast. Það er maður að átta sig betur og betur á eftir því sem árin líða. Við notuðum tækifærið til að skoða staði sem við höfðum ekki komið á áður. Hafði ekki áður komið í Surtshelli, að Glanna, að Langavatni, á Arnarstapa eða upp að Snæfellsjökli. Daginn sem við fórum upp að jöklinum var ekki ský á himni og þvílíkt útsýni í allar áttir að maður stóð bergnuminn. Fengum bónus eftir að hafa skoðað fossinn Glanna í Norðurá þegar við litum við í Paradísarlaut. Þar voru fimm ungir menn nýkomnir úr sumarprófi í Háskólanum í Bifröst. Þeir voru að halda upp á próflokin og brugðu á leik og stukku úr um 6 m hæð ofan í hylinn sem er ískaldur. Þessi sýning var óvænt en skemmtileg - hressir piltar, sem reyndar höfðu fengið sér smá hressingu að mér sýndist.

Þá eru það hlaupin. Það sem mér finnst standa upp úr í júlí er afrek Björns Margeirssonar þegar hann hljóp 800 m á 1:49,98 mín. sem er þriðji besti tími Íslendings á þeirri vegalengd og sá besti í 17 ár. Björn meiddist illa fyrir nálega einu og hálfu ári en hefur sýnt ótrúlega þolinmæði og natni við að vinna sig í form að nýju. Árangur hans sýnir að það er engin ástæða til að gefast upp þó útlitið sé svart. Koma tímar og koma ráð. Laugavegshlaupið fór fram um miðjan mánuðinn og enn og aftur sýndi Steinar Friðgeirsson, jafnaldri minn, hversu seigur hann er í slíkum þolraunum. Annars vakti mesta athygli mína frábært hlaup hjá Þórði Sigurvinssyni sem stórbætti sinn fyrri tíma kominn á sextugsaldur. Það vantar ekki seigluna og dugnaðinn í Þórð. Eitt sinn hljóp hann maraþonvegalengdina í Reykjavík nánast á öðrum fæti. Katrín Þórarinsdóttir er líka nagli og hljóp vel. Það gerði einnig hin tæplega tvítuga Rakel Ingólfsdóttir sem þekktari er fyrir brautarhlaup. Hún hefur átt við erfið meiðsli að stríða en árangur hennar sýnir að allar æfingarnar í gegnum árin safnast saman í bankann og byggja upp styrk og seiglu. Hins vegar er oft vandasamara að stilla strengina saman í brautarhlaupunum þar sem þarf að vera gott jafnvægi milli styrks, hraða og úthalds. Ég og nokkrir félagar ætluðum að vera með í Laugaveginum og vorum komnir ágætlega af stað í undirbúningi en þegar álagið fór að aukast í maí og júní lentu þrír okkar í hásinameiðlsum og sá fjórði datt aftur fyrir sig á golfvelli og var frá í tvær vikur (hvernig er það hægt?). Fór svo að Grímur Ólafsson var eini fulltrúi okkar í hlaupinu og stóð sig reyndar mjög vel í sínum fyrsta Laugavegi (5:42). Já, svona er þetta. Ef maður ætlar að takast á við slík stórverkefni þarf undirbúningur í raun að hefjast strax að hausti. Annars er hætt við að aukning álags verði of brött.